Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það er mjög gagnlegt að fram fari umræður um varaflugvöllinn og þær hugmyndir sem uppi eru um hann og utanríkismál líka almennt, sömuleiðis öryggis- og samgöngumál. Reynslan er sú að umræður eru gjarnan afar góðar svona á kvöldin þegar menn halda ró sinni og fara yfir hlutina málefnalega eins og ég tel að þeir hafi t.d. gert, kollegar mínir sem töluðu fyrr í dag. Ég held að það sé ástæða til að hugleiða ýmis grundvallaratriði í þessari umræðu ef það mætti verða til þess að menn veltu hlutunum síðan áfram fyrir sér inn í nóttina og næstu daga eftir atvikum og í þeim umræðum sem fram munu fara vafalaust á næstu vikum og mánuðum um þessi mál og önnur því tengd.
    Eitt það atriði sem oft hefur verið sagt úr þessum ræðustól í kvöld er að þessi flugvöllur verði byggður af NATO. Það er orðalag sem hefur mjög oft verið notað m.a. af mörgum hv. þm. Staðreyndin er hins vegar sú að bandaríkjaher á frumkvæði að gerð þessa flugvallar og miðað við þær reglur sem gilda innan Atlantshafsbandalagsins mun bandaríkjaher kosta gerð mannvirkisins algerlega í fyrstu. Þó að bandaríkjaher síðan sæki um fjárveitingu úr mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins yrði hún ekki veitt fyrr en eftir að framkvæmdum yrði lokið. Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á þessari röð hlutanna. Í samantektum sem liggja fyrir í þykkum bókum um mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins er ljóst að það tekur iðulega mjög langan tíma þangað til farið er af stað og þar til niðurstöður liggja fyrir á vegum mannvirkjasjóðsins. Þar er talað um að meðaltali 30 mánaða tímabil. Það mannvirki sem hér er því talað um og vitnað er til Wörners um er því aðallega bandarískt hernaðarmannvirki, jafnvel þó að íslenskir menn yrðu ráðnir til að annast daglegan svokallaðan rekstur þess og jafnvel þótt aðildarríki mannvirkjasjóðsins ættu hluta í fyrirtækinu og ættu þar af leiðandi fullan rétt á að notfæra sér þá aðstöðu sem komið yrði fyrir á varaflugvellinum. Flugvöllurinn yrði undir yfirstjórn Bandaríkjahers á friðartímum nema um það yrðu teknar sérstakar ákvarðanir og mér er ekki kunnugt um að hæstv. utanrrh. hafi í höndum neitt annað frá bandaríkjastjórn í þessu efni.
    Þess eru engin dæmi að mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins hafi boðist til að leggja fram fé í framkvæmdir að fyrra bragði eins og reyndar hefur verið látið í veðri vaka. Reynslan er sú og reglan er sú að herstjórnir aðildarríkja mannvirkjasjóðsins sækja um fjárveitingu úr þessum sjóði sem þessi sömu ríki eru aðilar að. Þegar vitnað er til Noregs í þessu sambandi og borið saman við Ísland er það ekki sambærilegt vegna þess að Norðmenn eiga aðild að mannvirkjasjóðnum og greiða fé til mannvirkjasjóðsins og sækja um fjármagn úr mannvirkjasjóðnum til að standa undir þessum tilteknu framkvæmdum. Öll NATO-ríkin eiga aðild að mannvirkjasjóðnum nema Ísland og Spánn og aðild Frakklands að þessum sjóði takmarkast algerlega við loftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins. Það er þess

vegna ekki rétt mynd af hlutunum að mínu mati að setja þetta þannig upp að málið sé á núverandi stigi málefni Atlantshafsbandalagsins. Hér er í raun og veru fyrst og fremst um að ræða ákvörðun og stefnu sem kann að hafa verið tekin ákvörðun um og hefur væntanlega verið tekin ákvörðun um á vegum Bandaríkjastjórnar. Þetta held ég að sé mjög nauðsynlegt fyrir menn að hafa í huga þegar þeir eru að tala um almennt gildi þessa mannvirkis fyrir Atlantshafsbandalagið sérstaklega. Sumir hv. þm. hafa í dag talað sig upp í nokkurn hefðbundinn hita varðandi varnir hinna vestrænu lýðræðisþjóða og allt það og segja: Það er Atlantshafsbandalagið sem er að tryggja þær með þessum hætti. Málið liggur ekki alveg þannig ef það er farið nákvæmlega í hlutina eins og þeir liggja samkvæmt þeim reglum sem eru í gildi innan Atlantshafsbandalagsins og þeir þekkja sem hafa lesið sér til um þessi mál eitthvað á undanförnum árum.
