Loðdýrarækt
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. greinargóð svör hvað varðar þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um. Ég vil hins vegar ítreka þá skoðun mína að heildarúttekt á loðdýrabúskap þarf að fara fram, athuga hvort raunhæfir möguleikar eru á því að stunda þessa búgrein hér miðað við það ástand sem ríkir nú og yfirlýsingar forsvarsmanna loðdýrabænda um þær ráðstafanir sem hér um ræðir. Þeir telja að meira þurfi að koma til.
    Danskir loðdýrabændur sem búa við allt aðra og að mati loðdýrabænda hér betri fyrirgreiðslu en hér er til staðar telja sig þurfa 30% hærra verð fyrir afurðir sínar til þess að greinin beri sig nú. Ef svo er, hver er þá framtíðin hér? Það er vissulega þörf á heildarúttekt á loðdýrarækt og stöðu hennar hér á landi og að taka síðan ákvarðanir um framhaldið eftir það.