Fyrirspyrjandi (Kristinn Pétursson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka viðskrh. fyrir svörin. Ég get ekki verið alveg sammála því að það hafi verið farið eftir þessum markmiðum miðað við það, sem ég sagði áðan, að eiginfjárrýrnun hefur orðið geigvænleg í íslenskum útflutnings- og samkeppnisiðnaði og viðskiptahallinn á síðasta ári er geigvænlegur og stefnir í jafnvel enn meiri viðskiptahalla í ár. Það er ekki hægt að segja að það sé farið eftir þessum lögum. Þetta eru einu ákvæðin í þessum lögum sem kveða á um hvernig skuli skrá gengi íslensku krónunnar. Það segir ekkert um hverjir fari með yfirstjórn bankanna. Þetta eru einu ákvæðin þar sem er kveðið á um hvers konar viðmiðun skráning krónunnar eigi að taka mið af.
    Einu sinni var hægt að selja Íslendingum maðkað mjöl vegna einokunar á mjölsölu á Íslandi. Það má vel vera að einhver ár í viðbót komist stjórnvöld á Íslandi upp með það að láta menn hafa ónýta seðla í skiptum fyrir alvörupeninga og vera sjálfir bæði dómarar og framkvæmdaaðilar í því verki. Með því að það sé ekki farið eftir þessum markmiðum er verið að fremja hér einhvers konar kerfisrán á íslenskum atvinnuvegum sem þýðir skert lífskjör þjóðarinnar í framtíðinni, getur ekki þýtt neitt annað. Höfuðstólar íslenskra atvinnuvega þola ekki að vera rýrðir. Það er a.m.k. borin sú virðing fyrir íslenskum fiskistofnum að þeir eru ekki ofnýttir. Það er talað um hvernig hámarksafrakstri sé best náð. En það er aldrei talað um hvenær náist hámarksafrakstur úr íslensku atvinnulífi. Það er allt í lagi að láta greipar sópa um höfuðstóla íslensks atvinnulífs sem er ekkert annað en lífskjaraskerðing fram í tímann.
    Það er alveg ljóst að það er ekki hægt að láta kaupa sér vinsældir, þykjast vera að stjórna landinu vel og það sé lítil verðbólga með því að ganga í höfuðstóla íslenskra útflutnings- og samkeppnisgreina.