Menningarráðgjafar í landshlutum
Mánudaginn 20. mars 1989

     Flm. (Valgerður Sverrisdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 556 um menningarráðgjafa í landshlutum. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Óli Þ. Guðbjartsson, Jóhanna Þorsteinsdóttir, Matthías Bjarnason, Jón Sæmundur Sigurjónsson og Margrét Frímannsdóttir.
    Tillögugreinin orðast svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd fulltrúa allra þingflokka til að undirbúa og koma á fót starfi menningarráðgjafa í öllum landshlutum. Nefndin ljúki störfum eigi síðar en 1. sept. 1989.``
    Það er margkveðin vísa að íslensk menning sé í hættu vegna sívaxandi og æ áleitnari áhrifa erlendra menningarstrauma. Þeir berast þjóðinni í bókum og á hljóðupptökum með útvarpi og sjónvarpi, í kvikmyndum og á myndböndum. Þeir sem best til þekkja telja sig þegar sjá veruleg merki þess að hnignun sé hafin. Vísað er til málfars ungmenna, orðfæðar þeirra og slæms framburðar. Rætt er um lítil kynni yngri kynslóða af bókmenntum þjóðarinnar, þeim sem héldu í henni lífi og nærðu hug hennar og lífsbjargarvilja í erfiðleikum fyrri alda. Minnst er á dvínandi áhuga á þeim menningararfi sem felst í sögu og minjum og var helsta stoð þjóðarinnar í baráttu hennar fyrir sjálfstæði. Bent er á minnkandi þjóðarstolt og tilfinningu fyrir því sem það felur í sér að vera þegn sjálfstæðrar þjóðar og sem gefur þjóð samheldni og einn hug, jafnt í blíðu sem stríðu. Ugglaust er oftlega of djúpt í árinni tekið hjá þeim sem af mestri svartsýni tala. Vafalaust er þó hitt að þeir hafa nokkuð til síns máls. Það er óverjandi andvaraleysi að telja sér trú um að íslenskt menningarsamfélag sé svo öflugt og íslensk menning og tunga svo styrk og óbugandi að ekkert geti orðið henni að falli.
    Eftir að fjölmiðlar hafa orðið öflugri hefur æ meira borið á þeirri skoðun að það eitt sé menning sem flutt sé af þar til lærðu fólki á hverju sviði. Menntun er að sjálfsögðu aðferðin til að þroska og efla hæfileikana og próf að loknu námi er oft lykill að starfi listamannsins. En hitt er engu að síður nauðsynlegt þjóðlegu og góðu mannlífi að allur almenningur taki þátt í menningarstarfi. Flest bendir til þess að þegar í grunnskólum mótist viðhorfið til lífsins. Því er mikilvægt að börnin séu þá þegar þjálfuð í því að skapa eitthvað sjálf og koma fram fyrir hóp og flytja mál sitt.
    Samkvæmt grunnskólalögum er ekki kveðið sérstaklega á um þess háttar uppfræðslu. Þó munu margir skólar hafa tekið upp þann sið að halda skemmtun einu sinni á ári þar sem nemendur semja eða velja efni til flutnings. Í minni skólum er jafnvel hægt að koma því svo fyrir að allir nemendur skólans fái eitthvert hlutverk við þetta tækifæri. Sums staðar hafa verið fengnir listamenn til að vinna með börnum í vikutíma, sem lokið hefur með sýningu í skólanum, sannkallaðri listahátíð. Enginn vafi er á að tiltæki sem þetta opnar hug barnanna í menningarlegu tilliti auk þess sem það sannfærir mörg þeirra um að þau geti eitthvað.
    Í öllum sveitarfélögum á Íslandi á sér stað

