Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég skrifa undir nál. minni hl. með fyrirvara. Það er ekki mikið sem ég hef við það að athuga og ætla ég ekki að skýra frá þeim atriðum sem ég er kannski ósáttur við sérstaklega því að þau eru minni háttar. Í raun er nál. þannig orðað og þannig byggt upp að það mætti þess vegna endurprenta það ár eftir ár, svo lengi sem frv. til lánsfjárlaga er með sama sniðinu og verið hefur mörg, mörg undanfarin ár. Þetta nál. og það sem þar kemur fram gæti þar með átt við næstu árin og þetta nál. hefði allt að einu getað verið nál. minni hl. fjh.- og viðskn. í fyrra þegar reyndar frsm. fyrir hönd minni hl. sat sem formaður fjh.- og viðskn. og mælti þá fyrir áliti meiri hl. í þeirri hv. nefnd. Það svona sýnir kannski betur en annað í hvers konar ógöngur við erum komnir með efnahagsstjórn landsins og fjármálastjórn.
    Það var einn ágætur þm. úr stjórnarliðinu sem sagði við mig á dögunum að lánsfjárlög ætti að afgreiða eins seint og hægt væri á þinginu. Því síðar sem þau væru afgreidd, þeim mun meiri líkur væru á að þau nálguðust eitthvað raunveruleikann. Í raun og veru væri kannski best að afgreiða ekki lánsfjárlögin fyrr en á haustþingi sama ár og þau eiga að gilda. Þá mundu lánsfjárlögin kannski eitthvað nálgast þann veruleika sem er í efnahagsmálunum og þeim er ætlað að sýna.
    Í raun má segja að lánsfjárlög hverju sinni séu einhvers konar óskhyggja ríkisstjórna um hvernig þær vilji haga lántökum, bæði á vegum ríkisins og á vegum sjóðakerfisins. Síðan er yfirleitt í þeim kafli um ýmsar heimildir sem eru taldar nauðsynlegar til þess að bjarga ýmsum vandamálum og leiðrétta mistök fyrri ára. Í stuttu máli má skipta lánsfjárlögum í þrjá kafla eins og reyndar er gert í frv. Það eru heimildir til ríkissjóðs og ýmissa ríkisstofnana og orkufyrirtækja til lántöku. Síðan er sérkennilegur kafli, II. kafli í lánsfjárlögum, þar sem lögboðin framlög til ýmissa sjóða eru skert. Eins og kom fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldórs Blöndals, þá get ég hjartanlega tekið undir það með hv. þm. að það er orðið allundarlegt að sjá þennan kafla í lánsfjárlögunum, og reyndar fer hann mjög í taugarnar á almenningi. Fyrst eru sett alls konar lög um hina og þessa sjóði sem hafa ákveðin hlutverk með höndum og síðan þarf svo í lánsfjárlögum ár hvert að skerða lögboðin framlög til þessara sjóða þar sem í upphafi var byggt á óskhyggjunni einni, í raun voru aldrei til þeir peningar sem þessum sjóðum voru ætlaðir.
