Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég skal úr því sem komið er ekki hafa á móti því að hér sé rætt áfram um það mál sem til umræðu er utan dagskrár, um varaflugvöll, en á hinn bóginn hlýt ég að ítreka það, sem hafði áður komið fram hjá mér með óformlegum hætti, að ég sætti mig ekki við að fundahöld verði fram á nótt nú og tel eðlilegt að fundi verði slitið þegar umræðu utan dagskrár lýkur. Við þingmenn eigum að mæta kl. 8.30 í fyrramálið á fund í fjh.- og viðskn. Ég var að fá í hendur fyrir skömmu þau drög sem fyrir liggja að reglugerð um hlutafjársjóð og á eftir að kynna mér þær breytingar sem hafa verið gerðar á þeim frv. sem þá verða til umræðu og við vitum um að samtök fiskvinnslustöðvanna hafa verið á fundum í dag og það eru ýmsar hliðar uppi bæði í sambandi við verðlagningarsjóð sjávarútvegsins, hlutafjársjóðinn, Atvinnutryggingarsjóðinn og ýmislegt annað sem verður til umræðu í fyrramálið þannig að óhjákvæmilegt er fyrir þá þingmenn sem eiga sæti í fjh.- og viðskn. að gefa sér góðan tíma til að undirbúa sig. Ég veit að af þessum sökum muni forseti fallast á að rétt sé að halda umræðum um stefnu ríkisstjórnarinnar áfram á fundi sameinaðs þings á fimmtudag. Ég vildi að þessar athugasemdir kæmu fram.