Breytingar á dagskrá
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að verða að taka undir undrun hv. þm. á þessari dagskrárbreytingu. Ég vil aðeins upplýsa það að ég kom að máli við forseta í gær og benti á að frv. það sem ég hugðist mæla hér fyrir, og væntanlega fæ leyfi til eins og mér hafði verið lofað, er afrakstur stjórnskipaðrar nefndar, skipaðri fulltrúum allra flokka um svo mikilsvert mál sem er ný þjóðminjalög, frv. til nýrra þjóðminjalaga. Forseti taldi engin vandkvæði á því að þetta mál kæmi á dagskrá í dag þar sem mjög fá þingmannafrv. liggja nú fyrir hv. Nd. Það var hins vegar ekki fyrr en rétt fyrir hádegið í morgun að mér varð ljóst að búið var að breyta dagskránni. Nú er það svo að mér er það ekkert sáluhjálparatriði hvort ég mæli fyrir þessu frv. í dag eða á morgun ef hv. 1. þm. Vesturl. finnst óbærilegt að fyrir þessu verði talað í dag eins og dagskrá boðaði. Þess er hins vegar ekki nokkur þörf að tengja þessi frumvörp saman, þannig að það eru engin rök.
    En ég vil ítreka það, hæstv. forseti, að mér er alveg ljóst að þarna hefur forseti vor lent í vanda en mér þykja þetta satt að segja ekki skemmtilegar aðferðir hv. þm. að þrengja sér inn í áður boðaða dagskrá með svo miklum þrýstingi á hæstv. forseta að hann hlaut undan að láta. Ég vil þá fremur fá að tala fyrir þessu máli á þingfundi á morgun heldur en að fara að kljúfa það niður í framsögu og síðari umræður á öðrum fundi ef hæstv. forseta væri það að meinalausu.