    Það má því segja að lánsfjárlög eru gamalkunn. Þau eru eins frá ári til árs, tölurnar breytast aðeins lítillega. Örfáir nýir liðir koma inn, aðrir detta út. Einn ágætur frammámaður hjá iðnrekendum sagði einu sinni, hann hafði verið formaður Félags ísl. iðnrekenda um langan aldur, að hann gæti í raun flutt sömu ræðuna ár eftir ár á ársþingi Félags ísl. iðnrekenda. Þannig mætti í reynd flytja hér sömu ræðuna frá ári til árs um lánsfjárlög því að þau breytast ekki það mikið. Lánsfjárlögin byggja einfaldlega á þeim

efnahagsgrunni sem gömlu flokkarnir hafa sett, en ég hef margoft bent á að það eru gömlu flokkarnir, Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl., Alþb., sem hafa lagt grundvöllinn að þeirri efnahagsstefnu og þeirri fjármálastjórn sem við búum við, íslenska þjóðin, og allt atvinnulífið og þjóðfélagið byggir á. Því er oft kátbroslegt að hlýða á fulltrúa gömlu flokkanna. Þeir eru ýmist í stjórn eða stjórnarandstöðu, hamast út af lánsfjárlögum og ýmist lýsa þeir vandlætingu sinni á gerðum sitjandi ríkisstjórnar eða ekki, þó í raun sé málið þannig að þeir eru allir samsekir og hafa allir átt jafnmikinn þátt í að hér ríkir óstjórn og ofstjórn í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar. Við búum við miðstýrt efnahagskerfi, sjóðakerfi sem er ætlað að reka atvinnulífið, í stað þess að hafa hér heilbrigt fjármálakerfi eins og aðrar þjóðir, sérstaklega nágrannaþjóðir okkar, hafa getað byggt upp. Hér er við lýði miðstýrt fjármálakerfi sem byggir á því að atvinnulífið reynir að sækja í hina ýmsu sjóði sem ríkisvaldið hefur myndað og stýrir til þess að reyna að sigla gegnum brotsjói efnahagslífsins. Síðan má öðru hverju beita einhvers konar vísitölukrukki til þess að reyna að leiðrétta verstu agnúana á kerfinu, en gengur þó illa.
    Ég veit ekki með hvaða hætti við gætum reynt að koma á hér heilbrigðum banka- og peningaviðskiptum meðan við búum við þetta kerfi. Það er kannski aðeins glæta þó því að við gætum neyðst til þess að fara út í slíkt kerfi, einfaldlega vegna þess sem er að gerast í nágrenninu við okkur, en þar á ég við þær breytingar sem eru að verða á fjármála- og bankakerfi Evrópulandanna, einkum og sér í lagi innan Evrópubandalagsins. EFTA-ríkin munu ekki síður þurfa að breyta fjármála- og peningakerfi sínu til þess að geta staðið í stykkinu, veitt samkeppni þeim fyrirtækjum sem eru innan Evrópubandalagsins. Langar mig til að koma betur að þessu síðar í ræðu minni.
    En hvað er til bragðs að taka í sambandi við lánsfjárlög og þá miklu erlendu skuldasöfnun sem ríkið hefur forustu um og leiðir má segja ásamt öðrum atvinnusjóðum sem ríkið að sjálfstöðu stýrir og beinir í þennan farveg? Í flestum alvöruþjóðfélögum þar sem efnahags- og viðskiptamál eru í sæmilegu
lagi er reynt að koma því til leiðar að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, láti eyðslu og tekjur standast á. Ef ríkisvaldið, þ.e. opinberir aðilar, þarf að eyða meiru en aflað er með skatttekjum, að fjármagna þá a.m.k. slíka umframeyðslu með innlendum lántökum. En því miður erum við gjörsamlega búnir að missa stjórn á þessu. Við fjármögnum eyðsluna aðallega með erlendum lántökum eða með mjög óskynsamlegum hætti og látum ríkið sjá um allar erlendar lántökur fyrir hönd alls þjóðfélagsins. Eitt það besta sem við gætum gert til þess að koma okkur út úr þessari vitleysu væri einfaldlega að breyta peninga- og bankakerfi okkar þannig að ríkið hætti að hafa forustu um erlendar lántökur en léti fyrirtækjunum, atvinnulífinu og jafnvel einstaklingunum það eftir, að ríkið léti sér nægja innlenda lánsfjáröflun og ef ekki

dygði til til þess að fjármagna eyðsluna yrði einfaldlega að takast á við það og skera niður eyðsluna, þ.e. draga úr framkvæmdagleðinni.
    Það er hægt að lýsa mikilli ábyrgð á hendur þeirra sem fóru með fjármálastjórn landins árin 1986 og 1987 í einhverju mesta góðæri sem þjóðin hefur upplifað, sennilega í allri sögu sinni, því þrátt fyrir þetta mikla góðæri hlóðust upp miklar skuldir ríkissjóðs. Hefði verið einhver glóra í fjármálastjórn landsins hefði verið reynt að draga saman seglin og safna í einhverja sjóði, a.m.k. reynt að greiða eitthvað hraðar niður erlendar skuldir, og innlendar skuldir með, á þessum árum. En það var nú öðru nær. Sú meginstefna sem hlýtur að eiga að vera í ríkisfjármálum, að ríkissjóður eigi að skila afgangi í góðæri en það megi hugsanlega verja það að ríkissjóður sé rekinn með halla þegar illa árar, hefur aldrei fengið að njóta sín á þessu landi.
