Söluskattur
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég veit ekki, vegna þess að mér vannst ekki tími til þess að vera hér fyrri hluta fundarins, hvort ég hafi rétt til þess að óska eftir því að fá einhvern ráðherra hingað í deildina. Það er vissulega ástæða til þess. Við erum hér að ræða þann mikla framfærslukostnað sem er í þessu landi og við vitum að matarskatturinn er mjög viðkvæmur í daglegum neysluvenjum fólks. Við sjáum líka fram á að verkfall blasir við hér á næstu dögum og hæstv. fjmrh. hefur lofað mönnum að þeir skuli fá einn skitinn þúsund króna seðil í umslagið sitt ef þeir vilji vera svo góðir að fara ekki í verkfall. Svo eru þeir önnum kafnir núna, þrímenningasambandið síðara, hið síðasta, þriðja og versta, formaður Verkamannasambandsins, formaður Starfsmannafélags ríkisstofnana og formaður BSRB, Guðmundur J. Guðmundsson, Einar Ólafsson og Ögmundur Jónasson, að gera nú allt sem þeir lifandi geta fyrir hann Ólaf Ragnar vin sinn, hæstv. fjmrh., til þess að ekki komi til verkfallsins því það er mönnum löngu orðið ljóst að þessir þrír menn bera ekki fyrir brjósti hag þess launafólks sem þeir eru kjörnir til að gæta hagsmuna fyrir. Maður heyrir vögguljóðin í formanni Verkamannasambandsins í gegnum sjónvarpið þegar maður horfir framan í hann eða hann þenur sig út á síðum Tímans og ég hygg að Ögmundur Jónasson hafi ekki verið jafnorðvar og núna frá því hann fæddist til að segja ekki neitt sem gæti komið sér illa fyrir ríkisstjórnina.
    Þess vegna væri mjög fróðlegt að fá um það að vita hvort einhver ráðherra sé hér í húsinu sem maður gæti beint beinum fyrirspurnum til. Það hafði verið ætlan mín m.a. að ræða þetta mál undir öðrum dagskrárlið, en ég sé að það er ekki verra að ræða það undir einmitt þessum dagskrárlið, söluskattinum, sem er alveg dæmigerður fyrir þá skattpíningu sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. En ég get fallist á það að umræðu verði frestað þannig að hún verði tekin fyrir fyrst í fyrramálið, fyrsta dagskrármál á morgun. ( Forseti: Það munu vera tveir ráðherrar staddir hér í húsinu og ég hef óskað eftir því að þeir komi.) Það er alveg ljómandi.
    Það frv. sem hér liggur fyrir er auðvitað mjög einfalt í sniðum. Þar er gert ráð fyrir því að einungis skuli greiða 12% söluskatt af fiski og fiskmeti, kjöti og unnum kjötvörum, mjólk og mjólkurafurðum, eggjum, brauði, grænmeti og ávöxtum og er auðvelt að lesa í gegnum þessi orð að fyrir flm. vakir að ná fram einhverri lækkun á þessum nauðsynjavörum almennings.
    Það er gott að sjá að hæstv. menntmrh. gengur í salinn. Ég hygg að enginn maður hafi talað af meiri mælsku gegn matarskatti en einmitt þessi hæstv. ráðherra meðan síðasta ríkisstjórn sat að völdum og það væri auðvitað mjög gagnlegt fyrir hann sjálfan og þá menn sem vilja standa á bak við hann í pólitík, gagnlegt fyrir þá menn sem halda að Alþb. sé verkalýðsflokkur að spila fyrir þá nokkrum sinnum í viku sönginn um matarskattinn eftir Svavar Gestsson

og virða svo fyrir sér hæstv. ráðherrann núna sem kominn er í staðinn fyrir þingmanninn. Ráðherrann sem hljóp í stólinn vegna þess að Alþfl. og Framsfl. gátu ekki hugsað sér að vinna með Sjálfstfl. af því að Sjálfstfl. vildi beita sér fyrir því að lækka verð á matvælum í landinu í septembermánuði sl. Ráðherrann sem sagði þegar hann var hér nýkominn í ráðherrabuxurnar og talaði hátt að hann væri kominn í ríkisstjórnina til þess að bjarga fyrirtækjunum, sem íhaldið hafði komið á vonarvöl, frá því að fara á hausinn. Síðan hefur lítið heyrst í honum eftir jólin. Hæstv. ráðherra talaði ekki mikið um það hér á þinginu nú í vikunni þegar í einu dagblaðanna var heill dálkur einungis með gjaldþrotatilkynningum um fyrirtæki í veitingarekstri, sem auðvitað er komið til af því að fólk hefur hreinlega ekki efni á því lengur að fara út að borða og auðvitað líka alveg deginum ljósara að ferðamenn veigra sér við því að koma hingað til landsins í alla þá dýrtíð sem hér er, þegar saman hefur farið hækkandi matarverð og röng gengisskráning. Það þýðir auðvitað að áhrifin verða tvöföld hjá þeim ferðamönnum sem hér vildu eyða einhverjum tíma í fögru umhverfi.
