Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé engin tilviljun að á þessu þingi höfum við haft til umfjöllunar mjög mörg frumvörp varðandi banka- og peningamál. Er það í samræmi við það sem er að gerast í nágrenninu í kringum okkur, reyndar um allan heim, að það eiga sér stað þessi missirin mjög miklar breytingar á peninga- og bankaviðskiptum þjóða á meðal. Hv. 8. þm. Reykv. lýsti þessari þróun ágætlega í ræðu sinni áðan og get ég tekið undir margt það sem hann sagði. Er raunar óþarfi að fjölyrða svo mjög um hana, en sú spurning vaknar í mínum huga hvort mörg þeirra frumvarpa þar sem er verið að gera smábreytingar á lögum um viðskiptabanka séu ekki meira eða minna óþörf, hvort það væri ekki nær að taka höndum saman og endurskoða bankalöggjöfina alveg frá grunni með hliðsjón af því sem er að gerast í kringum okkur og reyna á þann hátt að mæta þeim breytingum sem eiga sér stað í heiminum öllum. Ég held að við komumst ekkert hjá því að vera þátttakendur í þessari þróun. Það er algerlega útilokað að Íslendingar geti einangrað sig norður í Atlantshafinu og ætli að standa einir sér fyrir utan þennan alþjóðlega fjármagnsheim. Það kemur einfaldlega til með að koma niður á samkeppnisgetu fyrirtækja okkar ef þau eiga að búa við þann takmarkaða og einangraða fjármagnsmarkað sem við höfum yfir að ráða eins og nú stendur. Þess vegna held ég að það sé orðið mjög brýnt að taka banka- og viðskiptalöggjöf okkar til endurskoðunar frá grunni. Þá vaknar spurningin hvort það sé ekki óþarfaverk, sem við erum að vinna, að gera þær ótal smábreytingar á þessum lögum sem aragrúi frumvarpa um peninga- og bankamál sem liggja fyrir hinu háa Alþingi bera með sér.
    Reyndar átti ég þess tækifæri að ræða við einn af hæfari hagfræðingum og bankamönnum hérlendis um hvað væri að í bankakerfi okkar, en það er eitt sem mjög hefur verið tíðrætt manna á meðal, t.d. má nefna hinn háa vaxtamun sem er í bankakerfinu. Meðan vaxtamunur í öðrum löndum er kannski í kringum 1% mun hann vera í kringum 8% á Íslandi. Við vorum sammála um eftirtalin fimm atriði sem ef til vill gátu skýrt þetta að einhverju leyti.
    Hér ríkir hálfbrjáluð hávaxtasamkeppni um veltiinnlán sem er aldeilis furðulegt. Bankarnir slást um að fá viðskiptavini í veltiinnlán og greiða háa vexti, yfirbjóða hver annan í því að bjóða háa vexti á veltiinnlánareikningum á meðan bankar erlendis eru kannski með vaxtastig í kringum 1% á slíkum reikningum. Víða tíðkast að menn verða að borga með sér fyrir að fá að stofna veltiinnlánsreikninga í bönkum. Ég minnist þess sjálfur að þegar ég stundaði atvinnu í Danmörku stóð mér til boða að vera með tvenns konar tékkareikninga. Það var í fyrsta lagi almennur tékkareikningur án nokkurra skilyrða. Innlánsvextir á honum voru 1%, en ef tékkareikningurinn var með þeim skilyrðum að aðeins mátti gefa út fimm ávísanir mest á mánuði voru vextirnir 5%. Bankarnir hér reka þessa þjónustu hins vegar efalaust með miklum kostnaði og velta honum

yfir á lántakendur með okurvöxtum á útlánum.
    Mikil vanskil í bankakerfinu sem eru bein afleiðing þess okurvaxtakerfis sem við búum við þýðir að það er mikið um tapaðar skuldir í bankakerfinu. Þetta veldur líka kostnaði hjá bönkunum sem aftur er velt yfir á vextina til útlána.
