Jöfnun á námskostnaði
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er ástæða til þess að fagna framkomnu frv. og vona að það hljóti eins góðan byr hér og það hlaut í Ed.
    Þó að þarna sé að vísu ekki að finna neinar grundvallarbreytingar á framkvæmd mála þá er vissulega til bóta að svo mikilvægt mál eigi sér stoð í lögum því að þetta er vissulega mikið réttlætismál, bæði sem byggðamál og eins getur þetta skipt sköpum ef fjárhagur foreldra eða nemenda er bágur.
    Það er auðvitað mikill kostnaður sem fylgir því að stunda nám fjarri heimili og er þá í eðli sínu mismunun í því fólgin ef ekki kemur til aðstoð opinberra aðila. Þó er ástæða til að minna hér á að í 2. gr. frv. þessa er kveðið á um að þetta eigi við um nemendur sem stunda reglubundið framhaldsnám hér á landi. Nú er það svo að ýmsar ástæður geta valdið því að fólk hætti í skóla eða detti út úr skóla og vilji síðan taka upp þráðinn að nýju seinna og á þá e.t.v. eftir að ljúka grunnskólanámi og væri vissulega til bóta ef inn kæmi ákvæði sem heimilaði sams konar fyrirgreiðslu til nemenda sem náð hafa 16 ára aldri þannig að þeir gætu notið þessarar aðstoðar þó þeir væru enn í grunnskólanámi. Það er mjög mikilvægt fyrir hvern einstakling og þjóðina í heild að menntun sem flestra sé sem mest og best og því ástæða til þess að auðvelda fólki sem af einhverjum orsökum dettur út úr skóla að taka þráðinn upp aftur.
    Varðandi b-liðinn í 3. gr., þá er það vissulega breyting því að hingað til hefur það verið svo að nemendur hafa sjálfir þurft að greiða launakostnað starfsfólks í mötuneytum og hafa þar ekki deilt kjörum með kennurum sínum sem hafa notið þeirrar fyrirgreiðslu að þurfa ekki að taka þátt í þessum launakostnaði. Í því sambandi má minna á að á sl. þingi flutti hv. þingkona Danfríður Skarphéðinsdóttir ásamt fleirum þáltill. um einmitt þetta atriði, að hið opinbera tæki þátt í launakostnaði eða tæki að sér að greiða launakostnað starfsfólks í mötuneytum.
    C-liðurinn í 3. gr. tekur á húsnæðisstyrkjum sem eru veittir nemendum sem ekki eiga kost á heimavist. Einmitt varðandi þetta ákvæði skjóta strax upp kollinum efasemdir um framkvæmd þessa frv. Í útreikningum um kostnaðarmat vegna þessa frv. sem kemur frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, þar sem tekið er á áætluðum húsnæðiskostnaði er reiknað með að hann sé að meðaltali 5397 kr. á mánuði. Nú vill svo til að leiga sem borguð er á stúdentagarði við Háskóla Íslands er 8800 kr. á mánuði og má ætla að ekki sé ódýrara að búa utan heimavistar en innan. Húsnæðisstyrkjum er ætlað að koma að hálfu til móts við húsnæðiskostnað nemenda og ef maður reiknar t.d. þetta dæmi áfram þá er munurinn um 3400 kr. á mánuði. Og ef slíkt tilfelli kæmi upp þá væri styrkurinn vanreiknaður um 1700 kr. á mánuði, þ.e. 15.300 kr. á ári, og margan munar nú um minna.
    Í d-lið 3. gr. er ákvæði um sérstaka styrki til efnalítilla nemenda og í því samhengi er aftur endir 5. gr. um að heimilt sé að skerða ýmsa styrki ef tekjur fara umfram ákveðið mark, þannig að þetta tekur

svona á sitt hvorum enda þess máls.
    En þá er nú ástæða til þess að minna á gamlar og sérstaklega nýjar upplýsingar um launavinnu nemenda. Nýjustu upplýsingar gefa til kynna að hún geti verið allt að 30--40 klukkustundir á viku umfram vinnutíma nemenda í skóla. Þá er nú vinnuvika nemenda komin talsvert yfir meðalvinnutíma í landinu og slagar hátt upp í vinnutíma útivinnandi húsmæðra og er þá langt jafnað. Það er alvarlegt umhugsunarefni hvað veldur þessari þrælkun. Er það sú neysluhyggja sem haldið er að öllum þegnum þjóðfélagsins og hefur borið svona góðan árangur í uppeldi barna og unglinga að þeir sjá sér ekki fært að vera án alls þess munaðar sem þjóðfélagið hefur upp á að bjóða og skilar sér með svona áhrifaríkum hætti eða er fjárhagur margra nemenda svona bágur? Þetta þarf vissulega að athuga nánar og afla upplýsinga um þetta sem byggja má á og bregðast síðan við á viðeigandi hátt. Við getum ekki látið það óátalið að verið sé að reka hér menntastofnanir með ærnum tilkostnaði ef þeir nemendur sem þar stunda nám geta ekki stundað það sem skyldi vegna vinnu, hvort sem það er af ofneysluástæðum eða af fjárhagsástæðum einum.
    Ég verð þá aftur að minna á þáltill. sem hv. þingkona Kristín Halldórsdóttir flutti hér á síðasta þingi en hún tók einmitt á þessum málum. Þar var lagt til að gerð yrði sérstök könnun á umfangi og orsökum launavinnu nemenda. Við hljótum að vilja standa vel að menntun æskulýðsins og ástunda jafnrétti til náms og að gæðakröfur séu miklar, bæði á hendur skólakerfinu og nemendum. Samfélaginu í heild er nauðsyn á vel menntuðu fólki ef vel á til að takast og einstaklingar eiga rétt á því sama sjálfum sér til heila. Lítið verður hins vegar um góðan ásetning ef nemendur eru svo uppteknir við annað en nám að það fari fyrir ofan garð og neðan hjá þeim. Einnig er það bæði sorglegt og skaðlegt ef ungt fólk getur ekki stundað félagslíf og áhugamál, treyst vinabönd og í stuttu máli notið þess að vera ungt, leitandi og njótandi.
    Þó að þetta vandamál sem ég geri að umræðuefni hér sé nú ekki nema að hluta til viðfangsefni þessa umrædda frv. er ástæða til þess að minna á að við þessu vandamáli verður að bregðast. Ég vil þá bara ítreka ánægju með framkomið frv. en minna aftur á að framkvæmd verður að vera raunhæf og í samræmi við veruleika nemenda ef það á að ná tilætluðum árangri.