Afstaða Íslands á fundi EFTA-landanna
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Í upphafi fagna ég því að þessar umræður skuli fara fram og einmitt að það skuli vera að ég vænti ótakmarkaður ræðutími og menn geti látið sínar skoðanir í ljós hver og einn og allir flokkar fengið nægilegt svigrúm til að ræða málið. Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að það getur verið viðkvæmt að ræða mál þessi á opnum vettvangi, en engu að síður er það nauðsynlegt. Það er líka rétt að svona mál á auðvitað lögum samkvæmt að ræða í utanrmn. Alþingis. Það hefur að vísu ekki verið gert nú, en hins vegar hefur hæstv. forsrh., eins og hann skýrði frá, boðað Evrópusamstarfsnefndina eða hvað hún á nú að heita til fundar síðar í dag. Þar eru nokkurn veginn sömu menn og í utanrmn. þannig að ég skal ekki gagnrýna þetta formsatriði út af fyrir sig. Það kemur nokkuð út á eitt. Þar verður fyrir luktum dyrum rætt um þessi mál og það þurfum við líka að gera eins og við höfum gert allar götur líklega síðan utanrmn. var stofnuð fyrir 60 árum. Þar voru málin alltaf rædd fyrir luktum dyrum vegna þess að Íslendingar kærðu sig ekkert um að t.d. Danir á þeim tíma vissu allt sem bjó í huga Íslendinga. Og í okkar landhelgissigrum höfum við unnið þá fyrir það að okkur hefur auðnast oftast að ná samstöðu um það mikilvægasta a.m.k. í hvert og eitt sinn.
    Nú er fyrir dyrum fundur í EFTA sem getið hefur verið um og er tilefni þessarar umræðu. Ég hygg að þessi fundur í EFTA geti kannski orðið einhver hinn merkasti í sögu þeirra samtaka sem vissulega hafa fyrir okkur Íslendinga verið til verulegra hagsbóta. Það er vegna þess að ef þessi fundur samþykkir fríverslun með fisk í EFTA verða EFTA-ríkin öll stuðningsaðilar okkar fyrst og fremst þegar við reynum að bæta okkar samninga við Evrópubandalagið og fá fulla fríverslun fyrir fisk.
    Það hefur verið furðulegt að Svíar skyldu lengi þvælast fyrir því að full fríverslun yrði innan EFTA. Kannski er það rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að við höfum ekki lagt nægilega mikið kapp á þetta vegna þess að við höfum eingöngu haft augun á því að við mundum ekki selja mikinn fisk til EFTA-landanna, en nú er sjónarmiðið allt annað og þá koma Finnar og eru eitthvað að þvælast fyrir að full fríverslun verði samþykkt, en það eru ekki Austurríkismenn eða Svisslendingar sem það gera. Þetta er ekki mikilvægt vegna þess að við mundum ekki selja mikinn fisk í EFTA-löndunum, þó nokkurn auðvitað, í Sviss og Austurríki sérstaklega, en það er mjög mikilvægt vegna þess að þegar EFTA í heild sinni mætir Evrópubandalaginu er fríverslun með fisk þar jafnofarlega á baugi og önnur fríverslun. Þess vegna er þessi fundur mjög mikilvægur og ég vil nota þetta tækifæri til að óska hæstv. forsrh. gæfu og gengis á þeim fundi og að honum verði að þeirri ósk sinni og okkar allra að fundurinn muni samþykkja algera fríverslun með fisk. Það er mjög mikilvægt.
    En hér blandast að sjálfsögðu inn í málefni um Evrópubandalagið og Evrópusamstarfið og ég ætla að leyfa mér að taka örlítinn þátt í þeirri umræðu.

