Verðbréfaviðskipti
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. sem auk mín er Ingi Björn Albertsson. Eins og fram kom í máli formanns nefndarinnar og frsm. meiri hl. hefur verið fjallað um frv. á þrettán fundum og æðimargir menn hafa verið kallaðir til og mikið komið fram af athugasemdum.
    Það vakti fljótlega undrun mína í sambandi við meðferð þessa máls að úr hópi þeirra manna sem stóðu að samningu frv. komu fram gífurlega umfangsmiklar athugasemdir við frv. Frv. var samið af níu manna nefnd og fram komu verulegar athugasemdir einkum frá forstöðumanni bankaeftirlits Seðlabankans og enn fremur athugasemdir frá fjölmörgum öðrum aðilum. Við í minni hl. sjáum ástæðu til að geta þess að við teljum að allt of skammur tími hafi verið úthlutaður til þess að vinna að frv. í nefndinni og hefði það getað sparað þingnefnd afar mikinn tíma ef menn hefðu haft biðlund til þess að leyfa nefndinni að ganga skilmerkilega frá frv.
    Þegar hæstv. viðskrh. fylgdi frv. úr hlaði í októbermánuði, eða skömmu eftir að þing kom saman, gerði hann 30. gr. frv. m.a. að umræðuefni. Þessi grein var hins vegar ekki inni í frv. þegar nefndin skilaði áliti því að í nefndinni náðist ekki samstaða um ákvæði um bindiskyldu verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða. En viðskrh. bætti þessu inn í frv og lagði það fram. Hann sagði við 1. umr. málsins að í 30. gr. væru ákvæði um að ráðherra geti heimilað Seðlabankanum að láta sömu reglur gilda um bindiskyldu verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða og gilda um bindiskyldu innlánsstofnana. Hann vakti sérstaklega athygli á þessari grein þar sem um hana var ágreiningur í nefndinni og sagðist hafa tekið þá ákvörðun um að hafa þessi ákvæði í frv. og taldi fyrir því gildar ástæður. Hann sagði orðrétt: ,,Ég bendi á að í nokkrum aðildarríkjum Efnahagssamvinnu- og framfarastofnunarinnar OECD eru lagaheimildir til að setja bindiskyldu á aðrar fjármálastofnanir en banka og sparisjóði og ég tel eðlilegt að slík heimild sé einnig fyrir hendi hér á landi.`` Hann sagðist fyrst og fremst líta á þessi ákvæði í 30. gr. ,,... sem öryggisákvæði, eins konar stíflugarð til að koma í veg fyrir að verðbréfafyrirtækin feti sig inn á starfsvettvang innlánsstofnana án þess að á þeim hvíli sömu kvaðir hvað varðar bundið fé. Ef hins vegar er eingöngu um hreina skuldabréfasjóði að ræða, þar sem langtímamarkaðsverðbréf stendur á móti langtímabréfi í formi hlutdeildarskírteinis, eiga kvaðir um bundið fé miklu síður við.``
    Þetta voru orð hæstv. ráðherra við 1. umr. þessa máls. Þá hljóðaði 30. gr. frv. þannig: ,,Ráðherra getur heimilað Seðlabanka Íslands að láta sömu reglur gilda um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði að því er varðar bundið fé og settar eru innlánsstofnunum skv. 1.--3. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands.``
    Í öllu því umróti og umsögnum sem hafa verið

síðan frv. kom til nefndarinnar hefur tiltölulega lítill tími farið í þessa grein eða breytingar á henni, en fyrir utan verksvið nefndarinnar urðu nokkrir góðir sjálfboðaliðar til þess að umorða þessa heimildargrein viðskrh. Í þeirri sjálfboðavinnu munu hafa tekið mjög virkan þátt hæstv. forsrh. landsins, viðskrh. og fjmrh. Og það er ekki fyrr en nú alveg undir lokin að þeim tekst að sjóða saman þá brtt., sem er núna orðin barn Páls Péturssonar og þeirra félaga, um það að 30. gr. orðist svo:
    ,,Seðlabanki Íslands skal láta sömu reglur, eftir því sem við getur átt, gilda um verðbréfasjóði að því er varðar bundið fé og settar eru innlánsstofnunum skv. 1.--3. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, eða jafngildi þeirra með kaupskyldu á öruggum verðbréfum.
