Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Það er mikill misskilningur ef hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson telur að við höfum farið heilan hring. Við höfum farið beina leið þó að nokkur töf hafi orðið á. Mér þykir það afar slæmt ef hv. þm. Pálmi Jónsson er á móti þessum brtt. meiri hl. nefndarinnar eða reynir að bregða fæti fyrir þær með útúrsnúningum eins og hann var með hér í ræðustól áðan. Ég kem til með að rifja það upp í kjördæmi okkar ef honum tekst að klúðra þessu.
    Ég vil fá þessar brtt. samþykktar svo sem þær eru hér prentaðar á þskj. 637, endurprentaðar upp. Ég er reyndar margsinnis í dag búinn að skýra frá hvernig þessu er háttað, en hv. þm. hefur verið á ferðalagi og ekki verið viðstaddur umræðuna. Það sem við ætlumst til þess að gert verði er þetta:
    Við erum ekki að gefa forskrift um að allt skuli endilega verða greitt upp á þessu ári heldur verði komist að samkomulagi um hvernig greiðslum skuli hagað og hvenær þeir peningar verði reiddir af hendi sem bændur eiga hjá ríkinu lögum samkvæmt. Árið 1988 hafa fallið meiri greiðslur á ríkissjóð en segir til um í fjárlögum og lánsfjárlögum og út úr þessu verðum við að komast með þeim hætti sem hér er lagt fyrir. Þetta eru peningar sem ríkið skuldar bændum og við viljum að það komist á hreint hvernig og hvenær þeir verði greiddir.
    Varðandi það sem eftir stóð frá árinu 1987 þarf ekki að taka sérstaklega fram um það, væntanlega yrði það forgangsverkefni af þeim peningum sem þegar eru settir á af þeim 100 millj. sem þegar er búið að taka frá til þess arna.
    Ég vil biðja hv. þm. að vera ekki með útúrsnúninga eða getsakir. Þessu máli er skynsamlega fyrir komið hér í brtt. og fjmrh. fær heimild til þess í samráði við landbrh. og fjvn. og bændasamtökin --- því það er náttúrlega ekkert nema útúrsnúningur að vera að gera því skóna að það verði farið að semja við hvern einstakan bónda --- þessir aðilar fá heimild til þess að ganga frá þessu uppgjöri sem hér er fyrir okkur og gera það með skynsamlegum hætti þannig að allir aðilar geti vel við unað.