    Þróunin er mjög ör. Þegar í fyrsta skipti var borin upp ósk eða boð um það að utanrmn. Alþingis kæmi á fund Evrópubandalagsins, sumarið 1986, hraus mér eiginlega hugur við því, íhaldssamur maður mjög eins og menn vita, og nefndin hafði aldrei farið til útlanda á nærri 60 ára tímabili. Þessi ósk var borin fram í glaðasólskini norður í landi af sjálfum Willy de Clercq og ég tók það eins og það var sagt, að það væri bara til að gleðjast þennan dag, en það vildi svo til að ég var þá formaður utanrmn. En um kvöldið í boði var þetta boð endurtekið og síðan varð það úr að utanrmn. í heild sinni fór til Strasbourg og Brussel í september 1987 og það vita allir þingmenn. Þar var okkur betur tekið satt að segja en ég átti von á og það var gífurlega fróðleg ferð eins og raunar sú ferð, sem var farin fyrir nokkrum vikum til Genfar og Brussel, líka var. Ég lagði hvað mest upp úr lokaræðunni sem flutt var í þessu ferðalagi utanrmn., sem var sjálfur de Clercq, og hann flutti þar ræðu sem var einstaklega vinsamleg okkur og meira að segja daginn eftir var okkur öllum afhent ræðan sem hann flutti nokkuð breytt og með burt numdum setningum og málsgreinum og inn í skrifað með handskrift mjög vinsamlega um að það sem Evrópubandalagið færi fram á við okkur væri ekkert annað en rabb um málin í heild, dialogue var það kallað. Mér vitanlega hefur engin krafa af neinu tagi síðan þá komið fram um að Íslendingar heimiluðu Evrópubandalaginu veiðiréttindi innan okkar fiskveiðitakmarka. Það kom mjög skýrt fram í Brussel þegar við ræddum við þann embættismann Evrópubandalagsins sem sérstaklega fer með Íslandsmál að aðspurð svaraði hún, það var reyndar kvenmaður, spurningu um hvort Evrópubandalagið mundi gera einhverjar kröfur til veiðiréttinda í íslenskri efnahagslögsögu að það gæti bandalagið ekki gert. Því væri fullljóst að Íslendingar ættu sína efnahagslögsögu og bandalagið gæti engar kröfur gert til veiða innan þeirra marka.
    Hins vegar höfum við alltaf svarað játandi að við vildum þessa umræðu, þessa umfjöllun, rabb eða hvernig menn vilja þýða orðið dialogue, þ.e. skiptast á skoðunum en ekki skipta um skoðun eins og menn eru farnir að tala alltaf um skoðanaskipti þannig að allir eigi að skipta um skoðun, en sem sagt að skiptast á skoðunum um málið. Því höfum við alltaf svarað játandi. Og við
eigum ekki að hafa neitt frumkvæði að því að í þeirri umræðu sé endilega verið að tala um að skiptast á fiskveiðiréttindum. Ef það kemur upp í þeirri umræðu hlýtur það að koma frá þeim. Það getur ekki verið frumkvæði af Íslands hálfu. Og það er enn þá fjarlægara nú að það komi til nokkurra mála að við Íslendingar förum að skipta á veiðiheimildum fyrir veiðiheimildir eins og það nú er orðað í blöðum þegar Kanadamenn hafa hætt því. Evrópubandalagið náði slíkum samningum við Kanada, að það fengi veiðiheimildir fyrir tollaívilnanir, og Kanadamenn hafa nú hætt þessu.
    Ég hef vitneskju um að a.m.k. sjávarútvegsmenn í

Noregi muni verða tregir til þess að láta Evrópubandalaginu í té einhverjar heimildir við Noregsstrendur til fiskveiða í framtíðinni. Ég hygg að svo muni ekki verða. Málið er ósköp einfaldlega það að við eigum þessi mið, Kanadamenn eiga sín mið, Norðmenn sín. Þetta er orðin æðilöng þróun og það eru mörg rök sem hníga að því að við munum aldrei geta látið nein og ekki vilja láta nein slík réttindi af hendi. Ég skal nefna hér nokkur: Við höfum söguleg réttindi í fyrsta lagi. Á fundum annarrar hafréttarráðstefnunnar, sem haldin var 1960, var flutt tillaga um sérréttindi þeirra þjóða sem mjög væru háðar fiskveiðum eða að megninu til háðar fiski og fiskvinnslu. Hún var að vísu ekki samþykkt, hún var felld, en hún varð til þess að við, með okkar atkvæði --- það munaði einu atkvæði --- felldum Kanadatillöguna um 6+6 sem menn hér inni þekkja. Hún féll á okkar atkvæði, góðu heilli því kannski væri hin almenna regla nú um landhelgi í veröldinni 12 mílur hefði það verið samþykkt á hafréttarráðstefnunni 1960. Það er sem sagt sögulegt að við höfum áskilið okkur algjör sérréttindi.
    Þessi málsgrein var tekin inn í hafréttarsáttmálann í upphafi og var þar í 11 ár án þess að nokkur hreyfði andmælum. Hún hét ,,íslenska ákvæðið`` í munni allra manna og hún hljóðar um þetta sama, að ríki sem eru mestmegnis háð fiskveiðum skuli ekki þurfa að hleypa neinum útlendingum inn í sína landhelgi, ekki undir neinum kringumstæðum. Enginn hreyfði andmælum við það. Þar erum við líka komin með lagaleg réttindi.