    Þeir í Borgfl. leggja til að aðeins lítill hluti af matvælunum lækki í verði. Þeir ganga í rauninni mjög skammt. Það eru aðeins nokkrar vörutegundir, fyrst og fremst landbúnaðarafurðir en svo brauð, grænmeti og ávextir að auki. Ekki hygg ég að það væri mikið fyrir ríkissjóð þó hann mundi verða fyrir einhverjum áföllum af þessu tagi til að reyna að lina helstu þjáningar þess fólks sem hefur minnst handa á milli, enda var ástæðan fyrir því að niðurgreiðslur voru auknar nú 1. apríl, þvert ofan í ákvæði fjárlega, til komin vegna þess að ríkisstjórnin gerði sér grein fyrir því að enn frekari hækkanir á matvörum mundu valda því að verðbólgan og þar með lánskjaravísitalan færi svo upp úr öllu valdi að launþegar og launamenn mundu undir engum kringumstæðum við una.
    Nú hefur formaður Verkamannasambandsins talað um það að hann vilji beita sér fyrir því að verðstöðvun verði í landinu og með þeim hætti yrði hægt að ná samkomulagi við vinnuveitendur um mjög hóflegar launahækkanir til 40 daga. Nú langar mig að ganga lengra en formaður Verkamannasambandsins sem er orðinn svo hógvær. Væri ríkisstjórnin reiðubúin til að taka til baka þessar hækkanir sem
hún hefur verið að beita sér fyrir? Hefur hæstv. menntmrh. gert sér grein fyrir því að verðbólgan er núna á þriggja mánaða grundvelli um 25--30%? Á sama tíma, síðustu 10 mánuði hafa launin ekki hækkað um eina einustu krónu að heita má, um 0,675% í febrúarmánuði eða eitthvað svoleiðis, á mánaðarlaunin í febrúar og svo önnur jafnmikil hækkun á mánaðarlaunin í mars og sú hækkun stendur, alls 1,225%. Þetta er náttúrlega engin hækkun. Þetta er auðvitað það sama og að hækka launin ekki nokkurn skapaðan hlut þegar við hugleiðum það að staðgreiðsluskatturinn var hækkaður meira en þessu nemur um áramótin. Í krónum talið eru því fjölskyldutekjur lægri nú en þær voru í

júnímánuði, ef ekki hefur verið um sérstakar flokkatilfærslur að ræða vegna aldurshækkana eða af einhverjum þvílíkum ástæðum, þ.e. það sem fólkið hefur út úr því, heimilin hafa út úr því, og verðbólgan um 30%.
    Það er þess vegna fullkomin ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hyggist gera í öllu þessu. Er ráðherra nú til viðtals um að stíga skrefið með Sjálfstfl. og Borgfl., að við höfum tvö þrep í söluskattinum? Eða ætlar hann að sigla upp að framsókn og krötum og halda sig við það að okra á matvælunum? Við höfum ekkert farið dult með það í Sjálfstfl. að við töldum eftir á að það hefði verið rangt af okkur að ganga inn á það hjá Alþfl. að hækka matarskattinn og leggja hann á eins og við gerðum. Það liggur alveg ljóst fyrir að við töldum eftir á að það hefði verið rangt. Og þær meginástæður sem við færðum fyrir því voru í fyrsta lagi þær að matarverð er mjög hátt hér á landi, óviðunandi hátt. Í öðru lagi hefur komið í ljós að matarverðið veldur því að við náum okkur ekki á strik í sambandi við ferðamannaiðnaðinn. Fólk sem villist hingað flýtir sér í burt á nýjan leik undir eins og það fær fyrsta reikninginn á veitingastaðnum. Til langframa hefur þetta komið fram í því að gjaldþrotum hefur fjölgað verulega og mikið atvinnuleysi fer nú að grafa um sig hjá þeirri stétt sem lifir af ferðamannaiðnaði. Ég hygg því að nauðsynlegt sé að fá svar við því frá hæstv. ráðherra, og er sjálfsagt að reyna að ganga eftir því í þeirri nefnd, sem fær málið til meðferðar, hvort ríkisstjórnin hugsi sér nú að lækka matarskattinn, hvort hægt sé að tala við Alþb. um það að lækka matarskattinn.