    Ég er þá kominn að þeim kafla í ræðu minni, virðulegi forseti, að ég ætla að fara að spyrja ýmsa ráðherra spjörunum úr en ég sé að þeir eru óðum að yfirgefa samkunduna. Ég sé þó að hæstv. fjmrh. er kominn í salinn aftur. ( Fjmrh.: Bara hálf mínúta.) Gott er að heyra það. Mig langar til að heyra álit hæstv. fjmrh. á hinum nýju stefnum sem eru í vændum í fjármálum og peningamálum Evrópulandanna, þar á ég að sjálfsögðu við það sem kallað hefur verið frjáls fjármagnsmarkaður, hvaða viðhorf íslensk stjórnvöld hafa í þeim efnum.
    Mig langar til að glugga í plagg sem ég hef undir höndum sem er ekki að svo stöddu á ábyrgð eins eða neins, en þar er á mjög athyglisverðan hátt fjallað um viðhorf m.a. EFTA-landanna til þeirrar stefnu sem nú er uppi meðal Evrópuþjóðanna, innan Evrópubandalagsins sérstaklega, um það með hvaða hætti megi koma á frjálsum fjármagns- og peningaviðskiptum innan Evrópu. Með leyfi hæstv. forseta langar mig til að lesa upp örstuttan kafla úr þessari greinargerð:
    ,,Viðhorf aðildarríkja EFTA. Aðildarríki EFTA eiga mikil viðskipti við aðildarríki Evrópubandalagsins og í sumum þeirra t.d. er hlutur innflutnings frá aðildarríkjum Evrópubandalagsins hærri en samsvarandi hlutfall margra aðildarríkja bandalagsins. Því er ljóst að það skiptir þessi lönd verulegu máli hvort það bætir samkeppnisskilyrði fyrirtækja í aðildarríkjum Evrópubandalagsins að þau hafi aðgang að stærri og hagkvæmari fjármagnsmarkaði en fyrirtæki í EFTA-löndunum. En jafnframt hljóta EFTA-löndin að hafa í huga þau áhrif sem afnám hafta á fjármagnshreyfingum hefur á möguleika stjórnvalda til að framfylgja sjálfstæðri stefnu í efnahagsmálum. Nokkrar nefndir og vinnuhópar á vegum EFTA eru að kanna fyrirætlanir Evrópubandalagsins um afnám hafta á fjármagnshreyfingum og hvernig aðildarríki EFTA geti brugðist við þeirri þróun.
    Á vegum ráðgjafarnefndar EFTA sem skipuð er fulltrúum úr atvinnulífinu í aðildarríkjum EFTA starfar vinnuhópur um þetta mál. Athuganir vinnuhópsins

beinast einkum að þeim áhrifum sem afnám á takmörkun á fjármagnshreyfingum gæti haft á starfsskilyrði fyrirtækja í aðildarríkjum EFTA og á hvern hátt hagsmunir neytenda í þessum löndum verða tryggðir sem best. Efnahagsnefnd EFTA hefur einnig fjallað um fjármagnshreyfingar og vorið 1988 setti hún á laggir vinnuhóp sem á að kanna núverandi reglur í aðildarríkjum EFTA um fjármagnshreyfingar á milli landa og meta hagræn áhrif af afnámi takmarkana. Íslendingar taka þátt í starfi ráðgjafarnefndarinnar og efnahagsnefndarinnar og vinnuhópa á þeirra vegum.
