Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða um sameiningu Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins eða tillögu sem gengur í þá átt. Ég efast um að þetta sé rétta leiðin í þessum málum. Það er margt óunnið í skipulagi og dreifingu raforkunnar, en hér er málinu hreyft og það er ekki nærri því útrætt.
    Að því er síðara atriði tillögunnar varðar, verðjöfnun á raforku, vil ég sérstaklega taka fram í tilefni af þeim orðum sem hér hafa fallið að það er mál sem við verðum að taka á. Við verðum að jafna orkuverðið meira en gert hefur verið hingað til. Ég held meira að segja að það sé eitthvað vikið að því í hinum græna pésa sem hæstv. ráðherra hafði með sér í pontuna áðan. ( Viðskrh.: Ég skal lána þér hann.) Nei, takk fyrir, ekki núna. --- Þetta hefur verið að ég ætla endurtekið í ýmsum bæklingum af þessu tagi á undanförnum árum og það hafa margir hv. þm. haft þetta á orði, en það hefur bara ekki verið gengið nógu langt í þessum efnum. Þetta eru svo mikil grundvallarmannréttindi, að eiga aðgang að orku hvar sem menn búa í landinu á hæfilegu verði þannig að ekki sé hróplegur munur á, að við verðum að taka það til athugunar. Þó að hér sé rætt um að það sé ekki víst að allir landsmenn séu sammála um þessa jöfnun og hafi ýmis önnur úrræði, einkum í þéttbýlinu, held ég að þetta sé svo mikið sanngirnismál að það séu m.a. miklu fleiri þéttbýlisbúar sem viðurkenni þetta í meginatriðum en sumir ætla.