Frestun þingfundar
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Við sömdum um að hér skyldu umræður hefjast kl. 10 árdegis vegna þess að ég og ýmsir aðrir þingmenn höfðum ráðgert fundahöld í okkar kjördæmum og ég var þess vegna mjög ánægður yfir því að um það skyldi hafa náðst samkomulag.
    Hins vegar vil ég vekja athygli á því að um leið var frá því gengið að ekki yrði efnt vísvitandi til óþarfa tafa. Nú hefur það í fyrsta lagi gerst að hæstv. landbrh. var ekki viðstaddur umræðuna og átti honum þó að vera kunnugt að einn af þingmönnum stjórnarandstöðunnar hafði sérstaklega beðið um að hann yrði viðstaddur. Í öðru lagi hafði ég beðið þrásinnis um í morgun að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur umræðuna að einhverju leyti. Hann er víðs fjarri.
    Ég vil enn fremur benda á að hæstv. fjmrh. hefur ekki svarað þeim spurningum sem til hans var beint við 2. umr. frv. um lánsfjárlög þannig að nauðsynlegt er að taka málið upp að nýju við 3. umr. og dráttur nú er þess vegna fullkomlega óþolandi og óskiljanlegur. Ég mælist til þess við hæstv. forseta að þingstörf megi ganga eðlilega fyrir sig, að atkvæðagreiðsla geti orðið nú þegar. Það er ætlast til þess af stjórnarandstöðunni að hún sé hér ævinlega viðstödd. Það er meira að segja með önuglyndi af einstökum ráðherrum og einstökum þingmönnum stjórnarmeirihlutans ef stjórnarandstaðan vill halda fram sínum rétti, dylgjur um að við höfum ekki staðið við það sem við sömdum um þegar sjálf verkstjórnin við umræðurnar er öll í ólagi. Ég er ekki að kenna hæstv. forseta um það, en það hefur verið svo allan daginn í dag að fundahöld hafa verið uppi í Ed. og Nd. samtímis um mál þau sem hafa í rauninni kallað á nálægð forsrh. á báðum stöðum og ég heyrði í dag m.a. að um skeið var í sjálfu sér ekki hægt að halda þar umræðum áfram vegna þess að tveir þeirra ráðherra sem mjög snertu það mál sem var á dagskrá voru víðs fjarri.
    Ég vil þess vegna enn beina því til hæstv. forseta að störf deildarinnar gangi eðlilega fyrir sig.