Afstaða Íslands á fundi EFTA-landanna
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Mér þykir satt að segja vænt um að geta svarað hv. fyrirspyrjanda með ákveðnu neii við þeim spurningum sem hún bar fram í lok sinnar ræðu. Ekkert af því sem hún nefndi þar er á dagskrá. Ekkert slíkt verður undirritað á Oslóarfundinum. Í raun og veru gæti ég látið þar máli mínu lokið, en mér þykir gott að fá ástæðu til að fara nokkrum orðum um þessa mikilvægu þróun og ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda um þá að mörgu leyti mjög alvarlegu þróun fyrir smáríki eins og okkur sem er að verða í Evrópu.
    Ég vil hins vegar minna á að þessi þróun er löngu hafin. Hún hefst í raun með þeim samningi sem við gerum við inngöngu okkar í EFTA 1970 og með fríverslunarsamningi okkar við Evrópubandalagið 1972. Síðan höfum við dansað, ef ég má orða það svo, þann línudans sem við höfum í raun fylgt, leitað eftir markaði fyrir okkar vörur þar á hinum hagstæðustu kjörum án þess að afsala okkur nokkru af þeim yfirráðum sem við höfum og viljum hafa. En þróunin hefur orðið sú á þessum árum að nú flytjum við til Evrópubandalagsins um það bil 57% af okkar útflutningi og við flytjum inn álíka mikið eða m.ö.o.: Evrópubandalagið er orðinn langsamlega mikilvægasti markaður og viðskiptaaðili þessarar þjóðar.
    Þarna eigum við stórkostlegra hagsmuna að gæta. Við gáfum eftir fullkomið tollfrelsi fyrir allan iðnaðarútflutning og iðnaðarframleiðslu Evrópubandalagsins og reyndar EFTA-ríkjanna, en fengum í staðinn innflutningsheimild án tolla fyrir að vísu því miður ekki nema hluta af okkar sjávarafurðum. Mjög góðan samning fengum við sem var talinn, þegar hann var gerður 1972, ná til þeirra afurða sem skiptu máli fyrir okkur þá, þeirra sjávarafurða sem skiptu máli. Að sjálfsögðu höfum við einnig frelsi til innflutnings á iðnaðarvarningi til Evrópubandalagsins og EFTA.
    Okkur var einnig veittur ákveðinn aðlögunartími til að aðlaga veikan íslenskan iðnað að þeirri samkeppni sem af þessu leiddi. Ég hlýt að segja fyrir mitt leyti að ég tel að sá tími hafi verið afar illa notaður og því miður óttast ég að mikið af því fjármagni sem var ætlað til að efla íslenskan iðnað hafi runnið í steinsteypu og aðra fjárfestingu sem ekki hefur reynst eins arðbær í þeirri samkeppni og nauðsyn hefði verið. Þetta er eitt út af fyrir sig að mínu mati afar stórt og alvarlegt mál í þeirri stöðu sem við erum í núna og væri full ástæða til að ræða ítarlega hvernig okkar samkeppnisaðstaða er að þessu leyti.
    Síðan hafa að sjálfsögðu þeir hlutir gerst í Evrópu sem hafa með tilliti til þeirrar þróunar sem ég hef nefnt hjá okkur með aukinn innflutning leitt til þess að við höfum orðið að fylgjast með og aðlagast því sem þar er að gerast því þarna er um stóra hagsmuni að ræða. Þar vil ég fyrst nefna hina hvítu bók Evrópubandalagsins, sem ég hygg að hafi komið út haustið 1987, þar sem ákveðið var að taka viðbótarskref í samruna þeirra landa sem tilheyra Evrópubandalaginu, þeirra tólf landa. Þarna er einnig

rétt að vísa til breytinga á sáttmála þeirra sem stundum er kallaður The Single Act eða hin einu lög eða eitthvað þess háttar, má kannski þýða það. Þarna var ákveðið að stefna að því sem í þessu riti er. Ferns konar frelsi er nefnt í þessu sambandi. Það er í fyrsta lagi frelsi til viðskipta innan bandalagsins, fullkomið frelsi til viðskipta, fullkomið frelsi í fjármagnsflutningum innan bandalagsins, fullkomið frelsi í allri þjónustu, þ.e. flugfélaga, tryggingarfélaga og ýmislegt þess háttar, innan bandalagsins og fullkomið frelsi flutnings vinnuafls innan bandalagsins.
