Loðdýrarækt
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 400 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar varðandi loðdýrarækt. Á undanförnum árum hefur um fátt verið meira rætt en þann vanda sem við er að etja í hefðbundnum búgreinum. Stjórnvöld mættu þessum vanda á sínum tíma með því að hvetja menn til búháttabreytinga, reyna nýjar arðvænlegar búgreinar.
    Ein þessara búgreina er loðdýraræktin. Fyrir örfáum árum átti þetta að verða stóra tækifæri bænda. Sá stjórnmálamaður var varla til eða ráðgjafi í landbúnaði sem ekki hélt langar ræður um þennan spennandi atvinnuveg. Arðsemisútreikningar lofuðu öllu fögru og mönnum var nánast boðin fyrirgreiðsla. Vandinn var leystur. Nú aðeins 4--5 árum seinna er ljóst að útreiknaðar tölur voru rangar, mörg mistök hafa átt sér stað í skipulagi og undirbúningi loðdýraræktarinnar og því er komið í óefni. Gjaldþrot þeirra bænda em hlýddu ráðum stjórnvalda og hlustuðu á ráðgjafana blasir við. Fóðurstöðvar, sem reistar voru og eiga að þjóna búgreininni og eru að hluta til í eigu bændanna sjálfra, eru í miklum fjárhagsörðugleikum.
    Hér verður ekki um kennt óráðsíu bænda eða stjórnenda fóðurstöðva. Lágt skinnaverð er auðvitað hluti af vandanum. En hann má líka rekja til lélegrar undirbúningsvinnu og rangrar efnahagsstjórnar. Í dag blasir svo vandinn við og bíður úrlausnar. Vissulega er þörf á ráðstöfunum og síðan að setjast niður og skoða hvort refa- eða minkarækt eigi hér framtíð fyrir sér og þá að tryggja rekstrargrundvöll búgreinarinnar.
    Fyrir stuttu birtist fréttatilkynning frá landbrn. um þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hyggst grípa til og svara að hluta til þeim spurningum sem ég hef lagt hér fram. En nánari útfærslu á þeim tillögum sem þar um ræðir vantar og túlkanir fjölmiðla oft afar villandi. Því er rétt að hæstv. landbrh. geri grein fyrir tillögum ríkisstjórnarinnar hér. Því spyr ég:
,,1. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu stjórnvalda til þess að bregðast við vanda loðdýraræktar í landinu?
    2. Hvað hyggst ríkisstjórnin gera á næstunni til þess að treysta rekstrargrundvöll loðdýraræktar?
    3. Hver er afstaða ráðherra til þess að viðmiðunarbústærð við lánveitingar úr Stofnlánadeild verði aukin?
    4. Mun ráðherra beita sér fyrir því að Framleiðnisjóður greiði styrki vegna búháttabreytinga úr refarækt í minkarækt að fullu á árinu 1989?``