Verðbréfaviðskipti
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni einkum þrjú atriði varðandi þetta frv. sem hér liggur fyrir og það er kannski eðlilegast í beinu framhaldi af síðustu ræðu að víkja að 30. gr. um bindiskylduna svokölluðu.
    Það er nefnilega alveg laukrétt hjá hæstv. viðskrh., eins og hann sagði við 1. umr. þessa máls hinn 1. nóv. sl., með leyfi forseta, og er þá að fjalla um þá brtt. sem hv. þm. Stefán Valgeirsson flutti við 1. umr.:
    ,,Ég er hins vegar ekki samþykkur brtt. hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefáns Valgeirssonar en hann vill að bindiskyldan gildi undantekningarlaust um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði og að sömu reglur gildi um bundið fé eins og gilda um þær stofnanir. Þetta tel ég of langt gengið og það tekur ekki tillit til þess að starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða er ólík hefðbundinni starfsemi innlánsstofnana, sérstaklega að því leyti að yfirleitt er fjármagn verðbréfasjóðanna langtímasparnaður en ekki veltufé eins og víðast er um innstæður í bönkum og sparisjóðum.``
    Þetta sagði hæstv. viðskrh. við 1. umr. og þetta vil ég leggja áherslu á að er vitaskuld laukrétt. Verðbréfasjóðirnir eru ekki innlánsstofnanir og innlánsbinding, öðru nafni bindiskylda, á ekki við um þessar stofnanir nema að því marki sem þær hugsanlega færu inn á svið innlánsstofnana. Í slíkum tilfellum er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að sams konar reglur gildi um bindiskyldu en annars ekki, enda er það svo að innlánsstofnanirnar, bankarnir, njóta ýmissa réttinda á móti sinni bindiskyldu sem er þá ekki gert ráð fyrir í frv. eða samkvæmt tillögu hv. 6. þm. Norðurl. e. að verðbréfasjóðirnir mundu njóta ef á þá yrði lögð þessi bindiskylda. Ég skal nefna þrennt sem innlánsstofnanir njóta í dag en verðbréfasjóðirnir ekki og sem mundi þá gera bönkunum hærra undir höfði ef bindiskyldan yrði lögð á verðbréfasjóðina. Þessi atriði eru:
    1. Stimpilskylda.
    2. Möguleikar á yfirdrætti í Seðlabankanum.
    3. Réttur til að taka við innlánum.
    Það er hætt við því að ef þetta ákvæði nær fram að ganga, þá verði það í raun til þess að sjóðirnir fikri sig inn á svið innlánsstofnana. M.ö.o., að með þessu sé verið að hvetja til þess að nokkrir fleiri bankar bætist við hér í landinu og það efa ég að sé hugmyndin og ætlunin með þessari tillögu.
    Ég get tekið undir það almenna sjónarmið, alveg eins og hæstv. viðskrh. hefur gert, að eðlisskyld starfsemi á auðvitað að hlíta sömu skyldum hverju nafni sem hún nefnist. En hún á jafnframt að njóta sömu réttinda og það hefur láðst að taka það með í reikninginn í meðferð þessa máls að því er virðist eingöngu til þess að koma til móts við hv. 6. þm. Norðurl. e. Hann hins vegar virðist ekki una því sem komið hefur verið til móts við hann og hans samtök heldur vill ganga lengra, jafnvel svo langt að það sé ekki gerður nokkur einasti greinarmunur á starfsemi

þessara aðila þó svo að hún sé að mörgu leyti ólík. Slíka tillögu er auðvitað ekki hægt að styðja að mínum dómi.
    En almennt séð, og eins og kom fram í máli hv. 1. þm. Vestf., hefur þessari grein verið breytt til hins verra. Hún var óþörf í upphafi að mínum dómi en hún er orðin ómöguleg eins og hún er núna og þarf ekki að hafa fleiri orð um það.
