Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Mér er það að sönnu ánægjuefni að fá tækifæri til að gera þingheimi grein fyrir því sem ég tel vera meginatriði þessa máls um leið og ég mun freista þess að svara spurningum hv. 1. þm. Norðurl. v. sem hann beindi til mín áðan. --- Fyrst örfá orð um það sem kalla mætti forsendur þessa máls.
    Íslendingar hafa gert samning við stjórnvöld í öðru ríki, Bandaríkjunum, varnarsamning frá árinu 1951 sem gerður var á sínum tíma á grundvelli Norður-Atlantshafssáttmálans. Með þessum samningi skuldbindur Bandaríkjastjórn sig til þess að annast varnir Íslands. Það eru forsendur þessa máls.
    Á undanförnum árum, sér í lagi frá því í byrjun þessa áratugar, 1980, var sú stefna mótuð af forverum mínum í starfi utanrrh. og eftir allmiklar umræður, bæði á Alþingi og víðar, að Íslendingar yrðu að taka meira frumkvæði um það að leggja sjálfstætt mat á þessa varnarstefnu, að Íslendingum bæri sjálfum að leggja á það sjálfstætt mat, hafa að því frumkvæði að meta með hvaða hætti þessum skuldbindingum um varnir lands og þjóðar á hættutímum væri framfylgt. Það er upphaf þess að stofnað er sérstakt varalið og því fengið sérstakt hlutverk að því er varðar varnir landsins, gerðar því næst áætlanir um æfingar á vegum þessa liðs, þar á meðal um leið og lögð er áhersla á það að auka áætlunargerð innlendra stjórnvalda með samstarfi ýmissa embætta um það að hér lægju fyrir áætlanir sem væru samhæfðar um hvernig bregðast skuli við hættuástandi ef upp kemur fyrirvaralítið. Fyrsta spurning er því raunverulega sú: Hvers vegna er verið að tala um liðsauka og sérstakar æfingar slíks liðsauka umfram varnarliðið sjálft?
    Ástæðurnar fyrir því eru þessar: Fastabúnaður varnarliðsins er afar takmarkaður. Hann er takmarkaður við hlutverk sem er eftirlitshlutverk, að fylgjast með ferðum skipa og kafbáta á Norður-Atlantshafi og umferð flugvéla á þessu sama svæði. Af hálfu varnarliðsins er ekki fyrir hendi fastur öflugur viðbúnaður til varna á staðnum heldur er um að ræða lágmarksmannafla. Þess vegna hefur ævinlega verið gert ráð fyrir því að liðsauki bærist til Íslands á hættutímum og samkvæmt samningum, skuldbindingum og gerist það auðvitað því aðeins að það gerist að ósk eða með samþykki rétt kjörinna íslenskra stjórnvalda.
    Íslendingar höfðu frá upphafi gerðar varnarsamningsins lagt á það mikla áherslu að þröng takmörk yrðu sett við veru varnarliðsins í landinu og endurskoðuðu það enn fremur árið 1974. Sú endurskoðun leiddi til verulegrar fækkunar í varnarliðinu. Varnarliðið telur núna rúmlega 3 þús. manns, en þegar mest var var það reyndar um eða yfir 5 þús. manns.
    Það er ekki nýtt út af fyrir sig að gert hafi verið ráð fyrir liðsauka á hættutímum. Það sem er nýtt er það sem gerist með formlegum hætti árið 1984, að gert er ráð fyrir því að fá það hlutverk sérstaklega svokölluðu varaliði, þ.e. ekki fastaliði í Bandaríkjaher

heldur því sem kallað hefur verið sjálfboðaliðar, sem eru óbreyttir borgarar en gegna herþjálfunarskyldum í tómstundum, mynda þetta varalið sem verður ekki kvatt til á hættutímum nema með ákvörðun Bandaríkjaforseta og ósk eða samþykki viðkomandi stjórnvalda, t.d. hér á landi.
