Ríkisreikningur 1979
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Það vekur athygli þegar dagskrá er útbýtt hér í dag að hér er frv. til laga til samþykktar á ríkisreikningi 1979 og hér er frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árin 1981--1986. Það sýnist skorta á til þess að bókhaldið sé nú allt í lagi, ríkisreikninginn 1980. ( SighB: Hann var afgreiddur einhvern tíma í millitíðinni en menn gleymdu 1979.) Hann var afgreiddur í millitíðinni en menn gleymdu 1979 upplýsir hv. formaður fjvn. og það var einmitt það sem ég ætlaði að koma hér fram með að þannig hafði nú til tekist.
    Ég vil taka undir það sem hv. 5. þm. Vestf. sagði varðandi það hvernig unnið hefur verið að samþykkt og gerð ríkisreiknings og fjáraukalaga, en ég vil þó vekja athygli á því að á fyrirkomulaginu hefur orðið breyting með því að Ríkisendurskoðun heyrir nú undir Alþingi og nú er það Ríkisendurskoðunar að sjá um þá endurskoðun sem fram fór á vegum fjmrn. áður fyrr.
    Eins og hv. 5. þm. Vestf., formaður fjvn., tel ég að þetta geti ekki gengið og mér sýnist að það sem hér er verið að gera sé það að verið sé að hreinsa til til þess að þessir hlutir geti verið í lagi eins og þeir voru. Ég vil gjarnan undirstrika það að þegar ég vék úr embætti fjmrh. 1978 hafði ríkisreikningur fyrir árið 1977 verið lagður fram óendurskoðaður, en ríkisreikningurinn fyrir árið 1976 hafði verið lagður fram endurskoðaður og samþykktur á næsta Alþingi á eftir.
    Ég tel að þannig eigi að þessu að standa og mér skilst að Ríkisendurskoðun vinni að því að þannig verði það. Við komum því til með að sjá betri tíð og blóm í haga í sambandi við þessa hluti. En það er rétt, og aldrei nógu oft undirstrikað, hversu þýðingarmikið það er fyrir fjárveitingavaldið að geta fylgst með þessum hlutum, ekki bara frá ári til árs heldur frá mánuði til mánaðar til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir því hvernig ríkisfjármálin standa og það er ekki bara fjmrn. sem það þarf að vita, og veit stundum alls ekki hvernig hlutirnir standa, það er líka fjárveitingavaldið sem þarf að vita það, þ.e. Alþingi.