Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég bað nú um orðið hér fyrr í kvöld en af einhverjum ástæðum hefur það fallið niður. Ég vil aðeins taka fram í sambandi við þetta mál sem hér er til umræðu að við 1. umr. fjárlaga kom fram yfirlýsing frá m.a. mér um það að þessu ákvæði í sambandi við jarðræktarlögin og búfjárræktarlögin væri ekki fullnægt í fjárlagafrv., það var alveg ljóst þá strax, og það yrði að taka á þessu máli. Í framhaldi af því var því beint til ríkisstjórnarinnar að gefa yfirlýsingu um það hvernig ætti að standa að þessu máli á árinu 1989. Sú yfirlýsing sem kom fram frá hæstv. landbrh. birtist í ræðu hv. formanns fjvn. við 3. umr. fjárlaga, eins og hv. þingmönnum er kunnugt.
    Hins vegar var það alveg ljóst að framhald þurfti á þessu að verða og þess vegna undraðist ég þegar ég sá afgreiðslu Ed. sem gerði ekkert í sambandi við lánsfjárlögin varðandi yfirlýsingu hæstv. landbrh., varðandi uppgjör jarðræktarlaga og búfjárræktarlaga 1988.
    Ég tel að brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 637 séu fullnægjandi þrátt fyrir það að ég hefði frekar kosið að það orðalag sem var í brtt. hæstv. landbrh. hefði verið notað, þ.e. ,,að ganga frá uppgjöri og ákveða tilhögun greiðslna``. Það er ákveðnara orðalag en er í tillögu nefndarinnar, ,,að semja um uppgjör`` o.s.frv. En það skiptir ekki meginmáli.
    Ég legg þann skilning í þessar brtt. og yfirlýsingu hæstv. landbrh. að staðið verði við fullnaðargreiðslur til bænda 1988 í samræmi við gildandi lög. Til þess þarf að sjálfsögðu fjármagn og samninga eða samninga sem fullnægja greiðslunni að öðru leyti. Ég geri ráð fyrir því að bændasamtökin í landinu muni ganga eftir því að svo verði gert því svo mikilvægt er málið. Ég vil taka það fram að minn skilningur er sá að ný lög, sem sett kunna að verða í sambandi við þessi mál, bæði jarðræktarlög og búfjárræktarlög, breyti ekki í neinu tilfelli greiðsluskyldu til bænda samkvæmt gildandi lögum. Það er alveg augljóst mál sem þarf ekki að ræða. Ég vil aðeins segja það, vegna þess að ég tel mig hafa verið einn af þeim sem hafa verið í baráttu fyrir því að bændur landsins næðu rétti sínum í sambandi við þessi mál samkvæmt gildandi lögum, að ég mun fylgja þessari afgreiðslu fast eftir og það skulu vera mín lokaorð.