Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Ég get verið stuttorð í þetta sinn. Ég er þegar búin að tala töluvert um það þingmál sem hér er til umræðu og öll helstu sjónarmið Kvennalistans hafa þegar komið fram. Við höfum þegar séð reglugerð þá eða drög að reglugerð um hlutafjársjóð Byggðastofnunar sem var búið að heita okkur að við fengjum að sjá áður en málið hefði endanlega verið afgreitt og ég er út af fyrir sig búin að þakka fyrir það. Það er oft og mikið rætt um samskipti stjórnvalda eða framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins og þörf fyrir að bæta þau samskipti og fyrir það að tryggja sambærilegan aðgang stjórnarandstöðunnar að ýmsum upplýsingum og atriðum í sambandi við undirbúning mála. Það væri vissulega þörf á breytingum í slíkum samskiptum. Ég tel t.d. að það væri eðlilegt og sjálfsagt að sem oftast þegar þess er nokkur kostur liggi fyrir um leið og lagasetning er að komast á lokastig reglugerð eða a.m.k. ákveðnar hugmyndir um reglugerð við slíka löggjöf.
    Hvað varðar þessa reglugerð eða drög að reglugerð sem hér hefur verið töluvert til umræðu staðfestir hún aðeins það, sem við höfum áður sagt í umræðum hér og annars staðar, að hér er staðfest sú algera breyting sem við höfum bent á á þessari hugmynd sem upphaflega kom frá Kvennalista og Sjálfstfl. í tillöguformi þegar við 2. umr. málsins í Ed. Það er hér staðfest að þarna verður um pólitíska stjórn á þessum sjóði að ræða. Það er opnað fyrir eignaraðild ríkisbanka og opinberra sjóða og það er ekki gert ráð fyrir að sjóðurinn standi undir sér. Þetta allt saman gengur þvert á hina upphaflegu hugmynd.
    Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni áðan, ég held að ég hafi náð því orðrétt: Ég skal ekki segja hver upphaflega hugmyndin var. Þetta voru hans orð og þau vöktu undrun mína vegna þess að svo sannarlega var það kynnt og hefur verið margkynnt í umræðum hér, sem hæstv. forsrh. hefur verið viðstaddur, hver upphafleg hugmynd með þessari tillögu var og sakar kannski ekki að rifja það enn einu sinni upp að með henni var verið að benda á leið fyrir fólk eða fyrirtæki til að fjárfesta í undirstöðuatvinnugreinum okkar og leggja sitt af mörkum til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækja án þess að hætta of miklu til sjálft. En það var alger forsenda þess að sjóðurinn næði tilgangi sínum að hann væri rekinn á faglegum grunni en ekki að pólitískum geðþótta. En með þessu erum við vitanlega ekki að leggjast gegn því að fyrirtækjum sem nú er ætlunin að vísa í þennan sjóð sé veitt aðstoð. Það er fjarri því. En við teljum þetta ekki réttu leiðina.
    Ég ætla alls ekki að óska þessum hlutafjársjóði neins ills eða spá honum illu í framtíðinni. Ég hef ekki trú á því að hann komi að gagni, en ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér.
    Ég held ég hafi ekki frekari orð um þetta núna. Ég kom hér fyrst og fremst til að minna hæstv. ráðherra á spurningar sem ég bar fram þegar ég kom síðast hingað í ræðustól út af þessu þingmáli. Ég spurði

hann varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð hvernig háttað yrði endurgreiðslum sem lofað er í frvgr. eins og hún er orðin núna. Það er sem sagt lofað að þetta framlag, sem fæst er frá Atvinnuleysistryggingasjóði í Atvinnutryggingarsjóð, verði endurgreitt, en það ákvæði er skilið eftir algerlega opið í annan endann. Það er ekki hægt að sjá hvernig þetta verði framkvæmt. Ég spurði hæstv. ráðherra að því hver tímamörk yrðu á því, hvort ákvörðun væri fyrir hendi um hvenær slíkum endurgreiðslum ætti að vera lokið og hvernig þeim yrði háttað, hvort þær væru verðtryggðar og með vöxtum. Þetta er mjög mikilvægt að komi fram við þessa umræðu. Við vitum hvernig atvinnuástandið er orðið og á því miður sennilega eftir að versna og það skiptir mjög miklu máli að eigendur þessa sjóðs, sem er sjálft launafólk, viti hvernig ríkið ætlar að standa að því að endurgreiða það framlag sem það hefur ákveðið að flytja þannig á milli sjóða.