    Ef rekja ætti síðan samskipti íslenskra stjórnvalda við forsvarsmenn þessa varaliðs frá árinu 1982 er það býsna löng saga, en ég ætla ekki að svo stöddu að gera það. Ég vísa til þess að þetta mál verður rætt í utanrmn. Þar mun ég gera væntanlega ítarlegri grein fyrir því sem um þetta mál er vitað og um það er að segja af hálfu utanrrn. En áður en ég lýk þeim þætti málsins að gera grein fyrir þessum almennu forsendum vil ég geta þess að í skýrslum utanrrh. til Alþingis hefur stefna íslenskra stjórnvalda í þessu máli verið mörkuð. Fyrst má segja í skýrslu þáv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar árið 1984 og síðar í skýrslu forvera míns til Alþingis árið 1988, núv. hæstv. forsrh. Í skýrslu þáv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Grundvöllurinn að virkri þátttöku okkar Íslendinga í varnarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins er að við öðlumst sjálfir meiri reynslu og þekkingu á varnarmálum er geri okkur betur fært að leggja sjálfstætt mat á þá hernaðarlegu stöðu sem þjóð okkar býr við. Með þeim hætti verðum við í stakk búnir til að taka fullan þátt í stefnumörkun um fyrirkomulag varna landsins. Með slíka þekkingu að bakhjarli hljótum við að óska úrbóta ef við teljum vörnum að einhverju leyti áfátt eða hafna hugmyndum og fyrirætlunum á þessu sviði er við teljum að séu ekki í samræmi við þarfir okkar og stefnu í öryggismálum.``
    Í skýrslu hæstv. fyrrv. utanrrh. Steingríms Hermannssonar til Alþingis á sl. ári segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ef til átaka drægi er ljóst að varnarliðið þyrfti aukinn liðsafla. Hersveit í varaliði bandaríska landhersins hefur verið þjálfuð og búin undir að koma til landsins á hættu- eða ófriðartímum. Hluti hennar tók þátt í umfangsmiklum æfingum í Kanada í sumar og fylgdust fulltrúar varnarmálaskrifstofu með þeim æfingum. Til að slík þjálfun komi að fullu gagni er nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld hafi hönd í bagga og tryggi að allar varnaráætlanir séu í sem bestu
samræmi við íslenska hagsmuni og staðhætti. Samræmis þarf að gæta milli almannavarnaáætlana okkar og skipulags lögreglu og landhelgisgæslu og þessara varnaráætlana. Að því hefur verið unnið, en eðli málsins vegna verður ekki greint frekar frá því.``
    Það er mitt mat eftir að hafa farið yfir skýrslur utanrrh. frá byrjun áratugarins til þessa dags að í þessum tveimur tilvitnunum megi segja að í almennum orðum sé mótuð sú stefnumörkun sem fram hefur farið af hálfu íslenskra stjórnvalda í þessu máli.
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig er margt um þetta mál að segja, fréttaflutning um það og rangfærslur í fréttaflutningi. Það er sjálfsagt að velta fyrir sér spurningum um hvort æfingar þessar ef af yrði geti

með nokkru móti flokkast undir nokkurs konar ögrun við grannþjóðir eða einhverja aðra aðila sem sjái af þeim ástæðum öryggi sínu ógnað. Sjálfsagt væri og fróðlegt að rekja samskiptasögu íslenskra stjórnvalda og yfirmanna varnarliðsins, yfirmanna varaliðssveitanna og forustumanna Atlantshafsbandalagsins um þetta mál allt frá árinu 1982 til dagsins í dag. Sjálfsagt er einnig að gera grein fyrir tilgangi þessara æfinga, umfangi þeirra, búnaði og kannski ekki að ófyrirsynju að spyrja: Hvernig er hægt að meta þessar æfingar við skulum segja í samanburði við þær æfingar sem fram fara á vegum annarra bandalagsríkja okkar? Ég veit að hv. fyrirspyrjandi er mikill stuðningsmaður og áhugamaður um norrænt samstarf og ég veit að það hvarflar ekki að honum að saka ríkisstjórnir vinsamlegra smáríkja eins og t.d. Noregs eða Danmerkur um það að standa fyrir ögrandi aðgerðum, allra síst á þessum góðu og gleðilegu afvopnunartímum. Þess vegna væri afar fróðlegt fyrir hann að kynna sér sérstaklega hvaða ráðstafanir eru gerðar af hálfu stjórnvalda í löndum eins og Noregi og Danmörku til að tryggja tíðar, reglubundnar og umfangsmiklar æfingar sem lúta fyrst og fremst að því að tryggja öryggi norskra og danskra borgara á hættu- og ófriðartímum. Ég hef satt að segja engan heyrt þar í landi telja að æfingar af því tagi séu ögrun við heimsfriðinn. Allra síst hef ég heyrt það frá fulltrúum þeirra ríkja sem þá væntanlega ættu að telja sér ógnað, þ.e. fulltrúum ríkja eins og Sovétríkjanna eða ríkja Austur-Evrópu.
    Kjarni málsins af okkar hálfu er sá að spyrja: Eru æfingar af þessu tagi að einhverju leyti nauðsynlegar sem einhvers konar tryggingastarfsemi, fyrirbyggjandi aðgerð, viðlagatrygging við því sem kann að gerast og við allir erum sammála um að óska að gerist ekki ef hættu- eða ófriðarástand skapast í okkar landi eða í grennd við það? Og þá er spurningin um það: Eru Íslendingar sálfir undir það búnir, íslensk stjórnvöld? Hafa þau gætt skyldu sinnar til að leggja fram og undirbúa slíkar áætlanir og samhæfa þær og æfa þær eins og allar aðrar þjóðir gera til þess að tryggt sé að þær séu framkvæmanlegar þegar til á að taka? Loks er sjálfsagt að ræða um hvert er valdsvið íslenskra stjórnvalda í þessu máli. Það er út af fyrir sig ákaflega einfalt mál. Það er einfaldlega á valdi utanrrh. íslensku ríkisstjórnarinnar að stöðva þessar æfingar ef hann vill svo, hefur rök fyrir því. En væri slík ákvörðun tekin, þá þyrfti náttúrlega að færa fyrir því veigamikil og sannfærandi rök, önnur og veigameiri en fram komu í máli hv. fyrirspyrjanda um dýraríki kríunnar og jafnframt yrðu menn að leggja mat á það hverjar afleiðingarnar yrðu í samskiptum Íslands og bandalagsþjóða þeirra innan Atlantshafsbandalagsins.
