Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég biðst afsökunar að hafa yfirgefið salinn, en til þess liggja gildar ástæður. Ég treysti því að hv. 2. þm. Norðurl. e. mundi tala a.m.k. klukkustund eða svo og ætlaði að hlífa sjálfum mér við að hlusta á hann og vék mér þess vegna frá.
    Ég ætlaði reyndar ekki að taka þátt í þessum umræðum, en ef hæstv. utanrrh. mætti vera að því að hlusta á mig langar mig til að beina til hans orðum.
    Ég mótmæli þeim ummælum sem komu fram hjá honum um íslensku flugfélögin þar sem hann gerði því skóna að af sparnaðarástæðum gættu þau ekki fyllsta öryggis með kröfur til flugbrautarlengdar, þ.e. að af sparnaðarástæðum væru þau ekki að krefjast þeirrar flugbrautarlengdar að fyllsta öryggis væri gætt. Þessu vil ég mótmæla og ég held að þau gæti bæði tvö fyllsta öryggis.
    Flugfélag Íslands hefur lagt fyrir flugráð umsögn um hve langar brautir vélar félagsins þurfi. ( Samgrh.: Það heita Flugleiðir.) Það heita Flugleiðir, já. Þakka leiðbeiningar hæstv. samgrh. Vélar Flugleiða --- þær vélar sem Flugleiðir koma til með að eiga eftir 1990, þ.e. þær vélar sem búið er að panta og eru væntanlegar í flota félagsins og verða komnar til notkunar upp úr 1990 --- þurfa ekki lengri brautir til varaflugvallar en um 2000 m.
    Öryggisnefnd Félags ísl. atvinnuflugmanna telur hins vegar að 2400 m braut sé ákjósanlegri og við það miðaði flugráð í niðurstöðu sinni um varaflugvöll á Egilsstöðum. Íslenskar flugvélar, flugvélar í eigu Íslendinga þurfa sem sagt ekki lengri braut en í mesta lagi 2400 og kæmust af með 2000. Að vísu er afstætt hugtak hversu hlaðin vélin þarf að vera og hversu langt er til áfangastaðar, en það er sem sagt hægt að komast af með 2000 m braut með því fororði t.d. að fljúga til Keflavíkur áður en farið er í langflug vestur um haf.
    Guðmundur H. Garðarsson las upp úr grein í Tímanum. Þessi grein, sem hann las að mestu úr Tímanum, er ekki stefna Framsfl. Það hefur einhver blaðamaður á Tímanum fengið þarna nokkra dálka til að skrifa sér til hugarhægðar og hann er ekki að lýsa stefnu Framsfl. og þaðan af síður að hæstv. forsrh. hafi lesið þessa grein yfir í handriti. Ég leyfi mér að fullyrða að það eru ekki fingraför hæstv. forsrh. á þessari grein. ( MÁM: Les hann ekki allar greinar þar yfir?) Það held ég ekki. Ég efast um meira að segja að formaður blaðsstjórnar, hv. 3. þm. Austurl. Jón Kristjánsson, lesi yfir allar greinar í Tímanum fyrr en þær eru komnar á prent. Að sjálfsögðu gerir hann það þá. (Gripið fram í.) Ég nærri skil forsrh. Ég sýkna sem sagt forsrh. bæði af því að hafa skrifað þessa grein og af því að hafa lesið hana og þessi grein lýsir með engum hætti stefnu Framsfl.
    Á síðasta flokksþingi framsóknarmanna var ályktað að flokkurinn skyldi standa gegn uppbyggingu frekari hernaðarmannvirkja. Það er stefna Framsfl. og verður það þangað til annað flokksþing, hugsanlega einhvern tíma í framtíðinni, breytir þeirri stefnu, en sem stendur er þetta sú stefna sem við höfum heimild til að standa

að og þeirri stefnu getur ekkert annað apparat í flokknum breytt en flokksþingið. Stefnan er í gildi og verður það um fyrirsjáanlega framtíð. Frekari uppbygging hernaðarmannvirkja samrýmist sem sagt ekki stefnu Framsfl. Hún samrýmist heldur ekki stefnu ríkisstjórnarinnar því þar er mælt skilmerkilega fyrir um að ekki skuli samið um meiri háttar hernaðarmannvirki og læt ég það duga.
    Eins og glögglega kom fram í ágætri ræðu hjá hv. 3. þm. Austurl. er umræddur 3000 m varaflugvöllur sem byggður er af NATO auðvitað hernaðarmannvirki. Við skulum ekki heimska okkur á því að halda öðru fram. Það er hárrétt athugað m.a.s. hjá hv. 5. þm. Reykv. Albert Guðmundssyni að þetta er hernaðarmannvirki. 11 milljarðar úr mannvirkjasjóði NATO eru ekki falir til byggingar einhvers annars en hernaðarmannvirkja. Hæstv. utanrrh. veit vel að um hernaðarmannvirki er að ræða og það má sanna með óbeinni sönnun þar sem hann telur þennan völl heyra undir sig. Ef þarna væri um borgaralegt mannvirki að ræða mundi það vitaskuld heyra undir hæstv. samgrh. Það liggur ljóst fyrir að þennan 11 milljarða völl er ekki hægt að flokka annars staðar en sem hernaðarmannvirki.
    Ef við veltum því fyrir okkur hvort þessi forathugun eða hvað það er kallað samræmist stjórnarsáttmálanum verð ég að leyfa mér að draga það í efa. Mér finnst mjög vafasamt að NATO færi í forkönnun nema eiga það víst að ef könnunin leiddi til jákvæðrar niðurstöðu yrði heimiluð bygging vallar. Annars væri þetta verk unnið fyrir gýg því að væntanlega færu þeir ekki að eyða peningunum ef ekki væri unnt að byggja þess háttar völl. Það er heldur ekki samræmanlegt við stefnu ríkisstjórnarinnar og það leiðir mig að þeirri niðurstöðu að þessi forkönnun sé andstæð stjórnarsáttmálanum.