Vaxtalög
Miðvikudaginn 08. mars 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. sem prentað er á þskj. 550 og er frá meiri hl. fjh.- og viðskn. sem hefur fjallað um frv. Meiri hl. leggur til að það verði samþykkt með brtt. sem fluttar eru á sérstöku þingskjali.
    Til viðræðna við nefndina komu Eiríkur Guðnason og Sveinbjörn Hafliðason frá Seðlabankanum og Stefán Pálsson frá Sambandi viðskiptabanka.
    Meiri hl. nefndarinnar telur að frágangur frv. hefði mátt vera betri af hálfu viðskrn.
    Undir nál. rita auk mín Ragnar Arnalds, Sigríður Hjartar og Árni Gunnarsson.
    Brtt. þær sem við flytjum eru prentaðar á þskj. 551. Þar leggjum við til að 1. mgr. 17. gr. laganna, er verði 20. gr. þeirra, orðist svo sem þar segir:
    ,,Hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hagnýtir sér fjárþröng viðsemjanda síns eða aðstöðumun þeirra að öðru leyti til þess að áskilja sér vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar umfram gildandi vaxtamörk sambærilegra útlánsvaxta hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á þeim tíma sem til skuldar er stofnað, sbr. 8 gr., skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári. Sé brot ítrekað eða sakir miklar varðar brotið varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum. Hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti útlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á grundvelli 9. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum, skulu gildandi vaxtamörk útlána þau sömu og Seðlabankinn ákveður.``
    Varðandi aðra brtt. leggjum við til að ákvæði þess kafla gildi um lánskjör, þ.e. vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða, og 17. gr. hljóði svo:
    ,,Ákvæði þessa kafla gilda um lánskjör opinberra fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna sem starfa samkvæmt sérstökum lögum.``
    Síðan er lagt til að 18. gr. hljóði svo:
    ,,Fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna endurlána það fé sem þeir fá til ráðstöfunar með sambærilegum lánskjörum og þeir sæta sjálfir að viðbættum hæfilegum vaxtamun og að teknu tilliti til annarra tekna sjóðanna.``
    Ég vil taka það fram að ,,að teknu tilliti til annarra tekna sjóðanna`` veit m.a. að Stofnlánadeild landbúnaðarins þar sem bændur greiða sjálfir með afurðaverði sínu gjald til Stofnlánadeildar og þá er hún undanskilin því að þurfa að endurlána það fé sem hún tekur að láni á jafnháum vöxtum og hún tekur þar sem bændur greiða niður með óbeinum hætti vexti Stofnlánadeildarinnar.
    19. gr. heimilar viðskrh. að undangenginni athugun að fengnum tillögum Seðlabanka Íslands að setja meginreglur um lánskjör þeirra fjárfestingarlánasjóða sem ákvæði þessa kafla ná til. Stjórnir þeirra sjóða, sem hlut eiga að máli, skulu síðan gera tillögur til Seðlabanka Íslands um lánskjör innan ramma slíkra meginreglna. Seðlabanki Íslands staðfestir ákvörðun stjórnar fjárfestingarlánasjóðs um lánskjör, enda leiði undanfarandi athugun í ljós að hún samræmist

meginreglu 1. mgr.
    Herra forseti. Meiri hl. nefndarinnar leggur sem sagt til að frv. um breytingu á vaxtalögum verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir.