Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Það má segja um hv. 4. þm. Vesturl. að hann er kjarkmikill maður. Ef hann telur að það hafi verið fyrst og fremst ástæða hjá Alþfl. og Framsfl. að knésetja Alþb. að því er varðar kjaramálin er það mesti misskilningur því að þó að þeir hefðu gert það, hv. þm. Alþb., hefðu þeir ekki komist neitt í líkingu við það sem þeir gerðu þegar þeir fóru 14 sinnum inn í samningsréttinn á einu ári. Það eru þau spor sem liggja eftir þá hv. þm. að því er varðar kjaramálin auk annarra hluta. Ekki meira um það.
    Hv. 11. þm. Reykv. Guðmundur Ágústsson. Ég held að ég hafi ekki orðað það svo að það væri nauðsynlegt að skerða samninga. Hafi ég sagt það hef ég ekki meint það a.m.k. En ég held að ég hafi ekki sagt það. ( GuðmÁ: Grípa inn í.) Já, grípa inn í samninga. Það þýðir ekki sama og að skerða. Það veit ég að lögfræðingnum er ljóst í tungutakinu að það er tvennt ólíkt að skerða eða grípa inn í. ( GuðmÁ: Það skiptir ekki máli fyrir launþegana.) Það skiptir auðvitað meginmáli, hv. þm., hvort menn eru að skerða beinlínis í þeirri merkingu sem það orð er notað eða hvort menn eru að grípa inn í, kannski í öfugri merkingu, ekki skerðingu. (Gripið fram í.) Já, til að auka það. Það eru gerólík hugtök. Svona mega ekki ungir menn, þó þeir eldist að árum, tala.
    Ég held að ég hafi sagt það í haust að það þarf oft að gera fleira en gott þykir. --- Það þýðir ekki, hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, að hrista höfuðið. Þeir sem eru í félagsmálum, þeir sem eru í stjórnmálum geta aldrei vikið sér undan því að gera einhvern tíma fleira en gott þykir og þeir vildu helst gera sjálfir. Það er gangurinn í lífinu. Þú ert ekki einráð, hv. þm., í lífinu. Það verður oft að taka tillit til ýmissa annarra hluta og þátta sem eru að gerast í kringum mann. (Gripið fram í.) Já, það er einmitt það sem verið er að gera.
    Út af ummælum hv. þm. Guðmundar Ágústssonar að verkalýðshreyfingunni væri ekki treyst fyrir samningum. Um það geta menn haft misjafnar skoðanir fyrir hverju verkalýðshreyfingunni er treyst. Ég get alveg tekið undir að stjórnvöld, og þá tala ég langt aftur í tímann, margar ríkisstjórnir, hafa með inngripum í kjaramál og samninga rúið traust innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar er ekki við verkalýðshreyfinguna sem slíka að sakast. Þar er miklu frekar um að ræða stjórnmálamennina, þá sem með völdin fara á hverjum tíma. Það eru þeir sem hafa hagað málum á þann veg að fólk innan verkalýðshreyfingarinnar er farið að líta svo á að það sé tilgangslaust að gera samninga innan hreyfingarinnar því að Alþingi eða stjórnvöld grípi inn í og breyti því með pennastriki. Það er þetta sem er kannski mesti skaðvaldurinn innan launþegahreyfingarinnar, þessi inngrip stjórnvalda í gerða samninga, og svo hitt að það þarf gerbreytingu á hugarfari til þessara mála.