    Fjármagnshreyfingar hafa oft verið til umfjöllunar á hinum sameiginlega vettvangi Norðurlandanna. Árið 1987 skilaði t.d. vinnuhópur, sem skipaður var af tveimur embættismannanefndum, tveimur skýrslum um hugsanleg áhrif af reglum á Norðurlöndunum um rétt til að stofna fyrirtæki og gjaldeyrisreglum um fjárfestingar í iðnaði utan heimalands. Vinnuhópurinn lagði m.a. til að heimildir til kaupa á erlendum hlutabréfum yrðu rýmkaðar hvort sem bréfin væru skráð í kauphöll eða ekki.
    Við gerð efnahagsáætlunar fyrir Norðurlöndin 1989--1992 lagði vinnuhópurinn til að dregið yrði úr takmörkunum á fjármagnshreyfingum til og frá Norðurlöndunum. Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að slíkt væri hagkvæmt fyrir löndin því að það opnaði fyrirtækjum leið að stærri fjármagnsmarkaði auk
þess sem þau losnuðu við ýmsan skriffinnskukostnað. Bent var á að afnám hafta á fjármagnshreyfingum gæti auðveldað samstarf norrænna fyrirtækja og þar með greitt fyrir viðskiptum á milli Norðurlandanna. Þá er bent á að telja megi líklegt að fjárfesting í hlutabréfum á milli landanna verði tiltölulega mikil vegna nálægðar þeirra og þekkingar íbúanna á aðstæðum grannlandanna. Þessar niðurstöður vinnuhópsins urðu hluti af efnahagsáætlun fyrir Norðurlönd 1989--1992 sem fjármálaráðherrar landanna samþykktu í nóvember 1988. Í efnahagsáætluninni er lagt til að löndin skuli fyrir árslok 1992 aflétta hömlum á eftirfarandi fjármagnshreyfingum: Kaupum á skráðum jafnt sem óskráðum hlutabréfum í útlöndum, þar með talin kaup á hlutdeildarbréfum í hlutabréfasjóðum.`` Þetta mundi væntanlega þýða það að íbúar hinna Norðurlandanna gætu keypt m.a. hlutdeildarbréf í hinum fyrirhugaða hlutabréfasjóði Byggðastofnunar þegar hann kemst á laggirnar og það væri nú ekki ónýtt að fá erlent fjármagn inn með þeim hætti. --- (Gripið fram í.) Í hlutabréfasjóðinn. (Gripið fram í.) Í hlutabréfasjóðinn, sagði ég. --- ,,Sams konar fjárfestingu erlendra aðila í innlendum hlutabréfum, kaupum á fasteignum í útlöndum, erlendum lántökum innlendra fyrirtækja til lengri tíma en eins árs, lánveitingu til skemmri tíma en eins árs í gjaldmiðli heimalandsins eða einhverjum öðrum gjaldmiðli í tengslum við innflutning og útflutning, lánveitingum innlendra viðskiptabanka til útlendinga í erlendum gjaldmiðli, inneignum erlendra fyrirtækja á bankareikningum erlendis í takmarkaðan tíma eftir að kröfur þeirra á hendur erlendum viðskiptavinum hafa

verið greiddar.
    Reglur um fjármagnshreyfingar eru nokkuð mismunandi á Norðurlöndunum. Danir búa við litlar sem engar hömlur á þessu sviði vegna veru sinnar í Evrópubandalaginu, en hin löndin búa við mismiklar takmarkanir. Tillögur fjármálaráðherranna í efnahagsáætlun fyrir Norðurlöndin sýna hins vegar að pólitískur vilji er til að stíga frekari skref á þessu sviði og afnema takmarkanir á ofangreindum fjármagnshreyfingum. Slíkt þýddi nokkra aðlögunarstefnu Evrópubandalagsins í þessum málum án þess að slakað væri á takmörkunum sem stjórnvöld á Norðurlöndum hafa talið mikilvægar fyrir hagstjórn.
    Ísland setti fyrirvara við öll atriði áætlunarinnar sem lúta að fjármagnsmarkaði á Norðurlöndunum, þar með taldar ofangreindar tillögur um aukið svigrúm fyrir fjármagnshreyfingar á milli landa af sömu ástæðu og fyrirvari var settur við reglur OECD á sínum tíma, þ.e. vegna sérstöðu landsins í samanburði við hin Norðurlöndin sem felst einkum í smáu hagkerfi og tiltölulega einhæfri útflutningsframleiðslu.