    Ég hygg að ráðherrum Alþb. veiti ekki af að reyna eitthvað að hressa upp á andlitið. Við höfum orðið vitni að því í Þjóðviljanum hvernig hinir óbreyttu alþýðubandalagsmenn hafa stofnað til þess að draga fjmrh. fyrir dóm í flokksstjórninni, láta hann standa fyrir máli sínu, láta hann gera grein fyrir því hvernig á því standi að hann skuli hafa tekið þann kostinn að skera laun opinberra starfsmanna niður fyrir fram, fólk hefur verið að fá þetta 6, 8 og 10 þús. kr. í launaumslögunum, borið saman við þann málflutning sem þessi flokkur hafði uppi þegar þetta var gert fyrir nokkrum árum af fjmrh. Sjálfstfl.
    Fólk vill fá að vita hvort formaður Alþb. sé kannski eins og formaður Borgfl. kominn í biðröðina að ganga í Sjálfstfl. því að við vitum að þangað liggur straumurinn núna og auðvitað gæti sumum dottið í hug að fjmrh. væri með þessu að reyna að koma sér í mjúkinn. Hitt er a.m.k. öldungis ljóst að þessi framkoma á ekkert skylt við það sem Þjóðviljinn hefur kallað verkalýðspólitík. Það væri fróðlegt í þessu samhengi að fá líka upplýsingar um það frá menntmrh. hvort hann telji að þetta framtak hæstv. fjmrh. hafi orðið til þess að greiða fyrir þeirri kjaradeilu sem nú stendur milli fjmrh. og Kennarasambanmdsins. Telur hæstv. menntmrh. að þessi ákvörðun fjmrh. hafi orðið til þess að setja meiri hörku í þá deilu en ella mundi? Eða telur hann að

þetta skipti kannski ekki máli, þetta sé aukaatriði, það sé alveg nákvæmlega sama hvernig Alþb. hagi sér við kennara af þeirri einföldu ástæðu að 80% þeirra séu hvort sem er búin að sverja Alþb. hollustu, eins og einn af helstu mönnum Alþb. hér í Reykjavík sagði þegar hann vann hvað mest að því að fjmrh. skyldi þannig koma í bakið á þeirri stétt sem þessi alþýðubandalagsmaður taldi að væri kannski sá hópur sem fyrst og fremst vildi fylgja Alþb. að málum.
    Nú vil ég að vísu mjög draga það í efa að þetta mat þessara forustumanna Alþb. sé rétt, að kennarar upp til hópa séu alþýðubandalagsmenn, ég vil mjög draga það í efa. En hitt veit ég að þeir alþýðubandalagsmenn hafa talið sér trú um það og þeir þykjast um það vissir.
    Ég veit ekki hvort ástæða er til að segja mikið meira um þetta. Auðvitað munum við sjálfstæðismenn beita okkur fyrir því að þau frv. sem mega verða til þess að lækka þessa vinstri skatta hér í þinginu fái greiða meðferð. Ég mun auðvitað ræða það við Borgfl. hvort hann sé reiðubúinn til þess að færa út þessa tillögugrein þannig að hún verði víðtækari en eins og hún stendur hér í þskj. 603. Ég veit ekki hvort Borgfl. er reiðubúinn til þess að koma með þeim hætti til móts við okkur sjálfstæðismenn. En hitt er líka jafnvíst að þessi tillaga er til bóta og ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því í fjh.- og viðskn. að þetta frv. fái ekki verri né seinni afgreiðslu í nefndinni heldur en t.d. stjórnarfrv. um vaxtalög sem vísað var til nefndarinnar nú fyrr í dag.
