Ríkisreikningur 1987
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Ég skal ekki vera langorð um þetta mál, en ég vildi gera örstutta grein fyrir afstöðu minni. Við afgreiddum þetta frv. samhljóða frá nefndinni og um það urðu svo sem litlar umræður þar, enda ýmislegt búið að fjalla um þessi mál að undanförnu, reyndar kannski óvenjumikið og er það vel því að sannarlega er nauðsynlegt að ræða og reyna að bæta rekstur ríkisbúsins. Því ber svo sannarlega að fagna enn einu sinni að nú er breytt fyrirkomulag á ríkisendurskoðun og þess sér þegar stað í umfjöllun um þetta mál.
    Það er margt umhugsunarvert sem kemur fram í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1987 sem kom út í desember sl. og vonandi leiða ýmsar athugasemdir sem þar koma fram til bættra vinnubragða við undirbúning og framkvæmd fjárlaga. Ég vil nota þetta tækifæri til að vitna lítillega í þessa merku skýrslu þar sem er einmitt tekið á málum sem við þingmenn höfum oft gert athugasemdir við þegar fjárlög hafa verið til afgreiðslu. Ég vitna hér, með leyfi hæstv. forseta, í skýrslu yfirskoðunarmanna þar sem segir:
    ,,Í sumum þeirra tilfella þar sem umframútgjöld eru veruleg er auðsætt að fjárveitingar á fjárlögum hafa verið óraunhæfar miðað við þá starfsemi eða þjónustu sem fjárveitingavaldið hefur sjálft ætlað viðkomandi stofnun að inna af hendi. Gerðar hafa verið leiðréttingar hjá ýmsum stofnunum að þessu leyti til á undanförnum árum samhliða umbótum í fjárlagagerðinni sjálfri. Engu að síður er ljóst að fjárveitingavaldið hefur ekki enn horfst í augu við raunverulegt umfang í starfsemi hjá öllum stofnunum ríkisins og þann kostnað sem hún hefur í för með sér. Á því verður að ráða bót í fjárlagagerðinni með nákvæmari samsvörun milli ráðgerðs þjónustustigs, áætlaðs kostnaðar og sértekna í stað þess að leiðrétta slíkt ósamræmi eftir á með aukafjárveitingum og fjáraukalögum. Eðlilegt er að fram fari stöðugt endurmat á tilgangi og hlutverki einstakra ríkisstofnana í ljósi breyttra aðstæðna og kannað sé hvort draga megi úr starfsemi, sameina stofnanir eða leggja niður. Slíku endurmati má hins vegar ekki rugla saman við nauðsyn þess að veita eðlilegu fjármagni til starfsemi sem Alþingi hefur falið ríkisstofnunum að annast.
    Raunhæfar fjárveitingar ásamt aðhaldi og traustu eftirliti eru forsenda bættrar fjármálastjórnar hjá hinu opinbera og aukins sjálfsforræðis einstakra stofnana. Á hinn bóginn er líka eðlilegt að gerð sé sú krafa til Alþingis að það samþykki ekki lög um starfsemi eða þjónustu sem það ekki treystir sér til að fjármagna.
    En þótt sums staðar sé brestur í áætlanagerð fjárlaga er eigi að síður sýnt að víða skortir á nægilegt aðhald í rekstri stofnana jafnvel þótt forstöðumenn þeirra telji sig hafa fengið heimildir frá réttum aðilum til að ráðstafa fjármagni umfram fjárlög.``
    Síðan eru nefnd nokkur atriði, t.d. að stjórn á vinnuaflsnotkun sé víða ábótavant, mannahald sé víða

umfram heimildir og óeðlilega mikil yfirvinna. Það eru nefnd dæmi um furðumikla yfirvinnu, um eða yfir 1600 yfirvinnustundir á árinu. Nefnd eru dæmi um óeðlilegan viðhaldskostnað bifreiða og fleira af því tagi sem reyndar hefur verið rækilega tíundað í fjölmiðlum og skal undir það tekið að öll þau atriði þarfnast rækilegrar athugunar og úrbóta. Benda má á athugasemdir Ríkisendurskoðunar í sinni skýrslu við einstaka liði í ríkisreikningnum sem vonandi verða mönnum að kenningu því að þær eru flestar réttmætar.