    Þessu vildi ég koma á framfæri hér, virðulegi forseti. Þessi mál hafa raunar oft verið rædd áður en ekki endilega í samhengi við varaflugvöllinn heldur t.d. í samhengi við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það var rætt sérstaklega í bandaríska þinginu hvort það kæmi ekki til greina að mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins kostaði ákveðinn hluta af flugstöð Leifs Eiríkssonar. Því var algerlega vísað á bug í bandaríska þinginu, í yfirheyrslum sem þar fóru fram að það þýddi nokkuð að sækja um slíkt til mannvirkjasjóðsins vegna þess að mannvirkjasjóðinn mætti ekki nota í flugstöðina þar sem hún er ekki til ráðstöfunar fyrir herþjálfun á friðartímum í fyrsta lagi og í öðru lagi þar sem hún væri ekki eingöngu byggð í hernaðarlegum tilgangi. Af þessum ástæðum sögðu menn svo svo: Það er fráleitt, það samrýmist ekki reglum mannvirkjasjóðsins að sækja um fjármuni til flugstöðvarinnar. Á sama hátt er það auðvitað þannig að það samrýmist ekki reglum mannvirkjasjóðsins, þeim sem í gildi hafa verið til þessa, að kalla eftir fjármunum í þann varaflugvöll sem hér hefur nokkuð verið rætt um.
    Um þetta atriði liggja fyrir fleiri gögn. M.a. hef ég undir höndum útskrift úr umræðum í breska þinginu þar sem spurt er um þessi atriði sérstaklega og þetta sama kemur fram. Mannvirkjasjóðinn á alls ekki að nota fyrir almenn
mannvirki eins og t.d. almenn samgöngumannvirki.
    Þetta finnst mér rétt að draga fram líka vegna þess að það hefur verið dregið inn í umræðuna að bréf frá Wörner sé síðasta orðið í þessu efni. Í rauninni er það ekki svo formlega séð. Bréfið vekur auk þess upp mjög margar spurningar að ekki sé fastar að orði kveðið. Það er sagt að það sé litið svo á að þetta sé svona og svona, að það sé talið að þetta sé svona og svona, en í rauninni er Atlantshafsbandalagið ekki sá beini aðili að þessu máli sem menn hafa viljað vera láta. Og ég spyr: Skyldi þetta mál hafa verið tekið upp af framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins við fulltrúa allra aðildarríkja NATO? Hafa Danir fallist á þetta? Hafa Norðmenn fallist á þetta? Eru þessar

bræðraþjóðir okkar í Norðurlandaráði að þrýsta á okkur með þeim hætti sem birtist í þessu bréfi framkvæmdastjórans og er bersýnilega ætlað að hafa áhrif á íslenska innanlandspólitík? Ég spyr. Og það er umhugsunarefni fyrir okkur sem nú erum senn að ganga til þings Norðurlandaráðs.
    Norðmenn hafa eins og ég sagði áðan aftur og aftur sótt um fé úr þessum mannvirkjasjóði, en þeir eiga líka aðild að sjóðnum með beinum framlögum þannig að staða þeirra gagnvart þessum sjóði er allt önnur en staða okkar. Þessu vildi ég koma hér að, virðulegi forseti.
    Og ég vildi líka spyrja nokkurra frekari spurninga. Fyrst þessarar: Hvað um heildarsamhengið við afvopnunarmál í kringum okkur? Hvernig lítur það út? Ég vil ræða það mál líka. Er það þannig að það sé uppi um það krafa að lagðir séu auknir fjármunir í vígbúnað hér á landi þrátt fyrir þær aðstæður sem uppi eru í heiminum þar sem greinilega er tilhneiging til þess víða að skera niður og draga úr framlögum til vígbúnaðar og hernaðarmannvirkja? Það er skothent að ekki sé meira sagt að kalla inn fjármuni af þessu tagi við þær aðstæður sem nú eru.
    Í annan stað geta menn spurt: Hver er nauðsynin fyrir Íslendinga út frá íslenskum hagsmunum? Það hefur verið rakið hér. Hæstv. samgrh. hefur gert grein fyrir tillögum sínum varðandi varaflugvöll og öryggismál í þessum efnum. Ég hef satt að segja ekki séð hvaða nauðsyn það er hér á Íslandi sem kallar á að fylkingar skipi sér heitar til orustu út af máli af þessu tagi einmitt nú. Ég vildi gjarnan sjá það, ég vildi gjarnan heyra rökin vegna þess að ég held að við séum hér til að tala saman og prófa rök og gagnrök hvert á öðru.