    Við getum bent á að það eru ekki aðeins Bretar, Þjóðverjar og einhverjir aðrir sem misstu mið við 200 mílurnar. Við misstum Nýfundnalandsmið, við misstum ýmis mið við Grænland o.s.frv. Við getum bent á það að Evrópubandalagið segist ætla að bæta hag manna með meiri hagræðingu, að það sé meiri tækni í atvinnuvegunum, að auðæfanna sé aflað með sem minnstum tilkostnaði. Hver getur veitt ódýrara á Íslandsmiðum en Íslendingar? Hver getur þess vegna selt á hagstæðasta verði? Og hver hefur betra hráefni en við? Höfum við eitthvað til þeirra að sækja? Ætli það verði ekki þeir sem þurfa að sækja til okkar um að fá fiskinn okkar? Besta fisk í heimi ef vandað er til vinnslu hans. Það fer ekkert á milli mála.
    Við höfum hér líka fjáröflunartolla sem ganga yfir vörur frá Evrópubandalaginu. Við getum samið um að lækka þá. Við höfum svo ótal margt um að semja. En það sem mest er um vert er að Evrópubandalagsmenn, ráðamenn þar, ekki þeir sem eru að tala um fiskveiðarnar, því ráðamenn þar tala ekkert um þær, þær eru svo litlar, 0,14% af heildarþjóðarframleiðslu ríkjanna --- 0,14%. Að æðstu menn Evrópubandalagsins séu með hugann við þetta! Aldeilis ekki. Það eru Portúgalar og Spánverjar, mennirnir sem hæstv. utanrrh. segist sérstaklega hafa talað við, sem eru nýkomnir inn í bandalagið. Valdalausir menn með öllu. Ráðamenn í Evrópubandalaginu vilja ekki að Ísland rekist vestur á við. Það er ég sannfærður um eftir þá fundi sem ég

hef verið á og þær viðræður sem ég hef átt við þá. Þeir vilja að Ísland fái að vera Evrópuþjóð áfram. Hvernig sem á því stendur. Þeir halda víst að við séum eitthvað voða gáfuð eða eitthvað svoleiðis eða hvort það eru sögurnar, eða hvað það nú er, þá er þetta bara staðreynd. Og það kostar þá svo lítið að leyfa okkur að vera Evrópuþjóð, kostar þá kannski nánast ekki neitt.
    Þessi sjónarmið öll gera það auðvitað að verkum að við eigum að vera mjög varkár í þessu samstarfi. Við eigum ekkert að vera endilega að heimta breytingar fyrr en þá þeirra er þörf. Ég veit að það er alltaf hætta ár frá ári um það hvaða tollar kynnu að lenda á saltfiski miðað við bókun 6 frá 1972. Hingað til hefur þetta verið sáralítið, sem betur fer. Við getum áreiðanlega náð fram með hægðinni breytingu í þessu efni en við eigum að forðast að nefna fiskveiðilandhelgi í því sambandi, forðast það eins og heitan eldinn núna. Í þessari umræðu sem við höfum alltaf fallist á kemur það kannski upp og þá auðvitað er allt í lagi að ræða það en við höfum ekkert að bjóða og þeir kannski ekki heldur þegar við erum að tala um að skipta á veiðiheimildum. Við getum ekkert skorast undan í almennum viðræðum en þá eiga þau ekki að vera við sjávarútvegsmennina í Efnahagsbandalaginu.
    Ef við kannski athugum það hvað mikið er um sjávarútvegsumræðu í Evrópubandalaginu, þá munu vera eitthvað á fjórtánda þúsund embættismenn orðnir í þessu bandalagi, starfsmenn í 20 deildum held ég. Hvað haldið þið að þeir séu margir í fiskveiðideildinni? Það er bara rétt eins og í sjútvrn. okkar. 60 stykki. Þannig að þó að fiskveiðar séu eitt og allt fyrir okkur þá
eru þær það ekki þar. ( Sjútvrh.: Er þetta ný talning?) Nei, þetta átti nú að vera brandari, ég veit ekki hvað þeir eru margir hjá þér en þeir eru 60 þarna úti. ( Sjútvrh.: Þeir eru 16.) Ég bið afsökunar á því. En það eru náttúrlega ýmsar stofnanir í kring, er það ekki, t.d. Hafrannsóknastofnun. En ég bið innilega afsökunar. Þetta átti ekki að vera tekið bókstaflega. Þeir eru 60 eftir þeim skýrslum sem við fengum í Genf og Brussel núna þegar við vorum á ferðinni.
    Allt þetta hnígur að því að við eigum auðvitað að fara með gát í þessum samskiptum. Ég treysti því að þeir sem verða á fundum þessa bandalags muni fara með gát og ég veit þeir munu gera það. Við eigum bara að ræða þetta hreinskilnislega en þó líka dálítið á bak við tjöldin í bæði Evrópusamstarfsnefndinni og í utanríkismálanefndinni sjálfri sem hefur raunar verið boðuð til fundar á mánudagsmorgun og þar verða þessi mál rædd.
