Gjöf menntmrh. til Kennarasambands Íslands
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. spurði að því í ræðu sinni áðan hvort mér hefði verið sagt frá þessu sem formanni fjvn. Sem svar við þeirri spurningu get ég upplýst að ég heyrði fyrst af þessu máli fyrir u.þ.b. þremur stundarfjórðungum þegar hv. 2. þm. Norðurl. v. tjáði mér að honum hefði verið sagt þetta og hann var fyrstur mér til að segja.
    Það fer ekkert á milli mála að ef það hefði verið leitað til mín sem formanns fjvn. með upplýsingar af þessu tagi hefði ég lagt þær upplýsingar fyrir fjvn. og óskað eftir afstöðu hennar. Það eru aðeins þrjár vikur síðan Alþingi afgreiddi fjárlög þar sem m.a. eru afgreiddar heimildir til ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun á ríkiseignum. Það er alveg ljóst, svo sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að hér er ekki um það að ræða að þessari eign sé ráðstafað því að til þess hefur ríkisstjórnin ekki heimild.
    Ég ítreka hins vegar það sem hæstv. ráðherra sagði, að meginefni í samþykkt ríkisstjórnarinnar er að hún muni leggja það fyrir Alþingi að þessi heimild verði veitt til ráðstöfunar á húsnæðinu og það er því að sjálfsögðu Alþingi sjálft sem endanlega tekur ákvörðunina. Ríkisstjórnin er aðeins að kynna þarna fyrir fram þá tillögu sem hún mun gera, annaðhvort síðar á árinu eða við afgreiðslu fjárlaga.
    Það vill svo til að þegar stóratburði ber snöggt að verða menn kannski að hafa hraðar hendur.