Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil sem meðflm. að frv. sem er til umræðu þakka kærlega fyrir það sem hér hefur verið rætt um. Það er greinilegt að frv. um virðisaukaskatt kemur inn á marga þætti og þar á meðal um hvað er að gerast núna í kjaramálum, enda er alveg ljóst að lækkun á verði matvæla hlýtur að hafa mjög veruleg áhrif á það hvernig kjarasamningar takast ef ríkisstjórnin ákveður slíkt.
    Það er einmitt kjarni þessa máls að ef það eiga að nást viðunandi kjarasamningar fyrir þjóðfélagið og þá stöðu sem nú er í þjóðfélaginu þarf ríkisvaldið einhvers staðar að koma inn í. Það er alveg ljóst að með lækkun matvöru með þeim hætti getum við tryggt afkomu þeirra lægst launuðu en ekki með beinum kjarasamningum eins og hv. 3. þm. Vestf. kom réttilega inn á. Þetta hefur mistekist í gegnum árin. Þó svo verkalýðshreyfingin hafi reynt að hækka lægstu laun hefur prósentuhækkunin gengið upp alla launastiga. Það verður að leita einhverra nýrra leiða og ein leið er sú sem við bendum á hér, þingmenn Borgfl., að draga úr kostnaði heimilanna. Það er alveg ljóst að hlutfallslega fara miklu meiri tekjur verkafólks til öflunar matvæla en hjá hinum launahærri og með því að lækka verð matvæla komum við til móts við þá lægra settu.
    Það er mjög athyglisverð sú umræða sem nú hefur farið fram um launamál og sú ræða sem hv. 3. þm. Vestf. flutti áðan þegar hann fór að skýra nauðsyn þess að ganga inn í samninga með lagaboði. Þetta er einn af forustumönnum í verkalýðshreyfingunni. Ríkisvaldið treystir sem sé ekki verkalýðshreyfingunni til þess að gera samninga. Ég held að það ætti að vera íhugunarefni fyrir hv. 3. þm. Vestf. að gera þá í framtíðinni raunhæfari samninga en gerðir hafa verið þannig að verkalýðshreyfingin eigi ekki á hættu að ríkisvaldið grípi inn í samninga.
    Ég get vel tekið undir það, sem hv. þm. sagði, að viss nauðsyn hafi verið á því að gera ráðstafanir. En ég hef ekki þá trú að það sem gert var hafi verið það eina rétta.
    Hv. 3. þm. Vestf. gerði þá athugasemd þegar ég greip fram í hans ræðu að ég væri ungur, en ég get fullvissað hann um að það lagast með árunum. En það verður ekki sagt um margt annað.
    Þetta vildi ég að kæmi fram. Ég held að stærsta kjarabót launþega í dag væri einmitt sú að lækka söluskattinn, lækka verð matvæla. Þá kæmi það öllum til góða og sérstaklega, eins og ég sagði áðan, þeim lægst launuðu.