Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt munað hjá hv. 1. þm. Reykv. að ég nefndi mánuðinn janúar þegar ég tímasetti það hvenær við því væri búist að skýrslan bærist frá fyrirtækinu Appledore sem hv. þm. meðan hann var iðnrh. fékk til þess að vinna ásamt öðrum að mati á stöðu íslensks skipaiðnaðar, verkefnum fram undan og hvaða leiðir væru best til þess fallnar að auka hagkvæmni í þessum rekstri og veita íslenskum fiskiskipaeigendum góða þjónustu hér á landi, ekki síst hvað varðar viðgerðir. Því miður, eins og verða vill með skýrslugerðir, hefur skýrslan enn ekki borist. Þess vegna hefur henni heldur ekki verið dreift hér á þinginu þótt mánuðurinn janúar sé liðinn eins og hið glögga tímaskyn þingmannsins leiddi hann til þess að trúa. Það er alveg hárrétt. Ég mun dreifa skýrslunni svo skjótt sem hún er aðgengileg og gera þá grein fyrir því í þinginu skriflega sem þar eru helstu atriðin.
    Ég talaði hér í umræðunni fyrr, sem að vísu er nokkuð langt um liðið, um efni þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir hv. Alþingi og ætla ekki að orðlengja um það, en vildi eingöngu segja það að ég legg þar mesta áherslu á að veita innlendum skipasmíðaiðnaði jafna aðstöðu hvað varðar útvegun fjármagns vegna meiri háttar endurbóta á skipum hér á landi, sé merki þess að hlutur innlendra skipasmiðja í viðgerðum sé að aukast að nýju. Það kemur mjög glöggt fram í athugun sem gerð hefur verið á því máli. Að vísu er það rétt að vegna breyttra aðstæðna í sjávarútvegi verða minni verkefni bæði til nýsmíða og meiri háttar endurbóta hjá íslenska fiskiskipaflotanum á árinu 1989 heldur en var á undanförnum árum, en það er mjög greinilegt að hlutur innlendu stöðvanna fer vaxandi í þessu og ég mun fyrir mitt leyti gera það sem ég get til þess að sú þróun haldi áfram og að íslensku stöðvarnar fái sem flest verkefni, enda hefur í ljós komið að sum þau verk sem unnin voru erlendis reyndust þurfa úrbóta eftir að heim var komið.