    Virðulegi forseti. Þá ætla ég að reyna að svara stutt og laggott þeim spurningum sem hv. þm. bar fram.
    1. Hvenær barst varnarmáladeild ósk Bandaríkjamanna um umræddar æfingar?
    Svar: Formleg tilkynning um slík áform var bókuð

á fundi varnarmálanefndar þann 30. ágúst 1988, þ.e. í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, en ég minni á að hv. fyrirspyrjandi var dyggur stuðningsmaður hennar og allra þeirra ríkisstjórna þar á undan sem hér verður um fjallað. Fyrstu upplýsingar um æfingar árið 1989 bárust hins vegar í októbermánuði 1986 með þeim hætti að þær voru lagðar fram á viðræðufundi skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu í viðræðum hans við yfirvöld Atlantshafsflotans í Norfolk í Bandaríkjunum --- í október 1986 eins og ég segi, en þar kom fram nokkuð greinargóð lýsing á umfangi þessara æfinga, þessara þriðju áformuðu æfinga, þ.e. um fjölda þátttakenda, að þeir yrðu um það bil 1000. Ég skal taka það skýrt fram að þessi tilkynning, sem bókuð er í gerðabók varnarmáladeildar frá 30. ágúst, er býsna knapporð og engan veginn fullnægjandi greinargerð sem dugir fyrir utanrrh. til að taka ákvörðun um málið. Þar á meðal er þar hvergi vikið að tímasetningu áætlunarinnar. En margvíslegar upplýsingar lágu fyrir um áformin, lýsing á markmiðum, vitneskja um hverjir tækju þátt í æfingunum, hver væri tilgangurinn og hvernig væri skilgreint, ef ég má orða það svo, markmið æfinganna.
    2. Hvenær var umrædd ósk lögð fyrir utanrrh.?
    Svar: Áformin lágu fyrir úr bókun varnarmálanefndar eins og ég vék að áðan, en ósk um ákvörðun af hálfu utanrrh. var lögð fram með formlegum hætti í gær. Sumir hafa litið svo á og vísað þá til viðurkenndra starfsaðferða innan Atlantshafsbandalagsins að tilkynning um slíkar aðgerðir sé út af fyrir sig nægileg og þá reyni á viðbrögð stjórnvalda við því hvort þau í framhaldi af
slíkri tilkynningu krefjist frekari upplýsinga eða geri athugasemdir og leggi fram óskir eða kröfur um breytingar o.s.frv. Kjarni málsins er auðvitað sá, a.m.k. að mínu mati, að þetta á að leggja fyrir utanrrh. með öllum fáanlegum heimildum og gögnum og það á að vera svo að okkar kröfu og því næst á ákvörðun að vera, og það vefengir enginn, í okkar höndum. Óskin með þeim upplýsingum sem ég hafði sérstalega óskað eftir er ekki lögð fram með formlegum hætti þannig að unnt sé að afgreiða málið fyrr en í gær.
    3. Hvar óska Bandaríkjamenn eftir að æfingarnar fari fram?
    Svar: Á varnarsvæðinu. Þess má síðan geta að ósk er uppi um það að til hliðar við það fari fram æfing á fjarskiptakerfi varnarliðsins og fjarskiptakerfi íslenska almannavarnakerfisins sem væri þá utan varnarliðsins en framkvæmd sérstaklega fyrir utan þær æfingar sem fram fara á varnarsvæðunum.
    4. Hversu margir óska Bandaríkjamenn eftir að taki þátt í æfingunum?
    Svarið er þetta: Á bilinu 1200--1300 manns, en þá þarf að greina þar í sundur. Í fyrsta lagi er hér um að ræða 250 manns, sveit úr svokölluðu stórherfylki landhers Bandaríkjanna, höfuðstöðvar í Kaliforníu. Það er sú sveit sem er í viðbragðsstöðu um það að koma til Íslands með örskömmum fyrirvara, fáum dögum, ef

kallið kemur og óskað er eftir, 240 manns. Í annan stað er um að ræða sveit úr stórfylki varaliðssveitanna, höfuðstöðvar í Massachusetts, 800 manns. Það eru þessir óbreyttu borgarar sem gegna þessum skyldum sem sjálfboðaliðar og eiga samkvæmt áætlunum að koma til Íslands með lengri fyrirvara og taka við af þeirri fyrstu sveit sem kemur. Þetta þýðir að raunverulegir þátttakendur í æfingunum væru rúmlega 1000. Loks er þess að geta að uppi eru óskir um það að 200--300 manns, yfirmenn hinna og þessara sveita, eftirlitsmenn, séu viðstaddir æfinguna til að leggja á hana mat, skoða hana gagnrýnum augum, undirbúa skýrslugerð um árangur o.s.frv. og kynna niðurstöðurnar hernaðaryfirvöldum, forustu Atlantshafsbandalagsins og íslenskum stjórnvöldum.
    5. Hvaða búnað er óskað eftir að nota við æfingarnar? er spurt.
    Svarið við því er að þarna verða notuð um 45 ökutæki á hjólum, ekki á beltum, þar á meðal 5 tonna flutningabílar og nokkur eintök af nýjustu gerð af herjeppum. Þess skal getið að þungavopn þessarar varaliðssveitar eru geymd í Kanada og koma ekki með þessari sveit. Hins vegar kemur liðið, þessir 800 einstaklingar, með léttabúnað sinn sem þeir bera á sjálfum sér og samanstendur af rifflum, vélbyssum, skammbyssum, sprengjukösturum, sprengjuvörpum og sprengjuvörpum sérstaklega útbúnum til að granda brynvögnum. Þess skal getið að það eru engin skot í farangrinum og það verður ekki hleypt af skoti í þessari æfingu öðrum en púðurskotum. Að því leyti er þetta ólíkt þeim æfingum sem fram fóru 1987 því þá var vopnabúnaður öllu viðameiri og þar á meðal kvaddar til árásarflugvélar, sprengjuflugvélar, utan þess flugvélakosts sem varnarliðið hefur yfir að ráða. Þetta er að segja um búnaðinn.
    6. Hvaða dag áforma Bandaríkjamenn að boða út lið til æfinganna?
    Það eru margir mánuðir síðan þetta lið var boðað út. Ég þori ekki að fullyrða hversu margir mánuðir það eru, þ.e. hvenær liðstilkynningin var send út um fyrirhugaðar æfingar. Mér er nær að halda að það sé fyrir hálfu öðru ári. Hins vegar ef spurt er hvenær liðið leggi af stað frá Bandaríkjunum, þá er þess að geta að liðsflutningarnir eiga samkvæmt þessum upphaflegu áformum að eiga sér stað hinir fyrstu aðfaranótt 18. júní.
    Í sjöunda lagi er spurt: Hve marga daga óska Bandaríkjamenn eftir að æfingarnar standi?
    Svarið er: Fimmtán daga. Þó skal þess getið að fullur liðssafnaður samkvæmt þessum áformum eða óskum stendur yfir aðeins þrjá af þessum dögum.
    8. spurning: Hvers lags lið er það sem Bandaríkjamenn óska eftir að æfa hér?
    Til þess að stytta svarið væri kannski vert að benda hæstv. fyrirspyrjanda á að lesa ákaflega greinargott viðtal við stærðfræðikennara í Massachusetts sem er yfirhershöfðingi þessa sjálfboðaliðs og birtist í Morgunblaðinu --- ja, nú man ég ekki dagsetninguna á því, mig minnir í mars á síðasta ári --- 3. mars. Þetta virtist vera ákaflega

aðlaðandi maður, friðsamur í besta lagi og mikill Íslandsvinur að sögn og sér í lagi áhugamaður um fuglavarp, rétt að það komi fram, og kunnáttumaður um það og hefur gengið hér um móa og þúfur og óbyggðir víðar en flestir landar að þeim ólöstuðum. Í þessu hispurslausa og einlæga viðtali er eiginlega öllu því svarað sem lýtur að því hvers konar fólk þetta er. Þetta eru óbreyttir borgarar. Þetta eru stærðfræðikennarar. Þetta er mikið af kennurum. Það er eitthvað af verkfræðingum og tæknifræðingum, þar á meðal talsvert af landbúnaðarverkfræðingum. Ég veit ekki hvort mikið er af hjúkrunarliði. Þó er það vitað að það er mikið af hjúkrunarliði, enda er það einn þáttur æfinganna. En ef spurt er nákvæmlega, ég hef reyndar þegar getið þess, þá er þetta kannski þríþætt. Í fyrsta lagi er þessi 240 manna sveit atvinnumanna úr fastaliðinu sem kemur hingað með tveggja daga fyrirvara og á fyrst og fremst að æfa það að taka við af varnarliðinu sem fyrir er, en því næst 800 manna sveit sjálfboðaliða sem síðan á að leysa það af hólmi og síðan er þetta eftirlits- og skoðunarlið sem ég nefndi áðan.
    Í níunda lagi er spurt: Hvaða tilgangi telur utanrrh. að þessar hugsanlegu heræfingar þjóni?
    Því er til að svara að þessi æfing er skilgreind á þann veg að hún þjóni fyrst og fremst þeim tilgangi að þjálfa venjubundna æfingu á flutningum liðsauka til Íslands. Það er meginmarkmiðið. Að þjálfa þessa liðsflutninga undir þeim formerkjum að þá beri að höndum með litlum fyrirvara og því næst nánast að æfa hvernig skipting fer fram milli þeirra þriggja liðseininga sem ég nefndi.
    Þessu er lýst á þann veg að varnaráætlunin sé í þremur stigum. Fyrsta stig er það lið sem þegar er fyrir á Keflavíkurflugvelli, annað stig er sá liðsauki sem kemur strax frá Bandaríkjunum og þriðja og lokastigið er því næst varaliðið sem ég var að lýsa sem á að leysa af hólmi þessar fyrstu sveitir úr fastahernum.
