Viðvörunarskilti á Reykjanesbraut vegna hálku
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir skýrt og greinargott svar. Ég vil þó taka það fram að mér finnst mjög eðlilegt að öll aðvörunarskilti séu með rauðu ljósi en ekki öðrum litum af því gefna tilefni sem kom áðan. Ég vona að þetta starf hefjist, sú veðurfræðilega könnun sem menn tala um að sé nauðsynleg til þess að geta þjónustað slíkar aðvörunarstöðvar, hvort sem það er fyrir starfsmenn sem eiga að þjónusta veginn eða fyrir vegfarendur sjálfa. Ég held hins vegar að það megi ekki gera málið allt of flókið í sjálfu sér. Ég held að það væri vert að prufa þetta jafnvel þó það væri ósjálfvirkt og starfsmenn Vegagerðarinnar kveiktu við viss tilfelli á skiltum og það mætti þannig prufa sig áfram í þessu. Mér er fullkomlega ljóst og ekki síst á Reykjanesbrautinni að veðurfarsbreytingar eru mjög örar þannig að það er ekki hægt að gefa neitt einhlítt svar við því. En ég er þó sannfærður um að ef maður fengi aðvörunarljós við upphaf vegar, segjum hjá álverksmiðjunni þegar ég er á leið suður eftir, mundi maður vera betur viðbúinn því að slíkar aðstæður gætu skapast á leiðinni suður eftir og það þyrfti því ekki að skipta veginum endilega mjög mikið niður. Ég er sannfærður um það alveg eins og ég veit að sú lýsing sem komin er t.d. í kringum Hafnarfjörð og á leiðinni upp í Mosfellssveit hefur róað umferðina og menn eru betur viðbúnir öllum óvæntum tilfellum á leiðinni.
    Að öðru leyti þakka ég ráðherra fyrir svar hans.