Umhverfisráðuneyti
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hæstv. menntmrh. hefur efnt til nokkuð sérstakrar umræðu í tilefni af því máli sem hér hefur verið flutt og á sinn sérstaka hátt lagt framlag til málefnalegrar umræðu eins og hann gjarnan tekur fram í hvert skipti sem hann stendur upp og talar úr þessum ræðustól. Ég ætla aðeins að víkja að orðum hans vegna þess frv. sem nokkrir þingmenn Sjálfstfl. hafa flutt.
    Aðdragandi þess máls var sá að í tíð fyrri ríkisstjórnar hafði ég sem forsrh. frumkvæði að því að þeir stjórnarflokkar sem áttu aðild að þeirri stjórn skipuðu þriggja manna nefnd til að vinna að tillögugerð um hvernig skipa ætti stjórn umhverfismála í landinu. Þeir sem sátu í þeirri nefnd á vegum þáv. ríkisstjórnar komust að sameiginlegri niðurstöðu. Þeirri stjórn vannst hins vegar ekki tími til að koma því máli fram og þar liggur að baki saga sem ástæðulaust er að lengja þessa umræðu með. Ég hef hins vegar ekki orðið var við neinn brennandi áhuga af hálfu núv. hæstv. ríkisstjórnar að koma skriði á þetta mál og þess vegna tók Sjálfstfl. af skarið í því efni að flytja á Alþingi frv. um þetta atriði. Ég hygg að mjög mikill meiri hluti þingmanna telji brýnt að með löggjöf verði yfirstjórn umhverfismálanna samræmd. Það hefur komið á daginn að áhugi virðist ekki vera mikill innan núv. hæstv. ríkisstjórnar. Því er þetta frv. flutt og það liggur fyrir Nd. Alþingis.
    Ég vil taka það fram að sjónarmiðið að baki þessu frv. var m.a. það að tryggja eðlilega skilvirkni í yfirstjórn þessara mála þannig að unnt reyndist á stjórnskipulegan hátt að taka þau með nýjum og ákveðnari tökum en um leið að gæta þess eðlilega kostnaðaraðhalds sem sérhver ríkisstjórn þarf að hafa í huga vegna útþenslu ríkisbáknsins og þess að hverri ríkisstjórn eru nokkur takmörk sett um það hversu langt hún getur gengið í vasa borgaranna með því að auka skattheimtuna.
    Ég hef hlustað á nokkrar ræður hæstv. fjmrh. um nauðsyn aðhalds í ríkisbúskapnum, yfirlýsingar um að ekki verði ráðið í stöður, ekki verði ráðið í stað þeirra starfsmanna sem hætta og nú eigi ekki einungis að stöðva fjölgun ríkisstarfsmanna heldur að fækka ríkisstarfsmönnum með miklu aðhaldi og mánaðarlegum fundum. Svo kemur hæstv. menntmrh. rétt ofan í þessa ræðu hæstv. fjmrh. og formanns Alþb. og talar um nauðsyn þess ef eitthvað eigi að gera af viti í umhverfismálum að stórauka báknið og stórhækka skattana, það verði ekkert gert með vitrænum hætti í þessum málum nema fjölga stofnunum, fjölga ríkisstarfsmönnum og stórhækka skatta. Mér sýnist að þær gangi á misvíxl yfirlýsingar fyrrv. formanns Alþb. og núv. formanns, hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh., og það er málefnaleg ábending til hæstv. ráðherra að huga að innanbúðarvanda í eigin flokki að þessu leyti og þeirri ríkisstjórn sem hann situr í áður en hann fer að senda Sjálfstfl. skeyti vegna þess frumkvæðis sem hann hefur tekið í málatilbúnaði að því er varðar umhverfismálin á þessu þingi.