    Þá vil ég sérstaklega taka undir það sem segir í III. kafla skýrslunnar um meðferð aukafjárveitinga, afgreiðslu fjáraukalaga og notkun heimilda í 6. gr. fjárlaga sem kvennalistakonur hafa einmitt æ ofan í æ gert að umtalsefni við afgreiðslu fjárlaga. Og ég vil vitna í örfá orð í skýrslunni þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Að því er veitingu aukafjárheimilda varðar er ljóst að mjög skortir skýrar reglur um það efni sem tryggi jafnt eðlileg áhrif og eftirlit fjárveitingavaldsins og svigrúm framkvæmdarvaldshafa til að mæta breyttum aðstæðum á fjárlagaárinu. Óviðunandi er fyrir Alþingi sem fjárveitingavald að unnt sé t.d. að taka ákvarðanir um nýja starfsemi á vegum hins opinbera eða um sérstök framlög úr ríkissjóði án aðildar þess eða atbeina. Rétt er þó að hafa í huga að óhjákvæmilegt er fyrir fjmrh. að hafa visst svigrúm til að mæta ófyrirséðum útgjöldum, t.d. vegna launa- og verðlagsbreytinga.
    Yfirskoðunarmenn telja eðlilegt og í samræmi við aðrar umbætur síðustu ára í meðferð ríkisfjármála og við endurskoðun ríkisútgjalda að Alþingi setji í lög skýrar reglur um afgreiðslu aukafjárveitinga innan fjárlagaársins. Í þessu sambandi kemur einnig til álita að flýta framlagningu frv. til fjáraukalaga á ári hverju þannig að það verði jafnan lagt fram í upphafi hvers árs vegna þeirra umframútgjalda ársins á undan sem Alþingi hafði ekki sjálft heimilað. Endurskoðaður ríkisreikningur kæmi síðan til samþykktar Alþingis á haustþingi og hugsanlega önnur fjáraukalög ef endurskoðun leiddi í ljós að þeirra gerðist þörf.``
    Þessu er ég ákaflega sammála og þess má geta að þegar hafa komið fram frv.
hér í deildinni sem taka á þessum atriðum og er 1. flm. þeirra einmitt einn þeirra yfirskoðunarmanna sem undir þessa skýrslu skrifa, þ.e. hv. 17. þm. Reykv., Geir H. Haarde, en undir hana skrifa einnig Jóhanna Eyjólfsdóttir sem er reyndar fulltrúi Kvennalistans í þessu starfi og Sveinn G. Hálfdánarson.
    Að lokum vildi ég lesa hér upp örfá orð, með leyfi forseta:
    ,,Yfirskoðunarmenn leggja jafnframt til að mjög verði þrengdar þær heimildir til lántöku og útgjalda sem fjmrh. eru veittar með 6. gr. fjárlaga. Þar eru gjarnan á ferðinni opnar heimildir til umfangsmikilla fjármálaráðstafana og eignakaupa fyrir opinbera aðila. Slíkar opnar heimildir samrýmast ekki kröfum um nútímaleg vinnubrögð í ríkisfjármálum og við útgjaldaeftirlit. Eðlilegast virðist í þessu sambandi að veita sérstökum fjármunum beint til þeirra ráðstafana

sem um ræðir í hvert sinn eða ákveða hámark þeirrar fjárhæðar sem ráðstafa má samkvæmt hverri heimild fyrir sig.``
    Við þessi atriði höfum við einmitt margsinnis gert athugasemdir þegar fjárlög hafa verið til umræðu og afgreiðslu og hér eru að mínu mati sannarlega réttmætar ábendingar af hálfu yfirskoðunarmanna.
