Takmörkun rækjuveiða á næsta ári
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Fyrirspurnirnar eru svo samkynja að óhætt er að svara sumu því sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh. undir þessum dagskrárlið. Varðandi fsp. eins og hún liggur fyrir á þskj. 145, ,,Hvernig verður brugðist við fyrirsjáanlegum samdrætti í úthafsrækjuveiðum á næsta ári varðandi veiðikvóta og rækjuvinnsluleyfi?``, liggur svarið fyrir varðandi fyrri hluta fsp. en ekki hinn síðari. Ég minni á að á sl. ári var rækjukvótinn 36 þúsund tonn, en hins vegar var verksmiðjunum úthlutað 40 þús. tonnum til vinnslu og það var rökstutt með því að það hefðu verið gefin út svo mörg rækjuvinnsluleyfi að óhjákvæmilegt væri að skammta vinnsluna fyrir hverja verksmiðju. Jafnframt lá raunar fyrir, ef við förum aftur til ársins 1987, að sjútvrn. hafði sagt t.d. þeim einstaklingum sumum hverjum sem höfðu keypt frystitogara að þeir gætu nýtt skipin til rækjuveiða og þeir hvattir þannig óbeinlínis til þess að fjárfesta í slíkum tækjum eins og t.d. Mánabergið í Ólafsfirði sem hefur nokkra tugi milljóna bundna í veiðarfærum og búnaði, en beinlínis var stofnað til þeirrar fjárfestingar vegna ábendingar frá sjútvrn. um að togaranum mætti síðar beita á rækju sem síðan varð ekki raunin á. Það er bæði satt og rétt hjá hæstv. sjútvrh. að menn eigi að bera ábyrgð á eigin fjárfestingu og eigin gerðum, en hitt er líka satt og rétt að ef menn eru með opinbera forsjá bara að hálfu leyti og ef hin opinbera forsjá er villandi getur hún valdið einstaklingum mjög tilfinnanlegu tjóni. Með hliðsjón af þessari reynslu og annarri, sem ég mun víkja að í síðari ræðu minni, er mjög þýðingarmikið að fyrir liggi og ætti raunar að liggja þegar fyrir fyrir áramót hvaða stefnu sjútvrn. hafi varðandi rækjuvinnsluleyfi á þessu ári.