    Við Íslendingar urðum að sjálfsögðu að taka afstöðu til þessa máls og svo urðu vitanlega öll EFTA-ríkin að gera því að EFTA-ríkin óttuðust að þessu kynni að fylgja að reistur yrði ytri tollmúr sem kynni að koma í veg fyrir mikilvæg viðskipti EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið, en þessi tvö viðskiptasvæði eiga meiri viðskipti sín á milli en nokkur önnur tvö viðskiptasvæði í heiminum. Þessi staða kom upp reyndar áður þegar sást hvert stefndi, og nefni ég þar sérstaklega til forsætisráðherrafund sem ég sótti í Visby í Svíþjóð, 1985 hygg ég að það hafi verið, þar sem einmitt var rætt um viðbrögð við því sem menn sáu fram undan 1985 og viðbrögð við því sem menn sáu fram undan í Evrópu. Ég nefni einnig svokallaðan Lúxemborgarfund sem var haldinn 1974 og var sameiginlegur fundur forustumanna EFTA og utanríkisráðherra EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins þar sem enn var rætt um hvernig viðskipti og samstarf þessara ríkja allra gætu orðið sem nánust. Þar vaknaði hugmynd um svokallað evrópískt efnahagssvæði, þ.e. efnahagsheild Evrópu, ,,European Economic Space``. Ég nefni þessa hluti svo mönnum sé ljóst að eftir að við gerum okkar samning 1972 höfum við verið þátttakendur í þróun sem hefur gerst jafnt og þétt. En það er nauðsynlegt að leggja jafnframt áherslu á að við höfum alltaf sagt, svo ég viti, að okkar áhugi lægi í frjálsri verslun og við vildum taka þátt í frjálsri verslun innan þessa evrópska efnahagssvæðis. Við höfum alltaf haft fyrirvara um önnur atriði í þessari sameiningu. Að vísu eru hliðaratriði sem við höfum tekið ákveðnar undir, eins og samstarf á sviði rannsókna t.d. og vísinda. Þar höfum við gerst aðilar af
allt of veikum mætti, en við höfum alltaf haft fyrirvara í sambandi við frjálsa flutninga fjármagns, alltaf fyrirvara í sambandi við frelsi í þjónustu, sem hefur að vísu verið miklu minna rætt en t.d. frjálsir flutningar fjármagns, og við höfum alltaf haft fyrirvara um frjálsa flutninga vinnuafls. Á þessu hefur ekki orðið nokkur minnsta breyting.
    Svo þarf ég að nefna, virðulegi forseti, eitt mikilvægt atriði enn, sem kom jafnframt fram hjá hv. fyrirspyrjanda, og það er sú stefnuræða sem formaður framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins flutti 17. janúar, Delors, og hefur verið litið á eins og fram kom sem mjög mikilvæga í þessu máli öllu. Að vísu er mér tjáð að þar sé ekki um að ræða stefnuyfirlit sem samþykkt er og frá gengið, hvorki af framkvæmdastjórn né öðrum aðilum í

Evrópubandalaginu, en talið að hann lýsi þar þeim meginskoðunum sem muni ráða á næstu árum hjá Evrópubandalaginu. Þetta er löng og mikil ræða og ekki hægt að rekja hana hér. En hann fjallar þar líka allítarlega um samskipti Evrópubandalagsins við EFTA-ríkin og í raun má segja að hann vísi þar frá fullri aðild nokkurs ríkis eða hann hvetur til þess að ekki sé leitað fullrar aðildar á næstu árum. Þar mun í raun vera átt við Austurríki sem hefur mjög hugleitt að sækja um fulla aðild fyrr en seinna. Hann segir í þessari ræðu að um tvennt sé að ræða. Það sé nánara samstarf eftir núverandi línum og þá m.a. komi til greina tollabandalag EFTA og Evrópubandalagsríkjanna eða að koma upp stofnunum sem meira eða minna annist þetta samstarf.