    Ég þarf kannski ekki að fara öllu lengra út í þessa sálma. Ég held að menn viti hver mín skoðun er á því. Auðvitað erum við öll sammála um það að ganga sem lengst --- með heiðarlegum hætti að sjálfsögðu og þeim vopnum sem lög bjóða --- til þess að gæta hagsmuna þjóðarinnar í bráð og lengd, og þó einkum í lengd, ekki gleyma því, og þá koma náttúrlega umhverfismálin á dagskrána. Ég veit ekki hvað mikið

þau hafa verið rædd á Norðurlandaráðsþingi en þar eiga þó Norðurlöndin æðimikinn rétt sem þau hafa ekki tekið sér og EFTA-ríkin þar með. Það er t.d. allt hafsbotnssvæðið á milli Jan Mayen, 200 mílnanna, og Noregs, 200 mílna Svalbarða og Grænlands, allt suður til Færeyja, gífurlegt hafsvæði sem tilheyrir þessum þjóðum að réttum lögum, hafsbotnssvæðið. Það hafa verið tveir embættismannafundir um það með Norðmönnum og Dönum og allir staðfest að frumkvæði Íslendinga sé rétt, að lagaleg rök hnígi að því að þessar þrjár þjóðir geti helgað sér allt þetta svæði og þar með lokað hafinu frá Noregsströndum til Kanada og Grænlands. Embættismannafundur var fyrirhugaður núna fyrri part þessa árs, ég veit ekki hvort hann hefur verið boðaður, en þess er auðvitað vænst að Íslendingar haldi áfram þessu frumkvæði.
    Í annan stað eigum við rétt á Rockall-svæðinu sem líka varðar Skandinavíu og EFTA-ríkin þar með. Ef forsrh. vildi aðeins hlusta, þá gladdi það mitt hjarta mjög þegar forsrh. tók það mál sérstaklega upp við forsætisráðherra Breta í ferð sinni til Bretlands --- ég hygg að það hafi verið í nóvember --- og forsætisráðherra Breta óskaði eftir skriflegu bréfi og skýringum um þetta mál. Það bréf mun nú hafa verið sent, nokkuð seint að vísu, en sent þó. Ég veit að ef vel og fast er staðið að þessu máli, einmitt í gegnum EFTA og Norðurlöndin líka, þetta er sameiginlegt mál, þó það sé ekkert annað en umhverfismálin, að geta hindrað hvern sem er í að henda nokkru því í hafið sem sekkur til botns, strax. Og þegar tímar líða þá auðvitað auðæfin yfir botninum líka alveg eins og það gerðist með 200 mílurnar. Þær urðu til þannig að Truman Bandaríkjaforseti tók 200 mílna landgrunnsréttindi fyrir Bandaríkin árið 1945, hafið fyrir ofan að vísu nokkrum áratugum síðar, en það kom að sjálfsögðu. Ég man að ég á einhvers staðar í fórum mínum ritstjórnargrein úr New York Times sem sagði: ,,Sá sem á hafsbotninn hann hlýtur að eignast hafið fyrir ofan.``
    Það eru gífurleg réttindi sem eru í hendi ef þeim er fylgt eftir á þessum sviðum. Fyrir þessu höfum við Íslendingar barist nú í tíu ár í góðri samvinnu við nágranna okkar og fullu samstarfi. Þessi réttindi á að tryggja núna. Það á að ræða þau á næsta fundi. Það er ekki lítið EFTA-mál þar á ferðinni ef það tækist að friða allt þetta hafsvæði og þá auðvitað Eystrasalt í leiðinni. Ég er nú aldeilis hræddur um að Eystrasaltsþjóðirnar --- ef þær fá að ráða einhverju sem þær eru byrjaðar að ráða, góðu heilli, og vonandi verður það varanlega --- muni taka þátt í því að friða líka Eystrasaltið og hreinsa það. Og það að Finnar komist upp með það að neita um fríverslun í EFTA fyrir það að þeir veiði nokkra laxa og einhverja smásíld! Laxinn sem er búið að friða alls staðar núna. Norðmenn eru búnir að banna laxveiði í sjó hjá sér, það eru bara Færeyingar einir sem rányrkja hann á Norður-Atlantshafi. Grænlendingar veiða að vísu nokkurn lax en þeir hafa rétt til þess, sögulegan og hefðbundinn rétt. Samkvæmt hafréttarsáttmálanum hafa þeir rétt til að veiða nokkuð magn en Færeyingar

ekki.
    Allt þetta getum við gert og ég veit ekki hverjir mundu betur treysta hag allrar Evrópu en við með því að friða þessi höf. Og hvað ætti að vera meira kappsmál Norðurlandaráðs og EFTA og Evrópubandalagsins en einmitt þetta, að Íslendingar haldi þessari stefnu, tíu ára gamalli, samþykktri á Íslandi með mörgum, mörgum ályktunum, að fylgja henni nú fram til sigurs? Það er mjög auðvelt.