Endurskoðun útvarpslaga
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Herra forseti. Vorið 1985 voru samþykkt hér á Alþingi svokölluð útvarpslög og í þeim lögum var ákvæði til bráðabirgða þess efnis að lög þessi skuli endurskoða innan þriggja ára frá setningu þeirra. Lögin voru undirrituð 27. júní 1985, en öðluðust gildi 1. jan. 1986. Ég hygg að ekki hafi verið ágreiningur um þá skoðun að þriggja ára tímabilið ætti að miðast við það hvenær lögin tóku gildi, þ.e. 1. jan. 1986, m.ö.o. að endurskoðun þessara laga átti að vera lokið fyrir 1. jan. 1989.
    Nú er það svo að ekki bólar á neinu frv. um þetta efni frá hæstv. menntmrh. þó að þessi frestur sé reyndar liðinn og þó að ítarleg vinna hafi farið fram á vegum reyndar tveggja síðustu ríkisstjórna um endurskoðun útvarpslaga með sérstakri nefnd sem vann að því og skilaði nýju frumvarpi í hendur núv. hæstv. menntmrh. nokkrum dögum eftir að hann tók við embætti. Þess vegna þykir mér ástæða til að spyrja stutt og laggott: ,,Hvað líður endurskoðun útvarpslaga?``