    Æfingarnar eru því þríþættar. Í fyrsta lagi eru það allra fyrstu varnir á landi. Um 500 liðsmenn á Keflavíkurflugvelli munu annast þær. Flestir þeirra hafa önnur föst verkefni, en hafa hlotið þjálfun til þess að annast fyrstu varnir á jörðu niðri. Annað stig: Aðstoð og liðsauki við liðsmennina sem annast fyrstu varnirnar. Í æfingunni verður það þessi 250 manna sveit úr stórfylki landhersins frá Kaliforníu. Og þriðja stigið eru svo sveitir úr varaliðsstórfylkinu, þessara varasveita frá Nýja Englandi. Hún mun leysa sveitir fastahersins af hólmi og það verður æft á einhverjum dögum af þessari æfingu. Fasta sveitin, sem er framvarðarsveit, setur einnig á svið flutning til annars staðar og dregur sig síðan í hlé.
    Þá er þess að geta að það er síðan annar meginþáttur þessarar æfingar að þjálfa sjúkra- og hjúkrunarlið. M.a. í því skyni koma hingað þrjár litlar sjúkraþyrlur og óskir eru uppi um það þegar eftir er gengið að þessi æfing verði að einhverju leyti samhæfð gegnum Almannavarnir þeim þætti Almannavarna Íslendinga sem lýtur að viðbrögðum við

stórslysum og hjúkrun á hættutímum.
    Loks er þess að geta, sem ég nefndi áðan, að til hliðar við þetta og án beinna skipulagstengsla við það er spurningin um sérstaka staðprófun á því hvernig fjarskiptakerfi varnarliðsins og almannavarnakerfisins gengur upp í reynd.
    Þá er 10. spurning: Hvaða tök hefur hæstv. utanrrh. á því að koma í veg fyrir að æfingarnar fari fram?
    Svarið við því er einfalt: Það er á valdi utanrrh. að samþykkja eða synja um þessar æfingar eða að koma fram með kröfur um breytingar, ný áhersluatriði eða hvaðeina. M.ö.o.: það er alveg ljóst að þessar æfingar fara ekki fram nema með leyfi íslenska utanrrh. og forsögn hans eða fyrirmælum um það hvar þær fara fram, með hve mörgum þátttakendum og nánari tillögum um fyrirkomulag og framkvæmd þannig að það fer ekki milli mála.
    Á hitt er svo að líta að þó að ég hafi ekki vikið neitt að forsögu málsins er hér um að ræða áætlanir sem eru kynntar allítarlega sem röð æfinga allt til ársins 1993 og kynntar íslenskum stjórnvöldum strax í október 1986. Áætlanir um þessar æfingar eru gerðar með eins og hálfs til tveggja ára fyrirvara. Það væri lítið mál að segja einhverjum sveitum fastaliðs út af fyrir sig að þær gætu æft sína hluti einhvers staðar annars staðar ef okkur svo þóknaðist. Það er öllu erfiðara þegar um er að ræða að raunveruleg formleg beiðni um staðfestingu eða synjun eða afgreiðslu íslenskra stjórnvalda er svona seint fram komin. Þá er það mjög vandasamt mál vegna þess að ef það hefði átt að koma í veg fyrir eða breyta í grundvallaratriðum fyrirkomulagi þessarar æfingar hefði þurft að gera það alveg örugglega í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Þetta er undirbúið með svo löngum fyrirvara.
    Ástæðurnar eru afar einfaldar ef við bara lítum á mannlega þáttinn. Hér er um að ræða sjálfboðaliða sem eru að skyldustörfum sem óbreyttir borgarar, þurfa með löngum fyrirvara að fá sig lausa frá sínum störfum o.s.frv. Það er auðvitað mikið samhæfingar- og skipulagsmál að gera það þannig að vel fari. Ef það ætti að færa þetta á allt annan árstíma t.d. kallar það á nýja áætlun sem tekur u.þ.b. eitt ár til eitt og hálft ár að undirbúa. Þetta breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut um valdsvið íslenska utanrrh. Það er alveg á hreinu. Síðan er spurningin um að meta með hvaða rökum við ættum að gera kröfur um það annaðhvort að fella þetta niður eða leggja þarna fram aðrar áherslur eða fækka þátttakendum o.s.frv. Hver væru okkar meginrök fyrir því? Það væri mjög fróðlegt að heyra þær röksemdir hér í umræðunum. Því næst yrðum við auðvitað að meta það í ljósi þeirrar vitneskju sem fyrir liggur nánast um skuldbindingar íslenskra stjórnvalda mörg ár aftur í tímann hvaða áhrif það hefði fyrir stöðu okkar í þessu samstarfi því þessar æfingar fara að verulegu leyti fram að ósk íslenskra stjórnvalda, það er ljóst. Ef við allt í einu segðum með nokkurra mánaða fyrirvara: Nei, við viljum ekki leyfa þetta, þá verða að vera þungbærari rök fyrir því en fram hafa komið um

kríuna og það verður að byggja á einhverjum skynsamlegum rökstuðningi.
    Loks er spurt og það er 11. og seinasta spurningin: Hvaða umfjöllun hefur ósk Bandaríkjamanna fengið í ríkisstjórn Íslands?