    Við þessari ræðu verða EFTA-ríkin að bregðast og til þess er stofnað til forsætisráðherrafundarins í næstu viku. Það er rétt að undirbúningur að þeim fundi hefur farið fram og embættismenn og reyndar ráðherrar hafa einnig fjallað um þann undirbúning. Það var fjallað töluvert um hann á forsætisráðherrafundi Norðurlandanna um daginn í Stokkhólmi. Ég get því miður ekki greint hér opinberlega frá því sem þar var rætt, það er algjört trúnaðarmál og ég væri að brjóta trúnað ef ég gerði það, en ég fullvissa hv. þm. um að í þeirri yfirlýsingu sem er í undirbúningi er ekki verið að afsala neinum rétti, engum rétti. Hins vegar er rétt að á milli EFTA-ríkja eru mismunandi skoðanir um hve langt eigi að ganga í viljayfirlýsingu um framtíðina. Það er engin launung t.d. að Austurríkismenn vilja ganga lengst. Þeir hafa þegar lýst því yfir opinberlega að þeir hyggist sækja um fulla aðild. Hins vegar hafa Svisslendingar, við og Finnar, alveg sérstaklega þessar þrjár þjóðir, verið mjög ákveðnar hinum megin í þessari umræðu og sagt að full aðild væri ekki í myndinni fyrir okkur. Við leitum samstarfs og munum ekki fallast á neinar yfirþjóðlegar stofnanir eða neitt slíkt. Það hefur alltaf legið alveg ljóst fyrir og ekkert slíkt verður í yfirlýsingunni frá þessum fundi.
    Ég verð að geta um eitt atriði enn sem hefur verið okkur mjög mikið kappsmál og það eru frjáls sala á sjávarafurðum öllum. Þetta mál ræddi ég t.d. sem utanríkisráðherra við framkvæmdastjóra, de Clercq sérstaklega, Evrópubandalagsins í desember 1987 og leitaði þá eftir því sem hafði verið gert oft á undan mér en sérstök áhersla lögð á eftir að Spánn og Portúgal urðu aðilar. Ég leitaði eftir því að víkka mætti út þann samning sem við höfum þannig að hann næði til saltfisks, alveg sérstaklega og næði yfir ófryst flök og aðrar unnar sjávarafurðir.
    Það svar sem ég fékk á þessum fundi var að það þýddi ekki að leita eftir þessu á meðan innri markaðurinn væri í mótun og á þessum fundi var mjög eindregið ráðlagt að leita eftir því að fyrst fengist fullkomið frelsi fyrir fiskafurðir innan EFTA-ríkjanna. Það var sem sagt ráð þeirra að við stæðum sterkar og betur að vígi ef við kæmum saman með EFTA-ríkjunum til Evrópubandalagsins og þá hafandi náð fullu frelsi með sjávarafurðir innan

EFTA-ríkjanna. Á það höfum við aldrei lagt sérstaka áherslu því þau eru ekki svo mikilvæg í okkar útflutningi á sjávarafurðum. Þess vegna tók ég það mál upp sérstaklega á fundi utanríkisráðherra EFTA-ríkjanna í Tampere í fyrrasumar og þá náðist samkomulag um að setja á fót sérstaka ráðuneytisstjóranefnd sem átti að undirbúa fullkomið frelsi með sjávarafurðir innan EFTA-ríkjanna. Þessi nefnd hefur unnið mjög ötullega og það hefur mjög mikið áunnist, t.d. hafa Svíar fallið frá sinni andstöðu, en það verður að segjast eins og er að enn í dag hafa Finnar haft þar vissar efasemdir og haft fyrirvara sem þeir hafa ekki fallið frá enn og er eingöngu vegna Eystrasaltssíldar og lax sem er mjög lítill hundraðshluti af því sem hér er verið að tala um í fiskafurðum. En við vonum að það leysist á þessum fundi í Osló. Og á þessum fundi í Osló höfum við lagt á mjög mikla áherslu að verði grein sem staðfesti fullt frelsi í verslun með sjávarafurðir. Sú grein er þar inni og það er fullkomið samkomulag um þá grein, sem er út af fyrir sig mjög mikill áfangi, nema fyrirvara Finna sem áreiðanlega verður til umræðu.
    Ég ætla út af fyrir sig ekki að stofna til mikillar umræðu um fyrirvara Finna. Ég geri mér fastlega vonir um að það leysist. Þeir eiga við viss byggðavandamál að etja í eyjaklasanum hjá sér. Það er um að ræða samkeppni við fisk frá Svíþjóð og Noregi. En að því er unnið að leysa það mál og það væri út
af fyrir sig mikill áfangi fyrir okkur.
