Verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða
Mánudaginn 13. mars 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til að lýsa stuðningi mínum við þessa till. sem 1. flm. hefur gert ágæta grein fyrir og er litlu við það að bæta. Það er mjög mikilvægt þegar verið er að undirbúa orkumannvirki sérstaklega, og þetta á að sjálfsögðu við öll önnur mannvirki, að tillit verði tekið til umhverfisáhrifa, hvaða áhrif þau muni hafa á umhverfið. Hingað til hefur allt of lítið tillit verið tekið til þessara þátta við skipulag, ekki bara orkumannvirkja, eins og ég sagði áðan, heldur almennt.
    Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að till. mun geta sparað mjög mikið fé vegna þess að nú þegar hefur verið varið og er enn verið að verja óhemju fé í rannsóknir sem ég er alveg viss um að vilji meiri hluta þjóðarinnar er ekki fyrir að leiði til neinnar niðurstöðu. Hver vill t.d. virkja Gullfoss eða Dettifoss? Ég held því að þessi tillaga sé svo sjálfsögð að við þurfum ekki að ræða lengi um hana hér í Alþingi og vona að hún fái skjótan framgang. Við verðum þó að gera okkur grein fyrir því að ef við ætlum Náttúruverndarráði að framkvæma þessa tillögu þurfum við e.t.v. að --- og ég tel að það sé fullvíst --- auka fjárveitingar til Náttúruverndarráðs. Ef þessi till. nær fram að ganga gerum við ráð fyrir því að auka verulega á þau verkefni sem Náttúruverndarráði eru falin.
    Í tengslum við fjárlög hafa þingmenn Kvennalistans lagt til auknar fjárveitingar til Náttúruverndarráðs þó að við höfum ekki gert ráð fyrir að bæta þar við nýjum verkefnum. Og það sama gildir um flm. þessarar till. Ekki alls fyrir löngu talaði hæstv. menntmrh. um það í tengslum við tillögu Kvennalistans um umhverfisráðuneyti að ef einhver árangur ætti að nást varðandi náttúruvernd yrði að verja til þess auknum peningum. Það eru því flestallir, vonandi allir, sem gera sér grein fyrir því að ef við ætlum að gera eitthvað verulegt varðandi umhverfismál og náttúruvernd þurfum við að verja auknum fjármunum til þessa málaflokks. Að öðru leyti endurtek ég stuðning minn við þessa till. og vona að hún nái fram að ganga hér á þessu þingi.