Vaxtalög
Miðvikudaginn 08. mars 1989

     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Tilgangurinn með þessu frv. um breytingu á vaxtalögum er yfirlýstur að verið sé að koma í veg fyrir ósanngjarna vaxtatöku og misneytingu í lánsviðskiptum. Við sem skipum 1. minni hl. þessarar nefndar, ég ásamt hv. 11. þm. Reykn., erum sammála þeim megintilgangi frv. og sömuleiðis erum við hlynntir þeim ákvæðum sem eru í 5. gr. frv. sem gera mögulegt að ekki þurfi lengur að sundurliða dráttarvaxtakröfur í langri þulu. Þetta ákvæði er mikilvægt að okkar dómi og það eitt sér hefði réttlætt framlagningu þessa frv. Við ýmis önnur atriði frv. gerum við hins vegar athugasemdir og flytjum tvær brtt. sem eru prentaðar á sérstöku þskj.
    1. gr. þessa frv. er um skýrara orðalag en er í 5. gr. vaxtalaganna. Í 2. gr. kemur einnig fram skýrara orðalag. Eina grundvallarathugasemd má þó gera bæði hvað varðar þetta frv. og vaxtalögin sjálf, en það er viðmiðun við vexti af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum. Sú breyting, sem orðið hefur á síðustu árum á vöxtum almennra sparisjóðsbóka, er í stuttu máli sú að ýmiss konar skiptikjarareikningar eða sérkjarareikningar hafa tekið yfir hlutverk almennu sparisjóðsbókarinnar. Það er staðreynd að vextir af almennum sparisjóðsbókum eru lægri en þeir þurfa að vera til þess að viðhalda verðgildi þess fjár sem inni á þeim liggur. Afleiðing þess er að sparifé í bönkum er ekki lengur geymt inni í bókum heldur hefur verið flutt yfir á margs konar aðra reikninga og bækur. Enn er þó verið að miða vexti og kröfur um skaðabætur við kjör á almennum bókum með þeim afleiðingum að það er hagur þess sem skaðanum veldur að halda uppi vörnum sem lengst. Með því móti rýrnar stöðugt andvirði skaðabóta. Það væri mun eðlilegra að miða við verðtryggingu, og þá jafnvel e.t.v. án nokkurra vaxta eða a.m.k. mjög lágra vaxta, að skaðabæturnar væru verðbættar en ekki vaxtareiknaðar og héldu þannig verðgildi sínu, en engin ávöxtun eða lítil ávöxtun fengist. Annar kostur væri sá að miða vexti skaðabótakrafna við meðaltal skuldabréfavaxta hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.
    3. gr. er um tilkynningaskyldu verðbréfafyrirtækja og eignarleigufyrirtækja. Þetta er að sjálfsögðu viðbót við upplýsingasöfnun um fjármagnsmarkaðinn. Í framkvæmdinni verður að gera ráð fyrir því að miðað sé við almennar upplýsingar en ekki sé krafist upplýsinga um einstök viðskipti.
    Varðandi 4. og 5. gr. frv. þá er verið að taka upp skýrara orðalag og eins og ég sagði hér áðan réttlætir 5. gr. framlagningu frv. Hún er nauðsynleg til þess að minnka vinnu við langar upptalningar á dráttarvaxtakröfum.
    Í brtt. við 6. gr. frv. sem við flytjum á sérstöku þskj. leggjum við til að við 1. mgr. 17. gr. laganna bætist að hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti útlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á grundvelli 9. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum, þá skuli gildandi vaxtamörk útlána þau sömu og Seðlabankinn ákveður.

    Í öðru lagi leggjum við til að 7.--10. gr. frv. falli brott.
    Með breytingu á lögunum um skattskyldu innlánsstofnana, sem tóku gildi 31. des. sl., voru ákvæði laga nr. 13/1975, um launajöfnunarbætur, verðlag o.fl., felld úr gildi. Þau ákvæði voru að verulegu leyti samhljóða 7.--10. gr. þessa frv. og gerðu ráð fyrir að ríkisstjórnin færi með endanlegt ákvörðunarvald um lánskjör, þar á meðal vaxtakjör, hjá fjárfestingarlánasjóðum. Svo virðist að niðurfelling þessa ákvæðis í desember hafi verið hluti af samkomulagi fjmrh. við stærstu fjárfestingarlánasjóðina, en frv. um breytingu á lögum um skattskyldu innlánsstofnana gerði í sinni upphaflegu mynd ráð fyrir að sjóðirnir yrðu skattlagðir. Í meðförum þingsins tók frv. hins vegar miklum breytingum því notkun hugtaksins ,,opinberir fjárfestingarsjóðir`` þótti ómarkviss --- og vitna ég þá í þær umræður sem fóru fram um þessi mál 20.--22. des. sl. --- og var fallið frá því að skattleggja sjóðina. Fjmrh. gleymdi hins vegar að draga til baka umrætt ákvæði sem veitti sjóðunum fullt vaxtafrelsi.
    Af þessari ástæðu má gera nokkrar athugasemdir við 7.--10. gr. vaxtalagafrv.:
    Í fyrsta lagi er notað orðalagið ,,opinberir fjárfestingarsjóðir``, sem þingið taldi ónothæft í lok desember sl. Í öðru lagi má spyrja hvers vegna skrefið til baka sé ekki stigið til fulls og vaxtaákvarðanir færðar undir endanlegt ákvörðunarvald ríkisstjórnarinnar eins og lögin frá 1975 kváðu á um. Í þriðja lagi má gagnrýna það óðagot sem mistök af þessu tagi bera vott um. Og í fjórða lagi má spyrja hvers vegna fjárfestingarlánasjóðum séu ekki settar sams konar reglur um endurlánajöfnuð og innlánsstofnunum, sbr. 1. gr. frv. til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands.
    Mér fannst rétt að þetta kæmi fram til skýringa á þeirri tillögu okkar að fella niður 7.--10. gr. þessa frv.
    Eins og ég hef þegar sagt erum við að öðru leyti sammála því sem er í þessu frv. nema því sem ég hef nú gert athugasemdir við.