    Ég vil líka spyrja eins og hæstv. samgrh. í dag: Hvernig er með afstöðu flokkanna til þess að ameríkanar kosti hér borgaraleg mannvirki? Ég man eftir mörgum ágætum forustugreinum í Morgunblaðinu fyrr á árum, kannski skrifuðum af hv. 8. þm. Reykv., ég man það ekki svo glöggt, enda allar ómerktar, þar sem var lögð á það áhersla að við ættum ekki að rugla saman svonefndum varnarhagsmunum annars vegar og efnahagslegum hagsmunum hins vegar. En hvað erum við að gera með því að kalla fé frá ameríkananum inn í verkefni af því tagi sem við þekkjum suður í flugstöð Leifs Eiríkssonar? Ég spyr. Það hef ég spurt um áður. En ég spyr líka: Hvaða skref erum við að stíga með því að kalla fjármuni til þess að byggja varaflugvöll hér á landi, fjármuni frá útlendum aðilum í verkefni sem að sögn á að afhendast íslenskum samgönguyfirvöldum daginn sem framkvæmdinni lyki? Það má kannski ekki tala um þetta lengur. Kannski er samviskan slæm. (Gripið fram í.) Já, þetta líkar mér. Við höfum oft haft ágætar umræður um þessi mál og önnur, einkum þó efnahagsmál, ég og hv. 8. þm. Reykv. --- Ég held að það sé ekkert óeðlilegt a.m.k. að menn spyrji þessara spurninga því að það er yfirlýst að þetta verði almennt samgöngumannvirki þó það yrði byggt fyrir þessa fjármuni. Það er yfirlýst. Hvernig rímar það við þá

afstöðu sem menn hafa haft í sambandi við herinn annars vegar og efnahagsleg áhrif hans hins vegar? Ég get sagt það fyrir mig þó það sé kannski leiðinlegt fyrir þingmenn Sjálfstfl. að heyra það að ég hef borið virðingu fyrir þessari afstöðu Sjálfstfl. Mér hefur fundist hún mjög rökrétt og eðlileg og ég hygg að ég geri engum rangt til þó að ég muni fáa hafa gert grein fyrir þessari afstöðu með gleggri rökum en hv. fyrrv. formann Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson. Mér er mjög í minni hvernig hann flutti þessi mál. Kannski er Sjálfstfl. búinn að ganga í gegnum einhverja nýja stefnumótunarumræðu í þessum málum og kominn að þeirri niðurstöðu að þetta sé allt í fínu standi. En það er fróðlegt að velta þessu fyrir sér. ( Samgrh.: Hvað þá sumir aðrir flokkar.) Ég var að horfa beint út undan mér, hæstv. samgrh., en lítt mér á hægri hönd ef það er það sem hæstv. ráðherra átti við. (Gripið fram í.) Ég get spurt alla flokka ef vill.
    En það er í sjálfu sér ekki það sem fyrir mér vakir. Það sem fyrir mér vakir er að ná þessu viðhorfi upp á borðið þannig að það sé rætt líka vegna þess að þetta er pólitískt grundvallaratriði upp á samskipti okkar við bandaríska herinn svo lengi sem hann verður hér sem við viljum reyndar öll að fari héðan hið fyrsta þó að mat okkar á því hvaða aðstæður þarf til sé örugglega mjög mismunandi.
    Svo er það að lokum þetta, virðulegi forseti, sem er mér nokkurt umhugsunarefni í þessu sambandi. Hér norður í höfum eru þrjár heldur fámennar þjóðir, Grænlendingar, Færeyingar og Íslendingar, og nú er veifað yfir þeim
dollurum og sagt: Það getur vel verið að þetta verði bara byggt hjá ykkur og viljið þið ekki leyfa okkur að láta fara fram forkönnun --- sem er dálítið vafasöm þýðing kannski eða ekki mjög nákvæm á því orði sem liggur þar á bak við sem heitir ,,feasibility study`` og er venjulega kallað hagkvæmnisathugun. Þetta er náttúrlega ekki nein forkönnun eins og fyrir einhverja venjulega grunnskólabyggingu á Íslandi svo að ég nefni það sem ég sýsla við daglega um þessar mundir. Þetta er ekkert svoleiðis. Þetta er ekki hagkvæmniathugun heldur vegna þess að hernaðaryfirvöld eru kannski ekki fyrst og fremst að spyrja um útreikning og hönnunarkostnað í smáatriðum alveg eins og við gerum í okkar framkvæmdumn. En þetta stórveldi, í þessu tilviki Bandaríkjamenn, telur sig þess umkomið að veifa framan í þessar fámennu þjóðir norður við ysta haf 11 milljörðum kr. og segja: Komið þið, leyfið þið þessa könnun hjá ykkur og ég boða yður mikinn fögnuð og allt þetta mun hlotnast þér. Það er ekki skrýtið þótt menn hugsi til freistarans forðum, þeir sem eru lesnir í helgri bók sæmilega vel. En þetta er rosaleg mynd satt að segja og hlýtur að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir Bandaríkjamenn ef þeir gerðu sér grein fyrir því hvernig þessi mynd blasir við. Ég er alveg sannfærður um að þeir eru mjög opnir fyrir þeim hættum sem í svona löguðu eru fólgnar fyrir þá ímynd sem Bandaríkjamenn gefa af sér gagnvart litlum þjóðum og fámennum þjóðum eins og t.d.

Íslendingum.
    Þetta held ég, virðulegi forseti, að sé nauðsynlegt að hafa með í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram vegna þess að hún snertir mikilsverð atriði. Hún snertir grundvallaratriði. Hún er ekki einasta deila augnabliks heldur snertir hún almenn grundvallaratriði í okkar pólitísku ákvarðanatöku.