    Svo er eitt sem er aldeilis furðulegt. Ég hef hvergi nokkurs staðar þar sem ég hef komið erlendis séð aðrar eins auglýsingar í fjölmiðlum eins og bankakerfið hér tíðkar þessa stundina. Hér dynja yfir almenningi á hverju einasta kvöldi í sjónvarpi og í útvarpi auglýsingar frá bönkum þar sem þeir eru að keppast um þessa fáu viðskiptavini sem hér eru.
    Svo er eitt atriði enn sem er rétt að nefna og það er gíróseðlaþjónustan. Í nágrannalöndunum fara gíróreikningar og gíróinnborganir að langmestu leyti fram í gegnum pósthús en ekki í gegnum banka og sparisjóði. Það er ekki nokkur vafi á því að þessi þjónusta sem bankarnir hafa algerlega tekið að sér hér á Íslandi er mjög dýr og hún kostar miklu, miklu meira en sá kostnaður sem gíróseðlarnir eru látnir bera með sér nemur. Auðvitað er þessum kostnaði velt á lántakendur. Þetta aftur er hluti af hinum háa vaxtamismun.
    Í fimmta lagi mætti tala um lélegan rekstur.
    Ég held að það sé ekki rétt að vera að tíunda svo mjög þau frumvörp til laga um breytingu á bankalögum sem hér hafa verið á dagskrá því að þó að það sé margt slæmt um þau að segja held ég að það eigi ekki við um það frv. sem hér er til umræðu. Ég held að ég geti tekið undir það með hv. 8. þm. Reykv. að hér er um gott mál að ræða og er ánægjulegt að það skuli hafa náðst sú samstaða að allir standa einhuga að því að þetta frv. verði að lögum og að við getum skapað heppilegt rekstrarumhverfi fyrir þessa nýju starfsemi á fjármagnsmarkaðnum, þ.e. verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.
    Í þeirri umfjöllun sem málið fékk í hv. fjh.- og viðskn. komu nokkur atriði til umræðu sem urðu svolítið vafamál, a.m.k. í mínum huga. Þar vil ég sérstaklega taka á einu máli, en það er spurningin um hvort það sé nauðsynlegt að vera með sjálfstæð fyrirtæki, sérstaklega þegar um er að ræða viðskiptabanka eða sparisjóði. Það er einfaldlega spurningin um hvort viðskiptabankarnir eða sparisjóðirnir megi ekki reka verðbréfasjóði og verðbréfafyrirtæki án þess að þurfa að stofna sérstök fyrirtæki utan um þá
starfsemi. Við höfum mikið velt þessu fyrir okkur og vöknuðu ýmsar spurningar út af þessu atriði. Hvernig er t.d. með útibú viðskiptabankanna og sparisjóðanna úti á landi? Hvernig mun þeim reiða af? Geta útibúin stundað þessa starfsemi? Það leikur nokkur vafi á hvort þau muni eiga hægt með að stofna slík sjálfstæð fyrirtæki. En auðvitað getur vel verið að það nægi að höfuðbankarnir í Reykjavík geti stofnað slíkt fyrirtæki og þá fái útibúin sjálfkrafa möguleika á að vera með þessa þjónustu sem útibú frá því fyrirtæki. Ég vildi mjög gjarnan heyra skoðun hæstv. viðskrh. á þessu

atriði sérstaklega og heyra álit hans á því hvort það sé nokkur hætta á því að þetta komi til með að valda útibúum, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, nokkrum vandræðum.
    Að öðru leyti vil ég taka undir það sem hér hefur verið sagt og ég fagna því að þetta frv. er nú að verða að lögum og þeirri samstöðu sem við höfum náð um það því að ég held að það sé orðið mjög brýnt að það sé settur skynsamlegur lagarammi um þessa starfsemi sem á eftir að fara mjög vaxandi á næstu árum.