    Fjármálaráðherrarnir samþykktu einnig að fyrir 1990 væri ákveðið hvort fleiri fjármagnshreyfingum skuli bætt á áðurnefndan lista. Í efnahagsáætluninni er ekki tilgreint hverjar þær gætu verið, en af skýrslu vinnuhópsins má ráða að þar sé um að ræða fjármagnshreyfingar eins og kaup útlendinga á innlendum skuldabréfum og innlegg útlendinga í innlenda banka í innlendum gjaldmiðli, kaup landsmanna á erlendum skuldabréfum og innlegg landsmanna í banka erlendis, skammtímalántökur og lánveitingar innlendra fyrirtækja erlendis, lántökur einstaklinga og heimila erlendis.``
    Hér er verið að brydda á mjög athyglisverðum og mikilvægum atriðum sem varða okkur og framtíð þessa lands mjög miklu. Því er nauðsynlegt að við ræðum þetta af mikilli hreinskilni og ég mundi vilja biðja hæstv. fjmrh. að gera nánari grein fyrir þeim fyrirvörum sem Ísland hefur gert við þessar hugmyndir og þessar tillögur sem samþykktar voru af fjármálaráðherrum hinna Norðurlandanna á umræddum fundi þeirra.
    Það er annars hætta á því að Ísland muni daga uppi sem nokkurs konar nátttröll hér í Norður-Atlantshafinu þegar komin er á víðtæk samvinna allra hinna Evrópulandanna sem byggir á frjálsum fjármagnshreyfingum, frjálsum bankaviðskiptum og mjög víðtæku og umfangsmiklu samstarfi fyrirtækja almennt í öllum atvinnugreinum. Það er rétt, sem kom hér fram áðan í frammíkalli, að við þurfum að gæta okkar vel, einkum hvað varðar íslenskan sjávarútveg og fiskvinnslufyrirtæki okkar. Við þurfum að tryggja það að eignarhald á þeim komist ekki í hendur erlendra aðila eða erlendra fyrirtækja. Ég tel að með skynsamlegri löggjöf sé auðvelt að koma í veg fyrir slíkt, en hins vegar er jafnmikilvægt að gefa iðnaðinum á Íslandi kost á því að fara í alhliða samstarf við erlend iðnfyrirtæki jafnvel á þeim grundvelli að meirihlutaeign í íslenskum iðnfyrirtækjum geti hugsanlega komist í

hendur erlendra fyrirtækja eða erlendra aðila. Ég er ekki viss um að það þurfi að gera svo mikið til. Menn hafa oft og tíðum misskilið hvað mundi gerast ef svo færi að erlendir aðilar mundu eignast hér meiri hluta í einhverjum íslenskum fyrirtækjum. Sumir virðast halda að hinir erlendu aðilar muni nánast rífa niður verksmiðjurnar og húsin og flytja þau með sér til útlanda. Þetta er náttúrlega hin mesta fjarstæða því að ef eitthvert erlent fyrirtæki hefði hug á því að fjárfesta í atvinnustarfsemi á Íslandi getur tilgangurinn varla verið annar en sá að reka hér þá atvinnustarfsemi sem fyrirtækið var að fjárfesta í.