    Hafi Seðlabankinn hlutast til um vexti útlána hjá innlánsstofnunum á grundvelli 9. gr. laga nr. 36/1986, getur bankinn, meðan sú íhlutun varir, að fengnu samþykki ráðherra bundið ávöxtunarkröfur og annað endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða takmörkunum sem miðast við hliðstæða áhættuflokka. Setur Seðlabankinn um það nánari reglur.``
    Þetta er orðin verulega mikil breyting frá því sem var, þar sem ætlast var til að ráðherra gæti heimilað Seðlabanka Íslands, eins og þar sagði, en í staðinn fyrir það fær nú Seðlabankinn fyrirskipun um að hann taki á sig alla forustu, fortakslausa forustu í þessum efnum. Mér sýnist eins og hæstv. viðskrh. hafi látið hina tvo sjálfboðaliðana eiginlega ýta sér til hliðar, en hann hafði orð á því hér í haust að það væri gott að hafa slíka heimild ef tilteknar breytingar yrðu á rekstri verðbréfasjóðanna en lét alveg tvímælalaust að því liggja að það væri ólíklegt að sú heimild yrði notuð, a.m.k. af honum. Mér er því farið að þykja þetta allveruleg breyting. Ég segi það fyrir mitt leyti að bindiskylda sem bankarnir búa við er ekki eingöngu skyldur á bankanum, hún er líka um leið réttindi sem bankarnir öðlast hjá Seðlabanka. Vitaskuld hlýtur það sama að eiga að gilda fyrir verðbréfasjóðina og bankana, þeir eiga bæði að hafa réttindi og skyldur ef út í það er farið.
    Mér finnst alltaf verið að stefna að því að hafa eins mikla stýringu á öllu og mögulegt er. Það er eiginlega ekki hægt að fóta sig lengur fyrir öllum
þessum stýringum. Að vísu veit ég að hæstv. viðskrh. telur að hann geti haft töluverð áhrif, og í fyrstu setningunni stendur ,,Seðlabanki Íslands skal láta sömu reglur, eftir því sem við getur átt,,, o.s.frv. En þá er nú ekki samstaða í stjórnarliðinu. Leiðtogi fjórða flokksins vill alls ekki hafa þessi orð ,,eftir því sem við getur átt`` og varaþingmaður leiðtoga fjórða stjórnarflokksins flytur nú tillögu um að niður falli ,,eftir því sem við getur átt``. Og þá er bara ekki nokkur undankomuleið. Þá er Seðlabankinn orðinn alls ráðandi og hefur þarna skýlaus fyrirmæli. Mér finnst þetta vera mikil uppreisn fyrir Seðlabankann. Hann hefur fengið heldur lága einkunn á undanförnum vikum hjá hæstv. ríkisstjórn og einstaka ráðherrum, en

er nú heldur betur að fá góða einkunn og mikið traust. Þeir hljóta því að vera glaðir þar í ,,Svörtuloftum`` eins og kallað var hér um daginn í þessari hv. deild.
    Við sem erum í minni hl. í nefndinni getum ekki fellt okkur við þessa grein í þessum búningi. Alls ekki. Við munum greiða atkvæði gegn greininni eins og hún liggur fyrir. Ég get alveg tekið undir það sem hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar sagði að við greiðum atkvæði með mörgum af þessum brtt. því að þær eru til þess að laga frv. og hefði jafnvel mátt gera enn betur. En það er mikið atriði að mál séu vel unnin áður en þau koma inn í þingið. Þess minna þarf þá að lagfæra. Við í minni hl. nefndarinnar og sömuleiðis hv. 4. þm. Norðurl. v. leyfum okkur að flytja brtt., um það mál urðu allmiklar deilur í nefndinni og skoðanamunur, við það að skylda bankana til að stofna verðbréfafyrirtæki. Við sem flytjum þessar tvær brtt. teljum þetta vera óþarfa, algjöran óþarfa. Það er verið að tala um það að bankarnir eigi að draga úr sínum kostnaði og það er alveg sjálfsagður hlutur að þeir eigi að gera það. En þá á ekki Alþingi í sömu andránni að ganga frá löggjöf sem hvetur bankana til þess að fara í stóraukinn kostnað og aukna starfsemi. Ég fyrir mitt leyti tel að bankarnir eigi að hafa þessi réttindi. Það er auðvitað örugg þjónusta fyrir landsmenn alla, sérstaklega þá hjá þeim bönkum sem hafa víða útibú um landið og á ég ekki síst við Landsbanka Íslands. Mér finnst að með því ákvæði eins og það er frá hendi meiri hl. nefndarinnar sé verið að draga úr þjónustu við landsbyggðina. Það er eins og verðbréfaviðskipti geti þá hvergi farið fram nema hér á höfuðborgarsvæðinu. Hvers á fólk annars staðar á landinu að gjalda?