    Þetta voru sem sagt tilvitnanir í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkireiknings, en síðan er skýrsla Ríkisendurskoðunar sem er hin fróðlegasta lesning og aðgengilegri en margt annað sem berst á okkar borð. Það er ekki tími til þess að fara nákvæmlega í hana þótt vert væri en þar eru, eins og ég sagði áðan, athugasemdir við nánast hvern lið, athugasemdir af taginu ,,Ríkisendurskoðun telur að úr þessu þurfi að bæta``, ,,Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að raunhæf áætlun sé gerð við rekstur þessa og þessa``, ,,Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að stofnanir fari eftir lögum um byggingarframkvæmdir`` o.s.frv. o.s.frv., athugasemdir og ábendingar við nánast hvern lið og ekki vanþörf á.
    Þá vil ég vitna sérstaklega til athugasemda á bls. 32 í skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi flugstöðina á Keflavíkurflugvelli sem mjög var til umræðu hér á síðasta þingi og reyndar oft áður, en sérstaklega veltu menn þá fyrir sér spurningum um ábyrgð í því sambandi, vangaveltur sem svo sem ekkert virðast hafa leitt til úrbóta, því miður, eða þess sér a.m.k. ekki stað, það ég best veit, en ég vitna hér, með leyfi forseta:
    ,,Á árinu 1987 gerði Ríkisendurskoðun skýrslu um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Helstu niðurstöður voru að framreiknaður framkvæmdakostnaður, miðað við fullgerða flugstöð, yrði um 871 millj. kr. umfram framreiknaða áætlun. Miðað var við verðlag í september 1987.
    Ríkisendurskoðun telur að af þessu máli megi draga ýmsar ályktanir í sambandi við meiri háttar opinberar framkvæmdir, m.a. eftirfarandi:
    1. Vanda ber til við undirbúning framkvæmda. Einkum verður fyrir að liggja góð skilgreining á verkefninu og væntanlegum gangi þess.
    2. Vanda ber til áætlanagerðar, einkum samræmdra framkvæmda og fjárhagsáætlana. Framkvæma skal stöðuga endurskoðun meðan á verkefni stendur og tryggja upplýsingagjöf til réttra aðila.
    3. Vanda ber til vinnubragða við gerð fjárlagatillagna og fjárlagagerðar.
    4. Varast skal breytingar á verktíma og áður en ákvörðun er tekin um breytingu frá samþykktri áætlun og/eða hönnun skal athuga svo sem unnt er hvaða afleiðingar breytingin hefur.
    Ríkisendurskoðun vill vekja sérstaka athygli á því að athugasemdum vegna ársins 1986 hefur enn þá ekki verið svarað þrátt fyrir margítrekuð tilmæli þar að lútandi. Einnig er á það bent að úrskurði Ríkisendurskoðunar vegna ársins 1985 hefur ekki að öllu leyti verið fullnægt. Ríkisendurskoðun telur slíkt með öllu óviðunandi.``
    Athugasemdin er ekki lengri en hér er hvergi

ofsagt og ég ætla nú ekki að eyða áhrifum þessarar tilvitnunar með fleiri slíkum, en þetta mætti vera okkur til áminningar. Við ræddum þessar framkvæmdir og skýrslu um þær mjög ítarlega hér á Alþingi í fyrra og menn höfðu uppi mörg orð og fögur um það að láta sér þetta að kenningu verða. Hér kemur hins vegar fram að Ríkisendurskoðun er alls ekki ánægð með viðbrögð framkvæmdarvaldsins og væri ástæða til þess að heyra, úr því að hæstv. fjmrh. er kominn aftur heim til þessa lands, hans viðbrögð og hvort ekki er meiningin að hafa þessa skýrslu til hliðsjónar og taka verulega mark á athugasemdum Ríkisendurskoðunar við undirbúning og framkvæmd næstu fjárlaga.
    Ég hef þá þessi orð ekki lengri, virðulegi forseti, en læt enn einu sinni í ljósi þá von mína að framkvæmdarvaldið taki sig á og sýni meiri ábyrgð við samningu og framkvæmd fjárlaga en verið hefur.