Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Árni Gunnarsson:
    Herra forseti. Frv. sem er hér til umræðu er að mörgu leyti samkomulagsmál í hv. fjh.- og viðskn. og samstarf um vinnu við þetta frv. var með miklum ágætum.
    Hér hefur verið gerð athugasemd, og hún að mörgu leyti réttmæt, við 2. gr. frv. eins og hún liggur nú fyrir. Þessi grein er að verulegu leyti byggð á brtt. frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að vísu var með hans heimild felld út skráningarskylda á tékkum sem var gert ráð fyrir í upphaflegu greininni. Og nú til þess að sú samstaða sem hefur haldið mjög vel í nefndinni geti orðið áfram um afgreiðslu á frv. vildi ég leyfa mér að leggja til að hér yrði tekin inn brtt. með afbrigðum við 2. gr. og felld út setning þar sem stendur: ,,afla glöggra upplýsinga um hverjir viðskiptamenn þeirra eru og``, þannig að greinin hljóði svo: ,,Þeir sem lög þessi taka til og hafa atvinnu af viðskiptum með verðbréf skulu skrá nöfn þeirra, kennitölur o.s.frv.`` Þetta þarf ekki að tefja afgreiðslu málsins og ég legg því eindregið til að brtt. af þessu tagi verði samin, hún verði tekin inn með afbrigðum og ef unnt reynist að afgreiða þá málið í lok fundarins með þeirri brtt.