    Ég verð líka að láta í ljós ánægju mína yfir því að hæstv. fjmrh. skuli hafa lýst því yfir að vilji hans standi til þess að lög um virðisaukaskatt megi taka gildi nú 1. janúar. Það er enginn vafi á því að virðisaukaskatturinn
kemur miklu betur við bæði útflutningsgreinarnar og samkeppnisgreinarnar en söluskatturinn. Og auðvitað er það til langs tíma miklu þýðingarmeira að okkur takist í stjórnarandstöðunni að knýja ríkisstjórnina til þess að hafa þrepin í virðisaukaskattinum tvö. Ég hafði búist við því að ég ætti mér bandamann í hæstv. menntmrh. þegar maður var að reyna að þoka matarskattinum niður. Mér hafði satt að segja aldrei dottið í hug að hann mundi fara inn í ríkisstjórn undir þeim formerkjum að það yrði hans sérstaka áhugamál að halda uppi matarverði hér, að hann vildi gerast sérstakur talsmaður matarskattsins og að Alþb. skyldi lúta svo lágt að formaður þess skuli stjórna þeirri skattheimtu núna sem þessi hæstv. ráðherra talaði sem harðast gegn á síðasta þingi. Slík er auðmýking Alþb. að formaður þess stjórnar skattheimtunni. Maðurinn sem stóð uppi á kassanum, hann stjórnar skattheimtunni. ( Gripið fram í: Karlinn á kassanum.) Karlinn á kassanum, sem kallaður var hér í gamla daga, var predikari sem meinti það sem hann sagði. Hann gat verið stóryrtur en það sem hann sagði kom frá hjartanu og hann trúði því sem hann sagði og hefði ekki beygt sig. En sá maður sem stóð á kassanum út af matarskattinum stóð þar uppi bara til að blekkja, til að segja hluti sem hann ekki meinti og

hljóp svo í skjól Steingríms Hermannssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar upp í fjmrn. til þess að stjórna skattheimtunni og leggja svo á nýja skatta ofan í kaupið, skerða lífskjörin.
    Hvað ætli lífskjörin hafi rýrnað mikið núna þessa tíu mánuði? Kaupið hækkaði síðast 1. júní. Síðan var staðgreiðsluskatturinn hækkaður um áramótin. Hæstv. menntmrh. sagði áðan að launin hefðu hækkað um 1,25% í mars. Hvað ætli það sé mikið upp í? Það er talað um fátækratíund. Kannski þetta sé fátækratíundin, kannski hún skili nú aftur ríkisstjórninni fátækratíundinni, einum tíunda af því sem hún er búin að taka.
    Það er enginn vafi á því að lífskjörin hér í landinu hafa rýrnað um u.þ.b. 15% á þessum tíu mánuðum, um 1*y1/2*y% á mánuði. Það er enginn vafi á því. Það er heldur enginn vafi á því að ríkisstjórnin hefur enga tilburði sýnt til þess að leysa þá kjaradeilu sem nú er uppi. Og það sem verst er: Þrátt fyrir það að tilkynningum um gjaldþrot fari mjög fjölgandi, enginn dýrðardagur rennur svo upp að ekki berist gjaldþrotatilkynning til sýslumannsins, þá hefur þessi ríkisstjórn ekki verið fáanleg til þess að gera grein fyrir neinum þeim ráðstöfunum hér í þinginu sem megi verða til þess að auka atvinnuöryggið, engum þeim ráðstöfunum sem megi verða til þess að treysta byggðarlögin úti á landi sem nú er að blæða út.
    Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð þá talaði hæstv. menntmrh. mikið um það að hann ætlaði að bjarga fyrirtækjunum úti á landi, fyrirtækjunum sem íhaldið var búið að koma á kné. Hann hefur að vísu látið slíkt undir höfuð leggjast. En mig langar að spyrja hann að öðru: Veit þessi hæstv. ráðherra hvernig á því stendur að fólkið úti á landsbyggðinni er ekki baráttuglatt núna? Veit hann hvernig á því stendur --- ja, ég vil nú þakka fyrir það, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. kemur hér í salinn og vil gjarnan beina til hans nokkrum spurningum af því tilefni. Ég veit að hæstv. forsrh. heyrir mál mitt og efast ekki um að hann muni svara þeim spurningum sem til hans verður beint.