    Eins og ég gat um áðan, þá er mjög nauðsynlegt að við fáum skýr svör um hver
stefna ríkisstjórnarinnar er í þessum málum. Ætlum við að halda áfram að einangra okkur af og verða einir Norðurlandanna, sér á báti, til þess að hafna allri samvinnu og öllu samstarfi við Evrópuríkin, daga hér uppi í Norður-Atlantshafinu sem einhvers konar nátttröll er fram líða stundir? Eitt af því sem töluvert hefur verið rætt um á seinni mánuðum og missirum er frjáls bankastarfsemi, þ.e. að við gefum erlendum bönkum í einhverjum mæli kost á að hafa hér einhverja starfsemi, og væri einnig fróðlegt að velta fyrir sér hver eru viðbrögð og hverjar eru hugmyndir ríkisstjórnarinnar til þeirra atriða. Það er mjög fróðlegt að fyrsta tilraun okkar til þess að eiga samstarf við erlenda banka hefur birst í svokölluðum kaupleigufyrirtækjum eða fjármögnunarfyrirtækjum. Það er afar fróðlegt að lenda í því á leiðinni heim frá útlöndum að sitja fyrir einhverja slysni við hliðina á fulltrúum þeirra erlendu banka sem hafa tekið þátt í kaupleigufyrirtækjum með íslenskum aðilum á Íslandi. Þessir menn núa saman höndunum af ánægju og segja að þeir hafi aldrei nokkurn tíma á sínum ferli komist í annan eins ofsagróða eins og að taka þátt í þessari starfsemi með Íslendingum á Íslandi, þ.e. að spila hér á svokölluðum lánskjaravísitölumarkaði. Þeir segja að það séu engar þær fjárfestingar í víðri veröld sem geti gefið eins rosalegan gróða og það að fá að setja hér inn erlenda fjármuni og taka inn þann hagnað sem hlýst í gegnum lánskjaravísitölukerfið, þ.e. þá verðtryggingu sem er gulltryggð og miklu meira í raun og þá háu raunvexti þar ofan á og fá síðan að taka gróðann heim umbúðalaust. Hvergi í víðri veröld er boðið upp á slíkan ofsagróða, segja þessir ágætu menn. Það væri því afar fróðlegt að fá nánari skýringar á því hvernig við hugsum okkur að haga þessum málum til frambúðar. Ætlum við að hafa bankastarfsemina með þeim hætti að samvinna okkar við erlenda banka byggist á því að við gefum erlendum bönkum kost á því að koma hér inn á lánskjaravísitölumarkaðinn, spila með erlent fjármagn og taka allan þann hagnað, sem hlýst af því að lána Íslendingum með lánskjaravísitölu og háum raunvöxtum meðan raungengi íslensku krónunnar fer ört vaxandi í samanburði við erlenda gjaldmiðla, heim aftur þegar þeim sýnist?
    Nei, hér verður að eiga sér stað veruleg stefnubreyting ef við ætlum ekki endanlega að leggja

allt atvinnulíf landsmanna í rúst. Því miður eru mjög margir, og jafnvel innan ríkisstjórnarinnar finnast slíkir menn, sem halda að við þurfum ekkert atvinnulíf á Íslandi, við getum að vísu veitt einhvern fisk og selt hann svo lengi sem við nennum því, en betra væri ef við værum eingöngu í því að selja hvert öðru pappíra og flytja peninga á milli bóka í bönkum eftir þvi hvort vextirnir væru hærri eða lægri í þessum bankanum eða hinum þennan daginn. Það er eins og sumir haldi að þannig eigi atvinnulífið að verða á Íslandi. Það að vilja standa í einhverju brölti að framleiða eitthvað, vera að reka iðnað, sé bara gersamlega úrelt, það eigi ekkert heima hér á landinu. Heyrst hafa skýringar sumra aðila í ríkisstjórn, og þar á ég m.a. við hæstv. núv. iðnrh., sem halda því fram að allur iðnaður eigi að færast eitthvað til suðurs, til Afríku jafnvel, til einhverra láglaunasvæða þar og til einhverra láglaunasvæða í Austurlöndum fjær. Ísland eigi ekki að vera iðnaðarsvæði. Hér eru greidd allt of há laun og þar af leiðandi eigum við ekki að vera að standa í slíku brölti. Þetta kann vel að vera sú stefna sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að fylgja og þar með getum við búið okkur undir það að smám saman á næstu árum, í tíð þessarar ríkisstjórnar, muni allur iðnaður leggjast niður hér á landi. Eftir standi e.t.v. einhver fáein sjávarútvegsfyrirtæki sem framleiði fiskafurðir til útflutnings og svo að sjálfsögðu útgerðarfyrirtæki meðan við nennum að veiða fiskinn sjálfir. Það endar kannski með því að lokum að við hættum því einnig og seljum Evrópubandalaginu allar fiskveiðiheimildir. Við verðum síðan bara í því að höndla með pappíra og flytja peninga á milli bóka í bönkum. Það væri gæfuleg framtíð eða hitt þó heldur.
