Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef knappan tíma í svörum þannig að ég gat ekki farið nákvæmlega út í þau mál sem hv. 3. þm. Norðurl. v. nefndi. En málið liggur einfaldlega þannig eins og ég gat um að 7. febr. 1989 skrifaði ég Ríkisútvarpinu með skírskotun til þeirrar þál. sem hér var samþykkt og sagði að ég vildi fá kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um þessi efni. Auðvitað liggur hún meira og minna fyrir, m.a. í gagni sem ég kallaði eftir og mér barst í hendur 19. des. 1988 þar sem er um að ræða mjög ítarlega kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um þessi mál. Til að ná því markmiði sem hér er sett samkvæmt samþykkt Alþingis þarf 1100 millj. kr. Þar inni er t.d. stofnkostnaður vegna endurnýjunar langbylgju- og miðbylgjustöðva áætlaður um 500 millj. kr. Þetta er svona stórt verkefni. Hins vegar er stofnkostnaður vegna FM-dreifingar Rásar 1 og Rásar 2 til íbúa með fasta búsetu sem nú ná ekki FM-sendingum áætlaður 34 millj. kr. Hér er um að ræða risavaxið verkefni, en það er hægt að raða þessu eins og öðru í tiltekna forgangsröð.
    Ég segi það við hv. þm.: Það stendur ekkert til að láta þetta fara í pappír af minni hálfu og hefur aldrei staðið. Hins vegar er ljóst að við stöndum frammi fyrir þeim vanda í sambandi við rekstur Ríkisútvarpsins að það verður að verja verulegum fjármunum til að greiða upp skuldahala rekstrar frá undanförnum árum. Því miður. Það er þannig. Þess vegna er minna fé en ég hefði viljað í þetta brýna verkefni sem ég tel að Ríkisútvarpinu beri að sinna.