Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hér hafa orðið nokkrar umræður um brtt. við 15. gr. frv. Ég vil taka það fram að tillagan um það að útboð á markaðsverðbréfum, þar með eru talin hlutabréf, skuli fara fram með milligöngu verðbréfafyrirtækis er fyrst og fremst hugsuð til þess að vernda hagsmuni hugsanlegra kaupenda slíkra bréfa, þ.e. neytenda, að upplýsingar sem gefnar eru í sambandi við útgáfuna og önnur tilhögun útboðsins tryggi það að þar sé sanngjarnlega að málum staðið og réttar upplýsingar gefnar. Þess vegna tel ég eðlilegt að þótt hlutafélög fái sjálf að annast útgáfu á sínum markaðsverðbréfum þurfi þau til þess heimild verðbréfaþingsins. Ég hlustaði með athygli á það sem kom fram í máli hv. 1. þm. Reykv. þar sem hann vitnaði til ákveðinnar skilgreiningar á hlutafélögum sem njóta skattfríðinda. Ég tel eðlilegt að verðbréfaþingið líti á það mál þegar það mótar sínar starfsreglur í sambandi við framkvæmd á þessum ákvæðum, þ.e. þegar verðbréfaþingið veitir heimildir til félaga að annast sjálf útgáfu sinna bréfa. En ég tek það fram að það verður nú eðli málsins samkvæmt erfitt að setja um þetta fastmótaða reglu eins og t.d. þá að þau félög sem þannig væru gætu gefið þetta út sjálf því að það er einmitt frágangurinn á útboðinu sem menn þurfa að líta á í hvert skipti. Eru útboðsgögnin réttvísandi? Gefa þau hugsanlegum kaupanda bréfanna sannferðugar upplýsingar?
    Að öðru leyti vildi ég ítreka þakkir mínar til hv. fjh.- og viðskn. fyrir hennar mikla og góða starf að frágangi þessa frv. og vildi að endingu segja það um hugmynd hv. 3. þm. Norðurl. e., um breytingu á orðalagi í 2. gr., að ég treysti á að um þetta náist samkomulag í nefndinni, jafngott og um önnur atriði málsins.