Vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Forustusveit Sjálfstfl. fer hér hamförum, er hamstola, hugstola eða hvað á að kalla það, þeir ráða sér ekki fyrir reiði og vefengja að hér hafi verið rétt að verkum staðið í gær með úrskurði og ákvörðun þingsins. Auðvitað var það rétt og óaðfinnanlega gert í alla staði, það var rétt sem gert var í gær.
    En vegna þeirra ummæla sem hér hafa orðið að umræðuefni og fjallað er um vil ég segja þetta: Það er öllum ljóst hvað við var átt með þessum ummælum. Það hefur komið fram hér, það hefur komið fram áður. Ég skal að vísu viðurkenna að ég hefði kosið að öðruvísi hefði verið til orða tekið. En það er öllum ljóst við hvað var átt. Það hefur verið skýrt út hér.
    Ég vil hins vegar frábiðja mér það, virðulegi forseti, að þurfa að sitja undir sérstökum umvöndunum frá hv. 17. þm. Reykv. Geir H. Haarde sem hafði þau orð hér að þetta væri mjög alvarlegt mál, ráðherrar sæjust ekki fyrir í blaðri o.s.frv. Ég vil frábiðja mér og þingheimi öllum umvandanir frá þessum hv. þm. Ég minni á að fyrir stuttu var haft eftir honum á opinberum fundi um hæstv. fjmrh. núv. ríkisstjórnar að það að gera einstaklinginn Ólaf Ragnar Grímsson að fjmrh. í ríkisstjórn Íslands væri það sama og að gera Drakúla greifa að bankastjóra Blóðbankans. Þetta átti kannski að vera fyndið, en þetta var ekki fyndið. Með þessum ummælum hv. þm., sem voru endurtekin í öllum fjölmiðlum, færði hann pólitíska umræðu á Íslandi niður á enn nýtt neðsta plan og voru þó forustumenn Sjálfstfl. búnir að færa umræðuna ærið langt niður áður. En honum tókst að færa hana enn þá neðar. Þessi ummæli voru ekki aðeins ósæmandi fyrir þingmann. Þau voru ósæmandi fyrir hvern mann og ég átti ekki von á þeim frá þeim skýra og annars dagfarsprúða hv. þm. sem hér á í hlut. En það sýnir hvert örvæntingin leiðir menn og hvert örvæntingin er að leiða leiðtoga Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu og ég frábið mér aftur og enn að þurfa að hlusta á umvandanir frá hv. þm. sem brúkar slíkt orðbragð um samstarfsmenn sína á Alþingi Íslendinga.