Frestun á fundum Alþingis
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Tillaga liggur hér fyrir um frestun funda Alþingis í allt að fjórar vikur eða að það komi saman eigi síðar en 6. febrúar. Þingmenn Sjálfstfl. ætla ekki að leggja stein í götu þessarar tillögu og er það fyrst og fremst vegna þess að hæstv. forsrh. hefur gefið hér yfirlýsingu um það að ef ríkisstjórnin telji nauðsyn á lagasetningu meðan á þessari frestun funda stendur muni hæstv. forsrh. hafa samband við stjórnarandstöðuna og ef hún telji nauðsynlegt að kalla þing saman verði svo gert.
    Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. forsrh., en þrátt fyrir hana getum við þingmenn Sjálfstfl. ekki greitt þessari tillögu atkvæði okkar og það er vegna þess hversu mörg mál bíða afgreiðslu á hv. Alþingi. Ég hef að vísu ekki alveg nákvæma tölu um stöðu þingmála nú, en ég held að ég fari þó nokkuð nálægt hinu rétta þegar ég segi að af stjfrv. sem lögð hafa verið fram hafa 18 verið samþykkt sem lög en 28 bíða óafgreidd, flest ef ekki öll í fyrri deild og þar á meðal er 1. mál þingsins, um verðbréfaviðskipti, sem ef ég man rétt hæstv. ríkisstjórn lagði töluverða áherslu á að yrði að lögum sem fyrst. Af þmfrv. eru tvö orðin að lögum. Í nefnd í fyrri deild eru 20 frv. og 9 frv. bíða þess að talað verði fyrir þeim í 1. umr. Það hafa tvær þáltill. verið samþykktar, 21 er í nefnd og 33 þáltill. bíða þess að talað verði fyrir þeim. Ég hef ekkert sérstakt yfirlit um fyrirspurnir, enda skipta þær kannski minna máli, en þó veit ég að margar bíða afgreiðslu. Mér telst því til að af málum sem lögð hafa verið fyrir þingið, frv. eða þáltill., hafi 22 verið afgreidd en 111 bíði afgreiðslu.
    Af þessu má sjá að hér er margt að vinna og því hefðum við talið skynsamlegra að fresta fundum þingsins í skemmri tíma, t.d. um tvær vikur. Þessa vildi ég láta getið, hæstv. forseti, og ítreka það um leið að þingmenn Sjálfstfl. munu sitja hjá við afgreiðslu þessarar tillögu.