    Svarið er það að utanrrh. hefur á ríkisstjórnarfundi fyrir rúmri viku, ef ég man rétt, gert ríkisstjórn grein fyrir stöðu málsins. Á þeim tíma þegar það var gert lágu ekki fyrir, að mínu mati, fullnægjandi upplýsingar. Það sem lá fyrir var að sjálfsögu allt sem vita þurfti um forsögu málsins um þessi áform, um tilgang og fjölda o.s.frv., en á því tímabili hafði mér ekki verið tilkynnt um áformin að því er varðaði tímasetningu þessara áætlana. Á þeim tíma sem liðinn er síðan hefur mikil vinna verið lögð í að afla nauðsynlegra gagna sem að mínu mati hefðu auðvitað átt að liggja fyrir fyrir löngu til þess að koma þeim upplýsingum öllum á framfæri við hv. Alþingi og utanrmn. og að sjálfsögðu verður málið rætt aftur í ríkisstjórn áður en ákvörðun verður tekin.
    Virðulegi forseti. Ég vona að þessi svör við spurningum hv. þm. séu eftir atvikum fullnægjandi. A.m.k. eru þær upplýsingar gefnar eftir bestu samvisku og á grundvelli þeirra gagna sem ég hef getað aflað.
    Mér þykir rétt, virðulegi forseti, að bæta við örfáum orðum um nokkra þætti sem tengjast þessu máli.
    Það er í fyrsta lagi um fréttaflutninginn af málinu. Sumir voru kannski þeirrar skoðunar að þetta væri hinn óttalegi leyndardómur og ætti að fara ákaflega leynt. Sannleikurinn er sá að fréttaflutningur af þessum fyrirhuguðu æfingum varaliðssveita og eldri æfingum hefur verið óvenjulega mikill. Í fyrsta lagi hefur hin almenna stefnumótun komið fram í skýrslum utanrrh., forvera minna hæstv., eins og ég hef þegar vikið að. Í annan stað hafa birst fréttir af þessum áformum, m.a. á sl. hausti í dagblöðunum Morgunblaðinu og Þjóðviljanum. Morgunblaðið hefur birt greinargóða lýsingu sjónarvotts af æfingunni 1987 sem reyndar fór fram þá í tíð þeirrar ríkisstjórnar frá 17. júní til 25. júní. Ég hef af því tilefni sérstaklega spurst fyrir um það af hálfu Suðurnesjamanna, af því ég var viðstaddur afmæli Keflavíkurbæjar um helgina ásamt með hæstv. forsrh. og fleiri góðum mönnum, hvort Suðurnesjamenn hefðu ekki orðið varir við þennan ófögnuð og þennan ófrið á hendur kríu. Og mér er sagt að það hafi ekki gefið sig fram einn einasti maður sem hafi vitað af þessu.
    Morgunblaðið hefur, eins og ég áður sagði, birt mjög ítarlegt viðtal við þann mann sem gegnir hershöfðingjastarfi þessara varaliðssveita sjálfboðaliða sem er afar fróðlegt. Þess vegna er spurning hvernig á því stendur að allt í einu í kringum 31. mars fréttamennsku sína birtir Ríkisútvarpið fréttir byggðar á einhverju innanhússtímariti landhersins í Bandaríkjunum og viðtöl við einhvern mann sem titlaður er Nelson, ekki flotaforingi heldur kapteinn. Ég hafði ekki haft í höndum þennan texta en varð mér úti um hann. Þar stendur hvergi neitt um að

þessar æfingar eigi að byrja á þjóðhátíðardegi. Þar eru engar tölur nefndar um fjölda liðssveita heldur mun þetta hafa komið fram í einhverju spjalli fréttamanns við umræddan Nelson, ekki flotaforingja. En það er rétt að taka það fram að öll aðalatriðin í þeirri frétt eru ósönn. Og það þarf að koma hér kirfilega fram.
    Í fyrsta lagi: Áformin, nú er ég ekki að tala um það sem verður einu sinni, áform Bandaríkjamanna voru aldrei önnur en þau að þessar liðsveitir kæmu hingað hið fyrsta aðfaranótt 18. júní. Í annan stað er það rangt að þetta séu mestu æfingar sem fram hafa farið á Íslandi frá stríðslokum. Ég vék að því í upphafi ræðu minnar að fjöldi í varnarliði var fyrr á árum, sérstaklega á milli 1950 og 1970, umtalsvert meiri en nú og þá fóru fram iðulega, ég hef ekki dagsetningar og nákvæma statistík yfir fjölda þátttakenda, en þá fóru fram iðulega æfingar sem tóku til mun meiri fjölda en hér er verið að ræða um þannig að það er líka rangt.
    Þá finnst mér, virðulegi forseti, rétt að víkja að mjög þýðingarmikilli spurningu sem ég tek mjög alvarlega og hún er þessi: Ef íslensk stjórnvöld, í ljósi þess sem á undan er gengið, mundu þrátt fyrir allt heimila að æfingar færu fram, hvort sem það væri á öðrum tíma með þátttöku færri eða eitthvað svoleiðis: er einhver leið að skoða það sem ögrandi aðgerð, ófriðsamlega rödd úr hjarta hinnar friðsömu Reykjavíkur á tímum afvopnunar, friðsamlegra samskipta og sátta? Ef svo væri mundi ég taka það mjög alvarlega því að ég vil að það sé hafið yfir allan vafa að af hálfu þessarar ríkisstjórnar eins og annarra ríkisstjórna grannlanda okkar, bandalagsríkja og reyndar ríkisstjórna Varsjárbandalagsins, þá gerum við okkur af mikilli og djúpri einlægni vonir um að nú séu fram undan þáttaskil í afvopnunarmálum og von um nýja tíma í gömlu Evrópu, um það að endi verði bundinn á kalda stríðið og að upp hefjist tími gagnkvæms trausts og öryggis í Evrópu á grundvelli afvopnunarsamnings, ekki hvað síst afvopnunarsamningsins í Vín.
