Vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Mér hefur borist fsp. sem ég tel ekki falla að ákvæðum þingskapa um fyrirspurnir og hef því ekki samþykkt fsp. Fyrirspyrjandi hefur óskað eftir því að hún verði borin upp í Sþ. og styðst þar við 31. gr. laga um þingsköp. Því hefur fsp. verið sett á dagskrá og ber nú þinginu að greiða atkvæði um hana. Fyrirspurnin er svohljóðandi:
,,1. Er ráðherra samþykkur þeirri skoðun, sem utanrrh. lýsti á opinberum fundi á Akureyri 21. jan. sl., að 150 af 166 starfsmönnum Seðlabankans starfi við að naga blýanta?
    2. Ef svo er:
    a. Hefur farið fram könnun á vinnubrögðum starfsfólksins?
    b. Hvaða 16 starfsmenn bankans vinna við annað en að naga blýanta og við hvað starfa þeir?
    c. Hvaða aðgerðum mun ráðherra beita til að koma í veg fyrir að slík vinnubrögð starfsmanna viðgangist?
    3. Ef svo er ekki:
    a. Ætlar viðskrh. að hreinsa starfsfólk bankans af áburði utanrrh.?
    b. Ætlar viðskrh. að beita sér fyrir því að utanrrh. biðji starfsmenn bankans afsökunar?
    c. Mun ráðherra mælast til þess að slíkar yfirlýsingar verði ekki endurteknar?``
    Með tilvísun til 31. gr. laga um þingsköp, 1. mgr., hefur forseti hafnað þessari fsp. og leggur það nú til atkvæða í Sþ. hvort hv. þm. telja að leyfa skuli fyrirspurnina.