    Hér var vikið lítillega að Arnarflugi áðan og langar mig til að beina sams konar fyrirspurn til hæstv. fjmrh., og reyndar til ríkisstjórnarinnar allrar, þ.e. hvað er fyrirhugað að gera í sambandi við Arnarflug. Hér hafa heyrst ýmsar hugmyndir og m.a. sú að ekki sé pláss nema fyrir eitt flugfélag á landinu. Við stöndum ekki undir nema einu flugfélagi og það sé óðs manns æði að ætla að halda uppi samkeppni innan lands með tveimur millilandaflugfélögum. Það er margt sem bendir til þess að dálítið geti verið til í þessu, en hins vegar óar mig við þeirri hugmynd ef afhenda á Arnarflug Flugleiðum nánast á silfurfati fyrir ekki neitt því að ég hef sett spurningarmerki við hvernig eignarhaldi Flugleiða er háttað. Ef farið er út í þá sálma frekar er í raun verið að afhenda örfáum mönnum, sem í reynd má segja að eigi orðið Flugleiðir, hagnaðinn af því að fá að yfirtaka Arnarflug á silfurfati. Mig langar til þess að spyrja hæstv. fjmrh.: Er það hugmyndin? Eða á að takast á við vandamál Arnarflugs með öðrum hætti? Það kann vel að vera að það sé nóg samkeppni fyrir okkur að hingað fljúgi ótal erlend flugfélög. Síst skal ég amast við því vegna þess að ég held að við fáum ekki ráðið við það í þeirri nýju Evrópu sem við sjáum fram undan þar sem gert er ráð fyrir að flugsamgöngur verði gerðar algerlega frjálsar og flugfélög fái að fljúga nánast eins og þeim sýnist. Það

má vera að það geti orðið erfitt fyrir okkur að mæta þeirri samkeppni. En við erum að tala um daginn í dag og í því samhengi væri fróðlegt að fá að heyra hvernig leysa á vandamál Arnarflugs.
    Ég gæti fjallað lengi dags um skipasmíðar. Ég hef komið aðeins inn á iðnaðinn almennt. Í lánsfjárlögunum er gert ráð fyrir því að Byggðastofnun haldi því hlutverki sínu að veita lán til viðgerða og viðhaldsverkefna í skipasmíðum innan lands og er það vel. Eftir því sem mér skilst hafa forsvarsmenn skipasmíðaiðnaðarins í landinu lýst því yfir að þeir séu tiltölulega ánægðir með þá ráðstöfun að Byggðastofnun hafi þetta verkefni með höndum. Hins vegar hlýtur spurningin að vera, og ég vildi heyra svör hæstv. iðnrh. við því: Er fyrirhugað að leggja skipasmíðar algerlega niður á þessu ári eða er hugmyndin að reyna að gera eitthvað þannig að við getum áfram haldið að smíða fiskiskip á Íslandi? Ég held að þetta sé spurning sem ekki verður lengur vikið til hliðar. Við verðum að fá svör við þessu. Á að smíða fiskiskip á Íslandi eða á ekki að smíða fiskiskip á Íslandi? Það verða að fást svör við þessari spurningu.