    Er einhver hætta á því að Íslendingum verði af einhverju alvörugefnu fólki sem mark er takandi á núið um nasir að æfingar af þessu tagi spilli þessum afvopnunarferli eða dragi úr trúnaði manna um atfylgi íslenskra stjórnvalda við afvopnunarandann og afvopnunartillögurnar?
    Ja, til þess að svara því lét ég draga saman upplýsingar um hvað er að segja þá um slíkar ögrandi aðgerðir annarra kotþjóða hérna í kringum okkur. Er það virkilega svo að t.d. bræðraþjóðir okkar Danir og Norðmenn fari fram með
offorsi, ófriði og djöfulskap og séu að ögra friðsömum þjóðum Sovétríkjanna og Austur-Evrópu á slíkum tímum? Auðvitað er þetta ekkert tæmandi, en ég held að það sé gagnlegt að það komi fram að æfingar þar sem verið er að þjálfa varnar- og viðbúnaðarsveitir, þjálfa ýmis varnarkerfi, fjarskiptakerfi, almannavarnakerfi, hjúkrunarkerfi, liðsflutningakerfi á hættutímum, fara fram með reglubundnum hætti á hverju einasta ári og stundum oftar en einu sinni á ári

í hverju einasta aðildarlandi Atlantshafsbandalagsins og að sjálfsögðu í hverju einasta aðildarlandi Varsjárbandalagsins, bara í miklu stærri stíl. Það hefur verið samið um framkvæmd slíkra æfinga ef þær eru af þeirri stærðargráðu að það þyki taka því að nefna þær og sú tilkynningarskylda varðar æfingar með þátttökufjölda fleiri en 3200 einstaklinga. Æfingar sem eru með minni þátttöku en þeirri þykir ekki taka að nefna því þær þykja svo smávægilegar og er ekki hirt um það við samningaborðið að fara fram á tilkynningarskyldu hvað þá kröfu um að fulltrúar gagnkvæmra aðila séu viðstaddir eins og er um aðrar æfingar. Í ljósi þessa virðast þær æfingar sem þegar hafa farið fram, ég verð nú að segja það eins og er, vera svo smávægilegar að um þær gildir ekki tilkynningarskylda og það hefur enginn gert við þær athugasemdir og enginn óskað eftir að fylgjast með þeim aðrir en þeir sem beint eiga hlut að máli.
    Að því er varðar aðrar æfingar sem fram hafa farið er rétt að geta þess arna. Í fyrsta lagi um Danmörku sem er lítið land og friðsamt. Þar fer fram annað hvert ár æfing sem lýst er að hafi það markmið að æfa viðbrögð við innrás í Danmörku og er kölluð OXOEL-æfing, haldin að hausti annað hvert ár, og þátttakendur eru að sögn, og ég hef ekki fyrir því skriflegar heimildir, nokkrir tugir þúsunda.
    Um Noreg er það að segja að þar fara fram með reglubundnum hætti æfingar sem varða allt stjórnkerfið, svokallaðar pappírsæfingar, bæði sjálfstætt og því næst í tengslum við svokallaðar vintex/symex NATO-æfingar sem varða ríkisstjórn, hernaðaryfirvöld, haldin annað hvert ár og reyndar í öllum NATO-löndum nema t.d. á Íslandi. Nýjasta dæmið um heræfingar í Noregi er svokölluð Teamwork-æfing sem fram fór á síðasta ári og náði reyndar frá austurstönd Bandaríkjanna og Kanada yfir Atlantshaf til Noregsstranda. Þátttakendur í þeirri æfingu voru 45 þúsund. Það voru 500 flugvélar og 200 skip, heilt flugvélamóðurskip og níu þjóðir tóku þátt í æfingunni. Tilgangurinn var að æfa varnir sjóliðanna yfir Atlantshaf, sem kallað hefur verið líflína Atlantshafsbandalagsins, einnig að æfa varnir á Noregshafi og þar á meðal liðsflutninga með landgönguprömmum við Noregsstrendur. Þar voru einnig sett á svið innrás í Noreg og viðbrögð og varnir við slíkri innrás. Þessi æfing er haldin annað hvert ár. Í tengslum við hana er haldin á hverju ári í Norður-Noregi sérstök æfing sem heitir Barfrost.
