Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. hefur óskað eftir því að þetta mál fái fljóta og greiða meðferð í fjh.- og viðskn. þingsins. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að svo geti orðið og sérstaklega fagna ég þeirri yfirlýsingu hv. 4. þm. Austurl. Egils Jónssonar að hér sé í rauninni um mjög lítið mál að ræða. Þetta sé eitt af þeim leiftrum sem ríkisstjórnin hafi í áróðursskyni skotið upp á himininn og sé í rauninni lítið mál og léttvægt. Ég hlýt að líta svo á að með þeim orðum gefi hann til kynna að þetta mál þurfi ekki langa né ítarlega umfjöllun í nefndinni. Raunar er þetta mál mjög einfalt og getur tekið mjög skamman tíma í nefndinni. Þetta mál er líka þess eðlis að það er eðlilegt að það fái greiða og fljóta afgreiðslu í nefndinni.
    Vegna þess að hv. þm. minntist hér á hitaveitur, sérstaklega Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Hitaveitu Akureyrar, þá langar mig aðeins til þess að nefna það að annað þessara fyrirtækja, Hitaveita Akureyrar, hefur nú orðið fyrir fjárhagslegum skakkaföllum, ef marka má bréf það sem þeir skrifa mér í gær sem formanni fjh.- og viðskn., vegna þess hve mikill dráttur hefur orðið á því að afgreiða lánsfjárlög héðan í þinginu. Það var ætlun okkar í stjórnarmeirihlutanum að afgreiða lánsfjárlög snemma í desember. Það tókst ekki. Ég ætla ekkert að segja hvers vegna, hv. þm. En í þessu bréfi, sem mér barst frá Hitaveitu Akureyrar í gær, segir:
    ,,Þar sem vextir fara nú hækkandi erlendis lítur út fyrir að sá dráttur sem orðinn er á afgreiðslu lánsfjárlaga kunni að kosta Hitaveitu Akureyrar nokkurt fé auk þess sem framlenging skammtímalána sem var neyðarlausn 31. jan. kostaði Hitaveitu Akureyrar útgjöld sem ekki hefðu komið til ef lánsfjárlög hefðu legið fyrir.`` --- En það er hins vegar skylt að skýra frá því að samkomulag er nú um það seint og um síðir að lánsfjárlög verða afgreidd úr fjh.- og viðskn. á mánudagsmorgun. Ég vona svo sannarlega að við getum líka verið fljót, þó með allri eðlilegri athugun, að afgreiða það mál sem hér er nú til umræðu og þau mál önnur sem hraða ber í gegnum þingið, sérstaklega í ljósi ummæla hv. þm. Egils Jónssonar, að þetta séu í rauninni einföld mál og ekki torskilin eða flókin og geti þess vegna fengið greiða afgreiðslu.