Tónmenntakennsla í grunnskólum
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem þátt tóku í umræðunni og veittu þessu máli sinn stuðning.
    Hv. 10. þm. Reykv. nefndi einmitt námsskrá og innihald náms og hvernig að því væri staðið. Fyrir nokkrum árum var ráðinn við menntmrn. námsstjóri til þess að sjá um málefni tónlistarskóla. Hann starfaði þá í menntmrn. við hlið námsstjóra tónmenntakennslu í grunnskóla. Það er mála sannast að árangur af þessu starfi hafi skilað sér mjög vel úti um allt land því að þá var námið skipulagt, sett námsskrá, gæðakröfur settar fram um árangur og um menntun kennara og hvaða kröfur skyldi gera til þeirra o.s.frv. Það hljóp mikill fjörkippur í tónlistarskóla, nemendum fjölgaði og árangur lét ekki á sér standa. Ég held að þann almenna áhuga sem við búum við núna í tónlist á Íslandi megi m.a. rekja til starfs þessa eina námsstjóra. Svo miklum árangri skilaði einmitt samræming og skipulagning á þessu námi. Árangurinn sést út um allt land í betri, fleiri og stærri tónlistarskólum, öflugra tónlistarlífi um hinar dreifðu byggðir og öflugra tónlistarlífi hér í Reykjavík. Samhengi þarna í milli held ég að sé öllum ljóst sem hafa eitthvað kynnt sér þetta.
    En því miður brá svo við að það var ákveðið innan skamms að nú skyldi spara og þá var starf þessa námsstjóra lagt af við heldur lítinn fögnuð allra þeirra sem höfðu notið góðs af störfum þessa manns. Er vonandi að það verði eitt af því sem leiðir af endurskipulagningu að aftur verði komið upp einhverri samræmdri stjórn, jafnvel þó að svo muni nú verða að tónlistarskólar fari til sveitarfélaganna að eftir sem áður verði framkvæmd námsins og tilhögun í höndum menntmrn. og þar verði settar reglur um hvaða kröfur beri að uppfylla í þessum skólum.