    Ég óska eftir því, herra forseti, að náð verði í hæstv. forsrh. Hann mátti hlýða á mál mitt, hann vissi það að ég bað um það að hann svaraði hér fyrirspurnum, og síðan hleypur hann út eins og rakki! --- Er ekki best bara að halda umræðunni áfram á morgun og það verði fyrsta mál á dagskrá, herra forseti, og reyna að sjá þá um að forsrh. sé við. ( Forseti: Hæstv. forsrh. mun vera að koma.)
    Ég er þakklátur hæstv. forsrh. fyrir að koma í deildina. Ég vil fyrst rifja það upp að hæstv. forsrh. kallaði það í septembermánuði djúpa rýtingsstungu í bak formanns Alþfl. þegar við sjálfstæðismenn stungum upp á því að söluskattur á matvælum yrði lækkaður. Og ég man eftir því að í sjónvarpsþætti var hér um bil eins og maður sæi blóð renna þegar maður hlustaði á þau ummæli hæstv. forsrh. að hún hefði verið djúp, rýtingsstungan. Nú var ég að lýsa því áðan hversu auðmýkjandi það hefði verið fyrir formann Alþb. að hann skyldi hafa tekið það hlutverk að sér

í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar að vera skattheimtustjórinn eftir að þessi sami ráðherra hafði stigið upp á kassa fyrir utan --- ég held, herra forseti, að það þýði ekki annað en reyna að biðja um það að þingmenn geti hér talað nokkur orð við hæstv. forsrh. og ég vil óska eftir því að hann verði hér kl. 2 á morgun og ég geti haldið áfram ræðu minni. Það er ekki nokkur leið að flytja ræðu hér þannig að forsrh. sé ekki við. Hann á að vera hér og gegna þingskyldum sínum. Það er a.m.k. þá lágmark að ( SalÞ: Er hægt að fá að vita hvort hann ætlar að ...) maðurinn láti vita um það hvort hann ætlar að svara eða ekki. Hann fer hér bakdyramegin út úr salnum til þess að laumast burtu, hann er hér á tætingi í hliðarsölum og gengur svo út. Ég vil óska eftir því að forseti sýni þá rögg og þinginu þá virðingu að við megum halda fundinum áfram kl. 2 á morgun og forsrh. verði þá við hér og svari fyrirspurnum. Ég held að þessi vinsælasti stjórnmálamaður landsins geti rétt talað við venjulega stjórnmálamenn þó að þeir séu ekki eins
vinsælir. ( Forseti: Það hafði ekki verið óskað eftir nærveru hæstv. forsrh. fyrr en nú og ég óskaði eftir að hann kæmi hér þegar hv. ræðumaður bað um það, en þá tjáði hann mér að hann væri búinn að boða áríðandi fund og stefna til sín mönnum þannig að hann gæti ekki mætt núna. Ég mun að sjálfsögðu, ef flm. þessa frv. óskar eftir því að umræðunni verði frestað, verða við því. En að öðru leyti tel ég ...)
    Herra forseti. Ég er alveg ánægður með það ef hæstv. forseti vill heldur gefa mér orðið utan dagskrár á morgun um launamálin, stöðuna í kjaramálunum, þá er ég mjög ánægður yfir því. Þá er ég síður en svo á móti því að þetta frv. gangi til nefndar og vildi gjarnan að við hér í deildinni tækjum upp almenna umræðu um kjaramálin, almenna umræðu um þá stöðu sem í henni er. Ég vil gjarnan fá upplýsingar um það hvort heldur ég eigi að gera hlé á ræðu minni í sambandi við þetta frv. eða hvort hæstv. forseti vill heldur snúa þessari umræðu upp í það að við tölum hér á morgun um kjaramálin. Þetta er auðvitað ekkert vansalaust hvernig haldið hefur verið á þeim málum. ( Forseti: Eins og ég sagði, ef flm. frv. fellst á það, þá mun ég fresta málinu, en ég tel eðlilegt að hann segi meira til um það.) ( Gripið fram í: Ég fellst á það.) Þá fresta ég ræðu minni og það verður þá fyrsta mál á morgun. Ég skil hæstv. forseta svo að við getum haldið þessari umræðu áfram í byrjun fundar á morgun og ég vænti þess að stjórnarandstöðunni verði sýnd sú tillitssemi. Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort sú tillitssemi verði sýnd að þetta verði fyrsta mál á morgun.