Rannsóknir í þágu atvinnuveganna
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Tilgangur frv. er að veita Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins heimild til að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum sem stofnuð eru til að hagnýta niðurstöður rannsókna stofnunarinnar í þágu atvinnuveganna. Með því þykir tryggara að bæta tengsl stofnunarinnar við atvinnulífið og fyrirtæki í sjávarútvegi. Heimild sem þessi er því líkleg til þess að verða bæði atvinnulífinu og stofnuninni til hagsbóta og stuðla að því að rannsóknir nýtist betur.
    Í frv. eru sett þau skilyrði fyrir þátttöku stofnunarinnar í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum að þar sé um að ræða hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð þannig að áhætta stofnunarinnar verði ávallt takmörkuð við hlutafjárframlög. Einnig er gert ráð fyrir að aðild hennar verði hverju sinni háð samþykki stjórnar Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og sjútvrh.
    Á undanförnum árum hafa rannsóknastofnanir sem vinna að verkefnum í þágu atvinnuveganna lagt æ meiri áherslu á að starfa með fyrirtækjum við úrlausn tiltekinna vandamála til þróunar á afurðum. Lögð hefur verið á það áhersla að fyrirtækin taki í auknum mæli þátt í fjármögnun þessara rannsókna, enda er það talin viss trygging fyrir því að verkefnanna sé þörf og að niðurstöður þeirra séu nýttar af atvinnugreinunum. Þannig hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins á undanförnum árum aukið sértekjur allnokkuð og voru þær t.d. á síðasta ári um 40% af heildartekjum. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur því breyst með svipuðum hætti og gerst hefur meðal sambærilegra stofnana í nágrannalöndunum.
    Verði frv. þetta að lögum er talið að Rannsóknastofnunin geti náð enn betri árangri en áður við að koma nýjum hugmyndum á framfæri í atvinnugreininni og fylgja þeim betur eftir allt þar til þær eru farnar að skila beinum fjárhagslegum ávinningi eða a.m.k. þangað til unnt verður að meta viðskiptahæfni hugmyndarinnar. Í mörgum tilfellum er um að ræða þróun á nýstárlegum afurðum eða tækjum er hefðbundin atvinnufyrirtæki telja of mikla áhættu fólgna í að fara beint út í framleiðslu á. Það hefur færst í vöxt í iðnríkjum Vesturlanda á undanförnum árum að rannsóknastofnanir standi að stofnun slíkra rannsóknar- og þróunarfyrirtækja sem hafa það að markmiði að taka hugmyndir sem fæðst hafa á rannsóknastofnuninni og prófa hve vel þær standast úti í atvinnulífinu. Þegar þróa á nýjar hugmyndir með þessum hætti er yfirleitt um nokkurn fórnarkostnað að ræða, jafnvel í nokkur ár, þar til ætla má að hagnaður fari að sjást.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frv. hefur Háskóli Íslands og Iðntæknistofnun Íslands þegar fengið lagaheimild sem þessa og eiga nú hlut í fyrirtækjum sem vinna að því að koma nýjum vörum í framleiðsluna. Niðurstöður nokkurra rannsóknaverkefna Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins

eru nú komnar á það stig að ráðlegt þykir að stofna þróunarfyrirtæki um þær til að láta reyna á gildi hugmyndanna á markaðnum. Sem dæmi má nefna að verði frv. þetta að lögum gefst Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins möguleiki til að verða hluthafi í fyrirtæki er vinnur að framleiðslu ensíms úr fiskslógi í samvinnu við Háskóla Íslands og aðila úr atvinnulífinu.
    Herra forseti. Ég vildi að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.