menningarstarfsemi á einhverju sviði. Virkust er þátttaka almennings í kórum og leikfélögum. Á allra síðustu árum hefur þó þróunin verið í þá átt að æ fleiri gerast sinnulausir og viðhorf til lista og menningar hefur verið að breytast með auknum áhuga á veraldlegum gæðum. Sveitarstjórnarmenn viðurkenna að þegar gengið sé frá fjárhags- og framkvæmdaáætlunum lendi menning og listir oft á tíðum aftast á listanum og sama hefur oft gilt um afgreiðslu fjárlaga á Alþingi. ,,Eftir höfðinu dansa limirnir``, segir í gömlu og drjúgsönnu orðtaki. Forráðamenn byggðarlaga og forustumenn þjóðarinnar verða að gera sér grein fyrir mikilvægi félagslegra þátta í mannlífi byggða sinna. Tómlæti og aðstöðuleysi hefur kæft margan þann gróður sem með aðhlynningu og við réttar aðstæður hefði getað sprottið og náð góðum þroska.
    Það starf sem hér er lagt til að hafið verði gæti orðið mikilvægur þáttur í því að virkja einstaklinga á sviði menningar og lista, miðla efni á milli héraða, skipuleggja menningarstarfsemi í samráði við heimamenn á hverjum stað og vera skólastjórum til aðstoðar við listviðburði í skólum. Þá er einnig hugsanleg aðstoð við örnefnasöfnun og starfsemi safna við að leita uppi fróðleik af menningarstarfi fyrri tíma og fleira mætti upp telja.
    Það er tímabært að við spyrjum í alvöru: Viljum við byggja þetta land? Viljum við gera búsetu í því hvarvetna eftirsóknarverða? Viljum við hlúa að fjölbreytni í menningu þjóðarinnar? Viljum við varðveita arf okkar og tungu? Vafalítið verður svar okkar allflestra við þessum spurningum játandi. En þá er eftir höfuðspurningin: Hvað viljum við gera til þess að ná því marki sem jáyrði okkar fela í sér?
    Flm. þessarar tillögu vilja að komið verði á fót starfi menningarfulltrúa í öllum landshlutum. Við viljum til þess að sýna ábyrgð í málatilbúnaði benda á leið sem komið gæti til greina sem fjármögnunarleið. En eins og fram kemur í grg. er gert ráð fyrir með breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að Menningarsjóður félagsheimila fái 10% tekna af skemmtanaskatti og
Sinfóníuhljómsveit Íslands sama hluta. Eftirstöðvum skal í samráði við fjmrh. m.a. varið til menningarstarfsemi. Vel mætti hugsa sér að eyrnamerkja hluta skemmtanaskattsins til þeirrar starfsemi sem hér er fjallað um.
    Fjármálahlið málsins yrði að sjálfsögðu til umfjöllunar hjá þeirri nefnd sem kosin yrði á Alþingi til þess að annast skipulagningu starfs þessa ef tillagan nær fram að ganga.
    Það er margsannað mál að til þess að koma í kring félags-, menningar- og listalífi þarf drifkraft. Þessi drifkraftur liggur oftast nær í einstaklingum og furðu oft vaknar hann eða verður til fyrir hvatningu aðkomumanns eða utanaðkomandi aðila. Það er hafið yfir allan vafa að eitt það árangursríkasta til eflingar íslenskrar menningar, þjóðlegra lista og félagslífs væri það að fá hinum dreifðari byggðum þann hvata sem þarf til að koma af stað og halda gangandi víðtæku

starfi á þessu sviði. Vel má hugsa sér að starf það sem hér um ræðir tengist fjórðungssamtökunum og þeirri aðstöðu sem þau hafa í fjórðungunum.
    Eins og hv. þm. er eflaust kunnugt um, þá er fyrirkomulag hjá nágrannaþjóðum okkar, a.m.k. sumum hverjum á hinum Norðurlöndunum, á þann hátt að svonefndir ,,kúltúrséffar`` starfa í fylkjunum og vinna mjög mikilvægt starf fyrir menninguna. Ég veit að þar er stjórnsýslan önnur en hér er, en engu að síður er þetta sambærilegt að nokkru leyti.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki hafa miklu fleiri orð um þessa till. við fyrri umræðu nema að ég vil gera grein fyrir því hvers vegna við höfum látið hér sem fylgiskjal fylgja lög Menningarsamtaka Norðlendinga. Ástæðan er sú að við teljum að leiðin að þessu markmiði sé sú að stofnuð verði menningarsamtök landsfjórðunganna sem síðan ráði til sín starfskraft og það verði menningarráðgjafar landshlutanna.
    Í 4. grein laga Menningarsamtaka Norðlendinga stendur, með leyfi forseta, um markmið samtakanna:
,,a. safna og miðla upplýsingum um listastarfsemi og menningarlíf í Norðlendingafjórðungi svo og annars staðar,
    b. liðsinna við ráðningu leiðbeinenda til námskeiða- og fyrirlestrahalds svo og sérstakra verkefna í hinum ýmsu listgreinum,
    c. stuðla að bættri umfjöllun um listir í fjölmiðlum,
    d. efla samstarf áhugafólks um listir og menningarlíf í fjórðungnum og við hliðstæð félög og samtök annars staðar,
    e. beita sér fyrir bættri aðstöðu og skipulagi listkynningar,
    f. halda árlega ráðstefnu um lista- og menningarlíf í fjórðungnum í tengslum við aðalfund samtakanna.``
    Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. félmn.