Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Með örfáum orðum vil ég koma inn í þessa umræðu á þessu stigi og fyrst og fremst fjalla um stjórnarsáttmálann og þau ákvæði sem þar eru um hernaðarmannvirki.
    Eins og hér hefur komið fram er um það samkomulag á milli stjórnarflokkanna, eins og segir í stjórnarsáttmála, að ekki skuli ráðist í ný meiri háttar hernaðarmannvirki og er þar vísað til þess að ekki skuli ákveðin mannvirki umfram þau sem ákveðin voru áður en þessi ríkisstjórn tók við í september sl. Í meiri háttar hernaðarmannvirki verður því ekki ráðist nema allir þeir sem að ríkisstjórninni standa séu sammála um að það skuli gert þrátt fyrir ákvæði þessa sáttmála eða allir sem að ríkisstjórninni standa eru sammála um að umrætt mannvirki sé ekki meiri háttar hernaðarmannvirki. Svo er ekki nú. Um það eru skiptar skoðanir innan ríkisstjórnarinnar og það eitt út af fyrir sig kemur í veg fyrir að í þetta mannvirki verði ráðist nema þessi skoðun breytist við nánari umfjöllun.
    Ég lít svo á að bréf frá aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins sé sannarlega mjög mikilvægt í þessu máli, en það lætur þó að margra mati ýmsum spurningum ósvarað. Í þessu bréfi er m.a. sagt að þetta mannvirki geti ekki talist hernaðarmannvirki á friðartímum. Við hvað er átt með friðartímum og ófriðartímum? Í varnarsáttmálanum frá 1949 segir að hér á landi skuli ekki vera erlendur her á friðartímum. Árið 1951 þegar Kóreustyrjöldin var var hún talin næg ástæða til þess að hingað kom erlendur her sem hefur setið síðan. Því er ekki óeðlilegt að menn spyrji og vilji fá nánari skilgreiningu á þessu: Hvað eru friðartímar og hvað eru ófriðartímar?
    Það er rétt sem hæstv. utanrrh. sagði hér áðan, að það mun vera ákvörðun ráðherranefndar Atlantshafsbandalagsins hvort um er að ræða friðartíma eða ófriðartíma. Þetta er engu að síður atriði sem þeir sem vilja ekki ráðast í meiri háttar hernaðarmannvirki vilja skiljanlega fá nánar skilgreint og vísa ég enn til þeirrar reynslu sem við höfum haft af slíku.
    Hitt er svo nokkuð annað mál hvort hæstv. utanrrh. getur leyft þá forkönnun sem hér er um að ræða. Ég lýsi þeirri skoðun minni að það geti hæstv. utanrrh. leyft ef um engar framkvæmdir er að ræða í þessu sambandi. Hitt er svo annað mál að eðlilegt virðist að mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins vilji þá um leið fá ákveðið hvort í framkvæmdina megi ráðast ef niðurstaðan verður sú að rétt sé að byggja slíkt mannvirki hér á landi. Ég á bágt með að trúa því að mannvirkjasjóðurinn krefjist þess ekki að hafa nokkra fullvissu fyrir því áður en í kostnaðarsamar framkvæmdir er ráðist.
    Hér hefur stefnuna í flugmálum sem hæstv. samgrh. hefur lagt fram einnig borið á góma. Hæstv. samgrh. gerir ráð fyrir lengingu þriggja flugbrauta á Norðurlandi, í 2400 til 2700 metra. Ég tek það fram, eins og hefur reyndar einnig komið fram hjá hæstv. utanrrh., að íslensku flugfélögin hafa staðfest að

þessar brautarlengdir séu fullnægjandi fyrir þær vélar sem Flugleiðir hyggjast vera með á næstu árum. Þetta er vitanlega afar mikilvægt og skapar mjög, ef ég má orða það svo, fjölbreytt öryggi fyrir hinar íslensku flugvélar og skapar vitanlega ýmsa möguleika á þeim landsvæðum þar sem slíkar brautir eru gerðar. Hinu finnst mér þó að verði ekki neitað að það er annmarki á þessari hugmynd að engin þessara brauta yrði 3000 metrar eða lengri því að um svæðið fara flugvélar sem þurfa á lengri flugbraut að halda. Ég vek athygli á því að nú lenda reglulega í Keflavík flugvélar sem flytja vörur til Japans sem þurfa á lengri braut að halda. Því tel ég afar mikilvægt að í þessu sambandi, í tengslum við þá stefnu sem hæstv. samgrh. fjallar um og mun verða rædd vandlega í ríkisstjórninni á næstunni, verði einnig kannað hvort ekki má byggja hér flugbraut sem nær þessari lágmarkslengd. Ég tel að hárrétt sé, sem kom fram hjá hæstv. utanrrh., að það er mjög mikilvægt út af fyrir sig í þessu máli. Og mér finnst eðlilegt að íslensk flugmálayfirstjórn kanni það mál og gerði satt að segja ráð fyrir að það hefði verið með í þessari umræðu því að íslensk flugmálayfirstjórn fjallar vitanlega um allt það svæði og allar þær vélar sem hér fara um. Stjórn þessa svæðis er hjá íslenskum flugmálayfirvöldum.
    Ég skal, virðulegi forseti, ekki lengja þessa umræðu umfram þetta. Ég vildi fyrst og fremst leggja áherslu á þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum. Því verður ekki breytt nema allir sem að ríkisstjórninni standa séu sammála um það og mannvirki verður ekki reist hér nema allir sem að ríkisstjórninni standa séu sammála um að ekki sé um meiri háttar hernaðarmannvirki að ræða. Um það er ekki samstaða innan ríkisstjórnarinnar a.m.k. enn.