    Því næst er um að ræða æfingar á Norður-Atlantshafi og Noregshafi með þátttöku margra Atlantshafsbandalagsríkja. Einni slíkri æfingu er nýlokið undan ströndum Noregs, fór þar fram milli 6. og 15. mars. Hún er haldin annað hvert ár. Í henni tóku þátt 15 þúsund manns, 30 skip, fjöldi flugvéla og flugvélamóðurskip. Æfingin sú fór aðeins fram á sjó. Annað hvert ár er síðan haldin svokölluð Cold Winter-æfing í Noregi og við Noregsstrendur með þátttöku um 45 þúsund manns.
    Ef vikið væri að öðrum löndum er kannski sérstaklega ástæða til að víkja að Vestur-Þýskalandi og

Mið-Evrópusvæðinu. Þar er haldin á hverju ári í Vestur-Þýskalandi, Belgíu og Hollandi allsherjaræfing sem heitir Reforcer með þátttöku 50 þúsund einstaklinga, aðallega Þjóðverja og Bandaríkjamanna.
    Síðan má þess geta að tugir æfinga eru haldnar reglulega um alla Norður-Evrópu. Í janúar t.d. voru haldnar átta æfingar í Norður-Evrópu.
    Ég held að þetta dugi til að sýna fram á að það er óskaplega mikill misskilningur ef menn halda að Íslendingar fari hér fram með einhverju óskaplegu offorsi og láti ófriðlega. Æfingar af þessu tagi eru reglubundinn þáttur í því sameiginlega öryggiskerfi sem við erum þátttakendur í og það er engin leið að halda því fram að við meinum eitthvað með því að hafa gert samning við annað ríki um að annast varnir Íslands eða séum samningsbundnir innan þessa varnarkerfis Atlantshafsbandalagsins ef við einir þjóða, sem meira að segja þurfum í þeim varnaráætlunum á liðsauka að halda, segjum: Við viljum að vísu hafa hér varnarlið, en við viljum ekki vita af því og það má ekkert aðhafast til þess að æfa í reynd við raunverulegar aðstæður viðbrögð sín við því sem kann að gerast og þarf að gera á viðsjárverðum hættutímum sem geta gerst fyrr en varir án okkar tilverknaðar. Það er nú svo einfalt sem það er.
    Í ljósi þess arna held ég að ég hafi sagt nóg til þess að færa að því nokkur rök að engar æfingar geta með engu móti skoðast sem ögrun við einn eða neinn, enda hefur því hvergi verið haldið fram af nokkrum einasta aðila sem málið varðar.
    Og í annan stað að lokum: Þetta eru að sjálfsögðu okkar eigin ákvörðunarefni. Spurningin er ósköp einfaldlega þessi: Telja Íslendingar þörf á því að á þeirra vegum sé sett upp áætlun sem lýtur að neyðar- og almannavarnaáætlunum á viðsjárverðum tímum? Höfum við undirbúið það nægilega
vel sjálfir? Höfum við slíka viðbúnaðaráætlunargerð? Viljum við meðan við höfum varnarlið í landinu samhæfa það að einhverju leyti sams konar æfingum á vegum þess sem varða í fyrsta lagi varnir utan varnarsvæðanna en því næst varnir lykilmannvirkja, orkuvera, samgönguæða, lykilstofnana og hugsanlega áætlana um flutning óbreyttra borgara af hættusvæðum ef á þarf að halda. Er einhver hér inni sem segir: Við eigum ekkert að fást um slíkt. Við eigum bara að segja: Den tid, den sorg?
    Það er út frá þessu sjónarmiði sem ég hef við nánari skoðun talið rétt að leggja á það áherslu, jafnvel strax við þessa æfingu, að það fari fram þessi minni háttar hliðaræfing á fjarskiptakerfum almannavarnakerfisins og varnarliðsins þó það kunni að kalla á að einhverjir sem framkvæma þá æfingu fari út fyrir varnarsvæðið. Ég mundi út frá mínum bæjardyrum séð eftir allnákvæma skoðun þessa máls telja að við Íslendingar ættum nú þegar að undirbúa betur okkar eigin almannavarnaáætlun og undirbúa það í tæka tíð að gera kröfu um það með hvaða hætti við viljum út frá íslenskum hagsmunum og út frá öryggi íslenskra borgara að æfingar af þessu tagi verði framkvæmdar í framtíðinni og það reyndar strax með

næstu æfingu.
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til að orðlengja þetta frekar. Ég vil að lokum taka undir það, sem fram kom í skýrslum forvera minna til Alþingis, í skýrslum til þeirra hæstv. fyrrv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar og Steingríms Hermannssonar, sem fram kom í þeirra máli, að það er rétt stefna af hálfu íslenskra stjórnvalda. Við þurfum að búa svo um hnútana að við getum lagt sjálfstætt mat á þessa hluti á grundvelli íslenskra hagsmuna, á grundvelli mats, skoðana, ábendinga og tillagna íslenskra starfsmanna. Og ég lýk þessari ræðu minni og þessum svörum mínum með því að segja að enginn vefengir það að þetta er algerlega á okkar valdi sjálfra að ákveða og það hlyti þá að verða meginefni þessarar umræðu að leiða í ljós hvort Alþingi metur það svo að hér sé um að ræða einhverja stríðsleiki, ögranir eða aðgerðir sem lýsa vilja ábyrgra stjórnvalda til að búa sig undir hið versta um leið og við vonum hið besta.