Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989-1992
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það er því miður oft og tíðum árátta hjá íslenskum stjórnmálamönnum þegar kemur að viti bornum umræðum um samskipti við erlenda aðila að fara í einhvers konar taugaveiklunarkast og stunda þrætubók um keisarans skegg sem kemur málinu ekkert við og snýst ekki um neitt. Er einhver að halda því fram að það sé ágreiningur um það meðal stjórnmálaflokka á Íslandi almennt í samstarfinu innan EFTA og í samskiptunum við Efnahagsbandalagið að Íslendingar hafi almennt sett fyrirvara um hið fjóreina frelsi á þann veg að þeir hafa hingað til ekki sett græna ljósið á fullkominn og fyrirvaralausan tilflutning fjármagns og fólks í þessu stækkaða Evrópusamstarfi? Ég veit ekki til að það sé nokkur ágreiningur um það milli stjórnmálamanna. Ég veit ekki betur en allar ríkisstjórnir á Íslandi sem að þessum málum hafa komið hafi sagt það sama, ég sé ekki nokkurn ágreining um það.
    Ef menn eru að reyna að gera því skóna að núv. ríkisstjórn sé andvíg markaðskerfi af einhverjum trúarástæðum eða hugmyndafræðilegum ástæðum þá er það auðvitað hinn mesti misskilningur. Slíkar kennisetningar eru ekkert á dagskrá. Málið snýst um það að menn settu af hálfu fjmrn. almennan fyrirvara af því tagi sem ég vitna til í umræðunum gagnvart EFTA og EB og hefur gilt nokkuð lengi. Síðan hefur ríkisstjórnin hins vegar lýst því yfir að hún muni vinna að því að leysa þessi ágreiningsmál mál fyrir mál, lið fyrir lið. Að því er varðar þessa áætlun Norðurlandanna, sem er í sjö liðum, ætti öllum hv. þm. að vera kunnugt um hvað það snýst og ríkisstjórnin hefur í stefnuyfirlýsingu sinni um efnahagsmál markað línur um það með hvaða hætti við munum vinna að því að útfæra eða tryggja okkar sérhagsmuni gagnvart því. Stærra er nú ágreiningsefnið ekki, ég hygg að að sé enginn ágreiningur í málinu, ekki nokkur.