    Ef við ætlum að halda áfram að smíða fiskiskip á Íslandi vakna ýmsar spurningar. Hve lengi ætlum við að líða þá óheiðarlegu samkeppni Norðmanna sem byggir á því að þeir undirbjóða smíðar á fiskiskipum með ríkisstyrkjum sem brýtur algerlega í bága við reglur þær sem EFTA-ríkin hafa sett sér um samkeppni iðnfyrirtækja? Á fundi sem ég sat í Genf í höfuðstöðvum EFTA á dögunum var spurt dálítið um þetta atriði og forsvarsmenn aðalskrifstofu EFTA-landanna greindu frá því að þetta væri vandamál sem væri erfitt að eiga við vegna þess að EFTA-löndin hafa ekki yfir neinni sérstakri stofnun að ráða sem getur tekið við slíkum klögumálum og fellt úrskurð í þeim. Þeir voru sammála því að þarna væri um óheiðarlega samkeppni að ræða sem bryti í bága við EFTA-reglurnar. En spurningin er hvernig á að mæta henni. Þeir sögðu að sú leið væri fyrir hendi að setja jöfnunargjald á norskar iðnaðarvörur sem yrðu fluttar til Íslands meðan slík ólögleg samkeppni væri við lýði eða að það væri hreinlega hægt að stefna norskum stjórnvöldum með því að flytja mál fyrir norskum dómstólum, en það er að sjálfsögðu mjög erfið og flókin leið og lítt vænleg til þess að skila árangri. Ég mundi vilja spyrja hæstv. iðnrh. að því: Hyggst hæstv. ráðherra gera eitthvað í því að kæra þessa ólöglegu samkeppni eða mun hann beita sér fyrir því að henni verði hætt?
    Hér hefur töluvert verið fjallað um húsnæðismál. Sá málaflokkur er kominn í slíkt öngþveiti að með ólíkindum er. Það væri fróðlegt að heyra álit hæstv. félmrh. á þeirri þróun mála sem við horfum fram á, en ráðherrann er því miður ekki í húsinu og skal ég ekki gera sérstakt veður út af því eða leggja á það áherslu að hann taki þátt í þessum umræðum. Ef ráðherrann kemur hingað síðar í dag má þó vera að við getum tekið málið upp að nýju. En ég spyr, og vildi gjarnan heyra álit hæstv. fjmrh. á því: Hvernig

ætlar þjóðin að verja það að *y2/3*y hlutar allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu ætla að byggja yfir sig á nýjan leik á næstu fimm árum í því efnahagsumhverfi sem við búum við þessa stundina þar sem atvinnulíf landsmanna er í mikilli hættu og við horfum fram á að fjöldi atvinnufyrirtækja er að leggja upp laupana, sér í lagi og einkum þó útflutningsfyrirtækin? Jafnvel þó að menn búi hér í dýrum og fínum einbýlishúsum er það talið eðlilegt og sjálfsagt að menn notfæri sér þessi niðurgreiddu lán sem þeim standa til boða. Hér er verið að tala um allt að 14 milljarða, eða þar um bil, á einu ári sem ætlað er að verja til slíkra framkvæmda. Er einhver glóra í þessu? Væri ekki nær að fara að líta betur á þær hugmyndir sem við þingmenn Borgfl. settum fram í hv. deild fyrir einu ári þar sem við lögðum til að ríkissjóður og ríkisvaldið einbeittu sér að því að leysa húsnæðismál þeirra sem minna mega sín, þeirra sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda og hjálpaði þeim sem væru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð? Því þarf ríkisvaldið að vera að útvega fólki sem á dýrar og miklar eignir niðurgreitt húsnæðislán? Ég spyr: Er einhver glóra í þessu? Er ekki kominn tími til að fara að taka almennilega á þessum málaflokki og fara að koma hér með einhverjar raunhæfar lausnir sem þjóðfélagið hefur efni á og ræður við? Ég efast ekki um það að við fáum tækifæri til þess að ræða þennan málaflokk sérstaklega í ljósi þess að boðað hefur verið að lögð verði fram hér á næstu dögum mjög umfangsmikil frv. um húsnæðismál og vænti ég þess að þar getum við tekið þessa umræðu upp aftur.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég láti þetta nægja að sinni. Ég hef því miður verið fjarverandi alla síðustu viku og gat þar með ekki setið fundi hv. fjh.- og viðskn., þar sem farið var yfir lánsfjárlögin og ýmsar brtt. sem hafa verið gerðar á lánsfjárlögunum, og mun því ekki í neinum smáatriðum fjalla um einstakar greinar frv. eða þær brtt. sem hafa komið fram, en mun að sjálfsögðu taka til máls aftur í umræðunum ef þörf krefur.