    Ég tel líka brtt. um sparðatíning um skjalavörslu og þess háttar vera algjörlega óþarfa. Það er alveg nóg að segja um geymsluskyldu skjala að geymsluskylda skuli fara fram eftir almennum bókhaldsreglum. En þarna er það tekið upp að einnig beri öllum sem atvinnu hafa af viðskiptum með verðbréf að geyma afrit eða ljósrit af öllum skjölum sérgerðum vegna viðskiptanna. Því nægir ekki að segja í þessari löggjöf að um geymsluskyldu fari eftir almennum bókhaldsreglum? Hvers vegna er Alþingi að samþykkja lög þar sem eitt gildir í þessu tilfelli og annað í öðru? Auðvitað á hér að vera um samræmingu að ræða. Það gekk nú svo langt í tillögunni sem lögð var fram af hv. 6. þm. Norðurl. e. að það átti að ljósrita allar bankaávísanir verðbréfafyrirtækja, en auðvitað vita allir að tékkarnir enda hver í sínum banka sem innleysir þá að lokum og þar eru þeir geymdir. Það áttu að vera nokkrar ljósritunarvélar í gangi til þess að ljósrita tékkana. Mér finnst hálfskammarlegt fyrir Alþingi að vera að taka upp svona ómarkvissar reglur eins og þarna er gert með þessu þó að það hafi verið örlítið bætt og þakka ég nú formanni nefndarinnar fyrir það að hann dró heldur úr pappírsflóðinu. Það er nú kominn tími til. Það er ekki nóg að vera alltaf talandi um umhverfismál og að það þurfi að vernda óspillta náttúru en flækja sig svo í pappírseyðslunni að það

verður að fella til viðbótar mörg tré á ári bara til þess að sinna svona vitleysu. Það ættu menn að fara að hafa í huga þegar þeir tala um umhverfismál.
    Mér fannst dálítið kyndugt hjá hv. formanni nefndarinnar þegar hann setti upp töluverðan sorgarsvip yfir því að hv. 4. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds skyldi vera á tillögu með svona mönnum eins og Matthíasi Bjarnasyni og Inga Birni Albertssyni og harmaði það. Ég sé ekki að það sé nein ástæða til þess að harma það því að Ragnar Arnalds lýsti því yfir í nefndinni að hann vildi þessa breytingu þar og var kominn af stað með tillögu nákvæmlega sama eðlis og þessi tillaga er, en ég mun hafa verið á undan að fara með hana inn á skrifstofuna svo að hann kom til mín og fannst fráleitt að vera að flytja tillögu sem væri svo að segja alveg eins orðuð og spurði hvort við hefðum nokkuð á móti því að hann væri meðflm. að þeirri tillögu sem ég taldi sjálfsagt. Mér finnst óeðlilegt að þingmenn landsbyggðarinnar harmi það ef slík tillaga sem þessi er flutt og þá alveg sérstaklega, ef hún næði nú fram að ganga, að landsbyggðin fengi að sitja við sama borð hvað þjónustu snertir í verðbréfaviðskiptum og fólk hér á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst verðbréfin ekki vera þannig að það eigi að halda þeim frá landsbyggðinni. Þau eru þó þáttur í viðskiptalífinu og landsbyggðin má vissulega fjalla um verðbréfaviðskipti og hafa þau í sinni bankastarfsemi úti á landi alveg eins og það ágæta fólk sem býr hér á höfuðborgarsvæðinu.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri en lýsi því yfir að ég mun, eins
og ég hef tekið fram í nefndinni, styðja flestar brtt. sem eru fluttar af meiri hl. nefndarinnar. En eins og ég tók fram áðan greiði ég atkvæði gegn 30. gr. frv. eins og hún liggur fyrir, en að sjálfsögðu á hæstv. viðskrh. eftir að skýra hringsnúning sinn varðandi 30. gr. Það getur vel verið að hann hafi orðið að láta undan til þess að halda friðinn á stjórnarheimilinu og þá spyr maður hvort það eigi þá að láta undan líka með þessa litlu tillögu sem liggur fyrir frá fjórða afli hæstv. ríkisstjórnar.