Lyfjadreifing
Miðvikudaginn 22. febrúar 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 76/1982, um lyfjadreifingu, með síðari breytingum, en þetta er 287. mál Ed. á þskj. 519. Frv. sem liggur hér frammi og er til umræðu er samið í ráðuneytinu að höfðu samráði við landlæknisembættið og Lyfjaeftirlit ríkisins. Með frv. er lagt til að Lyfjaverslun ríkisins verði heimilt að selja bóluefni til ónæmisaðgerða samkvæmt lögum um ónæmisaðgerðir, nr. 38 frá 1978, með síðari breytingum, til lækna, heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa, enn fremur að selja flúortöflur og flúorupplausnir til tannverndar til lækna, tannlækna og heilsugæslustöðva.
    Þetta hefði í för með sér að Lyfjaverslun ríkisins gæti annast milliliðalaust sölu bóluefnis til ónæmisaðgerða og sölu á flúortöflum og flúorupplausnum til tannverndar til áðurgreindra aðila án þess að afskipti lyfjaverslana komi til. Almenna reglan er sú að öll sala lyfja fari fram á vegum lyfsala, þ.e. apótekara og annarra aðila sem hafa leyfi til lyfjasölu, en það eru fyrst og fremst nokkur sveitarfélög.
    Það er skoðun ráðuneytisins, landlæknis og Lyfjaeftirlits ríkisins að nauðsynlegt sé að hafa hér annan hátt á varðandi bóluefni vegna þess að Lyfjaverslun ríkisins ber að annast útvegun bóluefnis samkvæmt lögum nr. 38/1978, um ónæmisaðgerðir, og nauðsynlegt er að afgreiðsla geti gengið fljótt fyrir sig.
    Á undanförnum árum hefur flúortöflum og flúorupplausn verið dreift til barna og ungmenna á skólaskyldualdri. Hér er um að ræða svokallað forvarnarstarf sem skipulagt hefur verið af hálfu ráðuneytisins á vegum sérstakrar tannheilsudeildar í náinni samvinnu við heilsugæslustöðvar, héraðslækna og skóla og hefur skilað nokkrum árangri á undanförnum missirum. Ráðuneytið telur að hlúa þurfi betur að þessari starfsemi og að það verði m.a. gert með því að heimila Lyfjaverslun ríkisins að selja flúor á þennan hátt til lækna, tannlækna og heilsugæslustöðva án milliliða lyfjaverslana. Slíkt fyrirkomulag ætti að spara tíma og fyrirhöfn og leiða til lægri kostnaðar fyrir hið opinbera.
    Þeirri skipan sem lýst er hér að framan hefur verið framfylgt á undanförnum árum, þótt lög standi ekki til þess, án þess að við henni hafi verið amast. Ráðuneytið telur hins vegar nauðsynlegt að lögum um lyfjadreifingu verði breytt og sú venja sem hér hefur myndast verði lögfest.
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta litla frv. fleiri orðum en legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. til frekari fyrirgreiðslu með von um að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, enda er hér um að ræða mál sem ekki ætti að valda deilum.