    Að lokum aðeins örfá orð um okkar starfshætti í þessu sambandi. Þar hefur tvennt komið til greina: annars vegar að einstök ríki leituðu einhliða eftir þeim samningum sem þau óska við Evrópubandalagið og á ég þá við einstök ríki innan EFTA eða að ríkin kæmu sameiginlega fram sem EFTA-ríki. Við höfum hallast mjög að því síðara sem vissulega bindur okkur nokkuð meira en veitir okkur líka tækifæri til að hafa mjög afgerandi áhrif á afstöðu EFTA því að þaðan fer ekkert nema samkomulag sé orðið. Þetta hefur orðið niðurstaðan þannig að EFTA-skrifstofan hefur verið efld mjög. Reyndar er EFTA orðið allt annað og miklu meira en, ef ég má orða það svo, aðeins fríverslunarbandalag um iðnaðarvarning. Innan EFTA er unnið að ótal málum. Ég held það séu 20 eða 25 mál sem eru þar komin á skrá og þar sem verið er að aðlaga ýmsa hluti innan EFTA-ríkjanna því sem er að gerast innan Evrópubandalagsins. Reyndar held ég að megi fullyrða að þetta hefur haft gagnkvæm áhrif þannig að það er orðið mjög náið samstarf á milli EFTA og Evrópubandalagsins um aðlögun á þessum fjölmörgu sviðum. T.d. var það frágengið á undan innan EFTA að mæla með því við öll EFTA-ríkin að þau viðurkenndu prófanir á innfluttum vörum hvert hjá öðru þannig að það þurfi ekki að taka það upp aftur þegar það kemur til viðkomandi ríkis. Þetta samþykktum við í fyrra. Það er ekki búið að ganga frá þeim hlutum hér þannig að þeir komi til framkvæmda. Þetta tel ég fyrir mitt leyti vera verulega framför. Þetta eru allt saman ríki sem eru með

svipaða staðla.
    Það er unnið mjög mikið að því að samræma alla staðla. Það er unnið mjög mikið að því að útiloka alls konar óheppileg efni í matvælum og mörgu fleiru. Það er nefnd sem fjallar um samræmingu í menntakerfinu. Það er verið að fjalla um aðgang menntafólks að hærri störfum í hinum ýmsu ríkjum. Í þessu höfum við tekið þátt, öll EFTA-ríkin. En ég endurtek að í raun er ekkert af þessu skuldbindandi fyrir okkur. Það getur orðið samkomulag sem viðkomandi ríki síðan hafnar. En ég tel allt þetta starf mjög mikilvægt.
    Að lokum af því að ég nefndi áðan þá stöðu sem við erum í núna. Ég sagði áðan að ég óttast að við höfum notað aðlögunartímann afar illa fyrir íslenskan samkeppnisiðnað. Ég held að það sé að koma í ljós. Þar erum við í afar erfiðri stöðu. Ég held það sé engin launung að t.d. húsgagnaiðnaðurinn íslenski hefur mjög látið undan síga upp á síðkastið fyrir samkeppni erlendis frá. Það liggur þar nánast við hrun. Spurningin er hjá okkur: Hvernig eigum við að mæta slíkum erfiðleikum? Ég hef heyrt fjölmarga húsgagnamenn segja að við höfum ekki notað tímann til að sameina húsgagnaframleiðendur, stækka einingarnar, auka framleiðnina eins og við áttum að gera á þeim tíma sem við höfðum. Nú stöndum við frammi fyrir því að þetta er að renna meira saman. Við drögumst eflaust þar eitthvað með. Við fórnum eflaust ekki tollafríðindum fyrir fisk sem er 57% af okkar útflutningi. Við erum búnir að gefa fullkomin tollfríðindi fyrir allan innflutning, m.a. á húsgögnum. Ég tel að við þurfum á næstunni að taka okkur taki og skoða hvernig við getum, þótt seint sé orðið, stillt þennan iðnað, sem hér er eftir, til að standast þá samkeppni sem er ekki að koma á morgun eða hinn daginn, hún er komin, en fer eflaust vaxandi. Ég tel að t.d. fjármagnskostnaður sem hér hvílir á atvinnuvegum sé einhver allra erfiðasti þröskuldurinn og því tel ég að það þurfi mjög að skoða það, án þess að leggja okkar peningakerfi undir einhverja erlenda banka, á hvern máta við getum þó aukið aðgang að tiltölulega ódýru fjármagni.
    Ég skal ekki, virðulegi forseti, hafa um þetta fleiri orð. Ég vil geta þess að ég hafði boðað svokallaða EFTA-nefnd þingsins til fundar klukkan hálffimm í dag og hef hugsað mér að hafa þar með ýmsa fulltrúa úr atvinnulífinu og reyndar verkalýðshreyfingu sem hafa sýnt þessum málum áhuga þannig að ég vil ekki liggja undir því að ekkert samráð sé um þann fund sem ætlaður er eftir helgina. Það er raunar ekki fyrr en rétt núna að við erum að fá í hendurnar þau drög sem ég ætla mér að sýna þeirri nefnd í dag í fullkomnum trúnaði og ég vona að menn geti svo rætt þetta innan sinna þingflokka.