Stjórn efnahagsmála o.fl.
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður, enda er þetta frv. ekki stórt í sniðum né sérstaklega flókið og í raun og veru engin ástæða til þess að leggjast gegn því. Ég vil hins vegar í tilefni af ummælum hæstv. ráðherra áðan taka undir að vissulega er það ekki í anda upphaflegra hugmynda um verðtryggingu að ofan á verðtryggingu skuli einnig bætast breytilegir vextir, enda má gera ráð fyrir að verðtryggingin sem slík eyði þeirri óvissu sem hlýst af breytilegu verðlagi. Þetta er rétt hjá ráðherranum og ástæðulaust að amast við því að Seðlabankanum sé veitt heimild til að ákveða að vextir verðtryggðra útlána skuli vera óbreytilegir á lánstímanum.
    Hins vegar er óhjákvæmilegt að nefna í þessari andrá vexti af ýmsum þeim skuldbindingum sem ríkissjóður býður upp á. Mér eru þá ofarlega í huga t.d. vextir á húsnæðislánum sem eru að vísu breytilegir samkvæmt skilmálum bréfanna þó að þeim hafi ekki verið breytt, a.m.k. ekki í seinni tíð, en eru hins vegar það lágir að fjárhagsafkomu og framtíðarhag byggingarsjóðanna er stefnt í voða innan ekkert mjög langs tíma eins og hefur verið rætt hér í hv. deild.
    Ég held að ef menn fara inn á þær brautir að taka upp óbreytilega vexti á verðtryggðum lánum sé jafnframt óhjákvæmilegt að horfast í augu við fjárhagsafkomu t.d. byggingarsjóðanna og gera þá ráðstafanir til að tryggja að það endurgjald sem krafist er fyrir slík lán nægi til að standa undir sjóðunum til frambúðar. En þá verður að koma til móts við þá sem talin er ástæða til að leggja lið með öðrum hætti og dæmið þá reiknað í heild og lagt fram fé til að standa undir slíkum stuðningi þannig að það þurfi ekki að bitna á heildarafkomu sjóðanna eins og nú horfir.
    Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umræðu. Ég vil að öðru leyti ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég tel að það markmið sem felst í þeirri breytingu sem hér hefur verið kynnt sé góðra gjalda vert. En ég tel að hæstv. viðskrh. sé nokkuð bjartsýnn ef hann telur að verðbólga á næstunni verði svo lítil að það séu horfur á að unnt verði að hverfa frá verðtryggingunni með þeim hætti sem hann og aðrir stjórnarsinnar hafa gert sér vonir um. Það held ég að sé nú fullmikil bjartsýni og mér heyrðist ég heyra vott um að hann gerði sér sjálfur mætavel grein fyrir þessu þegar hann margundirstrikaði í framsöguræðu sinni fyrir frv. að nauðsynlegt væri að gera þessar breytingar í fyllingu tímans, þegar aðstæður allar á fjármagnsmarkaði og í efnahagsmálum í þjóðfélaginu almennt gera það kleift. Þetta held ég að sé hárrétt hjá ráðherranum og sjálfsagt ekki að ástæðulausu heldur að gefnu tilefni sem hann undirstrikaði þetta í sinni framsögu.