    Mig langar næst, virðulegi forseti, að koma að 1. brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. sem, eins og hv. 10. þm. Reykv. gat um, er gjörsamlega óþörf breyting. Það er sjálfsagt og eðlilegt að kveða á um nafnskyldu verðbréfa og að slíkar upplýsingar liggi fyrir, en það er gjörsamlega óskiljanlegt að biðja um til viðbótar upplýsingum um nöfn, kennitölur og heimili einhverjar ótilteknar aðrar glöggar upplýsingar um viðskiptamenn þeirra sem versla með verðbréf. Hvað er átt við? Ég leyfi mér að endurtaka spurningar hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur. Hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Þeir, sem lög þessi taka til og hafa atvinnu af viðskiptum með verðbréf, skulu afla glöggra upplýsinga um hverjir viðskiptamenn þeirra eru og skrá nöfn þeirra, kennitölur og heimili á reikninga`` o.s.frv. --- Sem sagt: Bæði þessar venjulegu upplýsingar um nöfn, kennitölur og heimili en svo eitthvað til viðbótar, einhverjar glöggar upplýsingar til viðbótar um viðkomandi aðila. Og hvaða upplýsingar skyldu það nú vera? Er það ætt og uppruni? Er það lánstraust eða persónulegir hagir að öðru leyti? Á að fara að afla upplýsinga eins og gert er fyrir þingnefndum Bandaríkjaþings þegar verið er að veita mönnum embætti um hvernig menn haga sínu einkalífi? Þetta er auðvitað fráleitt ákvæði, gjörsamlega óþarft og gengur miklu lengra í hnýsnisátt, ef ég má kalla það svo, heldur en menn kannski hafa gert sér grein fyrir. Eða er þetta kannski bara marklaust? Er þetta bara sett þarna inn til þess að koma til móts við óskilgreindar óskir hv. 6. þm. Norðurl. e.? Þetta ákvæði er fráleitt en það getur haft það í för með sér að það fæli fólk frá viðskiptum á þessum markaði. Ef þarna verður farið fram á eitthvað meira en nafn, kennitölur og heimili, einhverjar aðrar upplýsingar í átt við það sem ég nefndi, þá getur það orðið til þess að fæla fólk frá því að eiga þarna viðskipti og kannski var
það tilgangurinn. Ég skal ekki um það segja. En á því hafa ekki komið fram neinar skýringar hvað þarna er verið að tala um.
    Hitt er svo annað mál eins og komið hefur fram að það er búið að strika þarna út nokkur atriði eins og ljósritun á ávísunum og tékkum sem fara á milli manna í viðskiptum sem þessum þannig að það sem mætti segja að hafi verið allra fráleitast er horfið, en eftir stendur þetta furðulega ákvæði um einhverjar glöggar upplýsingar til viðbótar því sem venjubundið er og sjálfsagt. Æskilegt væri nú að hv. 1. þm. Norðurl. v. og frsm. nefndarinnar skýrði frá því hvað þarna væri verið að tala um, en ég mun láta mér nægja hans skýringar við 3. umr. Hann getur notað helgina til að velta þessu fyrir sér.

    Loks, virðulegi forseti, eitt atriði enn sem ég vil koma að og varðar 15. gr. þessa frv. Fram hefur komið að ég tel mjög lögmæt athugasemd frá prófessor Árna Vilhjálmssyni varðandi 1. málsl. 1. gr. þessa frv. Þar segir svo í frv., með leyfi forseta:
    ,,Almennt útboð markaðsverðbréfa annarra en ríkisskuldabréfa, skuldabréfa með ríkisábyrgð og ríkisvíxla skal ætíð fara fram með milligöngu verðbréfafyrirtækja.``
    Þetta má auðveldlega túlka svo, og það er auðvitað sú túlkun sem liggur beinast við samkvæmt orðanna hljóðan, að engir megi bjóða út neins konar markaðsverðbréf, þar með talin hlutabréf nema verðbréfafyrirtæki sem falla undir ramma þessara laga. Nú er það þannig að þau hafa mörg hver og sjálfsagt flest hver litla reynslu af útgáfu hlutabréfa. Hins vegar hafa fyrirtækin sjálf, hlutafélögin í landinu, mörg hver víðtæka reynslu af því að bjóða almenningi til kaups hlutabréf sem þau hafa ákveðið að gefa út og selja á almennum markaði. En samkvæmt þessu ákvæði er slíkum hlutafélögum bannað að bjóða sín bréf sjálf, óheimilt að annast kynningu á slíkum bréfum og sjá um gerð útboðsins að öðru leyti. Þetta er náttúrlega algjörlega óeðlilegt ákvæði.
    Ég tel að það sé fullkomlega óeðlilegt að banna hlutafélögum í landinu að standa sjálf fyrir starfsemi af þessum toga og það eigi þá að heimila þeim það, en ef þau kjósa að gera þetta ekki sjálf, þá sé skylt að leita til verðbréfafyrirtækja eða viðurkenndra bankastofnana t.d.
    Ég ætla ekki að rökstyðja þetta nánar, virðulegi forseti. Ég vil benda á það að þetta hefur farið fram hjá eða fallið niður í meðferð fjh.- og viðskn. Ég tel samt að það sé nokkuð augljóst mál að þarna eigi að gera breytingu á og ég efast um að þetta hafi verið ætlan þeirra sem þetta frv. sömdu. Hins vegar hefur fjh.- og viðskn. ekki tekið þetta mál upp á sína arma þannig að ég hlýt að áskilja mér rétt til þess, virðulegi forseti, að flytja brtt. við frv. í þessa átt við 3. umr.