Söluskattur
Miðvikudaginn 05. apríl 1989

     Halldór Blöndal (frh.) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að gefa sér tíma til að koma til þessa fundar og svara nokkrum fyrirspurnum sem óhjákvæmilega hljóta að koma upp í hugann í sambandi við það mál sem hér er til umræðu og í tengslum við þær viðræður sem nú fara fram milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins og opinberra starfsmanna í sambandi við kjarasamninga.
    Ég vil þá fyrst taka fram að samkvæmt rekstraráætlun sem samtök fiskvinnslustöðva sendu öllum ráðherrum 22. mars sl. kemur fram að bæði frysting og söltun eru rekin með halla um þessar mundir og er það svo metið af samtökum fiskvinnslustöðva að botnfiskvinnslan í heild sé rekin með 7,2% halla um þessar mundir og tel ég þó vegna samtala sem ég hef átt við ýmsa menn í saltfiskvinnslunni að hallinn þar sé verulega meiri en þessu nemur, þ.e. í söltuninni, vegna þess að nýjar reglur um stærðarmörk, nýjar flokkunarreglur valda því að bæði leggst meiri kostnaður á saltfiskvinnsluna en áður og eins liggur það fyrir að sérstaklega á sumum landsvæðum flokkast saltfiskurinn verr en áður. Ég hygg að það sé ekki ofsögum sagt að botnfiskvinnslan í heild sé nú rekin með 2,7% halla. Þó liggur fyrir að þessi staða er fölsk að því leyti að greiðslum er haldið uppi úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins til frystiiðnaðarins um 5% og þar fyrir utan var fiskvinnslunni greiddur uppsafnaður söluskattur sem nú nemur um 1% af útflutningsverðmæti frystingar og söltunar, en mun lækka fyrst um 1% í júní nk. Við erum þar að tala um 6% greiðslur sem haldið er uppi til fiskvinnslunnar úr ríkissjóði til frystingar þannig að ef þær greiðslur féllu niður mundi hallinn af botnfiskvinnslunni vera um 8,7% ef greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins yrði hætt. ( SkA: Saltfiskurinn mun éta upp sína inneign.) Ég er að tala þarna um frystinguna já og það er talið að saltfiskurinn muni éta upp það sem hann á í sjóði nú á þessu ári.
    Á sama tíma og þetta gerist berast þingmönnum þær fréttir í Ríkisútvarpinu að ríkisstjórnin eigi nú í samningaviðræðum við opinbera starfsmenn og var ekki annað að heyra á formanni BSRB í útvarpsfréttum nú um hádegið en hann væri orðinn eins konar yfirráðherra. Nú var hann þar að tilkynna þjóðinni að hann mundi senda ríkisstjórnina með frumvörp um hvaðeina inn á þingið á hausti komanda. Það var svo að heyra að þetta væri um svo margvísleg efni að formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sá ekki ástæðu til að sundurgreina hvaða þættir það væru eða hvaða mál þetta væru sérstaklega sem hann hygðist senda hæstv. fjmrh., vin sinn, með inn á þingið þegar það kemur saman á hausti komanda.
    Á sama tíma og þetta gerist er svo að sjá á Þjóðviljanum í dag að það þokist nær samkomulagi. Hæstv. fjmrh. talar um að aukinn skilningur sé á milli ríkisstjórnarinnar og opinberra starfsmanna og um það

segir svo í Þjóðviljanum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eru taldar auknar líkur á að aðilar mætist einhvers staðar í kringum 5500 kr. mörkin, en BSRB hefur gert kröfu um 6500 kr. flata launahækkun. Líkur voru taldar á að formlegur fundur samninganefndar BSRB og ríkisins yrði haldinn í gærkvöld, en það var enn óljóst þegar Þjóðviljinn fór í prentun.``
    Svo var að heyra á formanni Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem hann væri bjartsýnn á að þessir samningar gætu tekist. Einhver gaukaði því að mér úti á Austurvelli að það væri talað um samninga til fjögurra mánaða og væri gert ráð fyrir því að laun opinberra starfsmanna mundu hækka um 2000 kr. þegar í stað og um 2000 kr. síðar á sumrinu og jafnframt var talað um það hér úti á Austurvelli að opinberir starfsmenn mundu fá 6500 kr. greiðslu sérstaklega við undirskrift. Við erum m.ö.o. að tala um hækkun á launum til lægstu launaðra opinberra starfsmanna, sem sambærilegir eru við launataxta fiskvinnslufólks, sem liggur einhvers staðar nálægt 10%. Ef þessi kostnaður bætist ofan á fiskvinnsluna til viðbótar þeim halla sem nú er hlýtur að vakna sú spurning hvernig atvinnuástandið verði úti á landi.
    Samtímis þessu liggur fyrir og hefur komið fram í viðræðum sem verkalýðsleiðtogar hafa átt við fjölmiðla að fólk utan af landi sé mjög uggandi út af sinni atvinnu um þessar mundir og greinilegt að landsbyggðin leggur mest upp úr því nú að halda atvinnuörygginu. Það kemur hins vegar í veg fyrir að aðilar vinnumarkaðarins geti náð samningum að engin stefna liggur fyrir frá hæstv. ríkisstjórn í efnahagsmálum eða atvinnumálum. Raunar má segja að það uggvænlega í sambandi við öll þessi tíðindi sé að á sama tíma og talað er um að hækka laun opinberra starfsmanna á þessum nótum virðist hæstv. fjmrh. hafa gert því skóna við opinbera starfsmenn að hér verði komið á svokölluðu fastgengi, að sjávarútvegurinn m.ö.o. fái hvorki bættan upp þann halla sem hann er nú í, hvað þá heldur að sjávarútveginum verði gert mögulegt að bæta kjör þess fólks sem er við fiskvinnsluna. Vitum við þó að þetta land okkar og velmegun þjóðarinnar sem það byggir stendur og fellur með afkomu sjávarútvegsins.
    Svo var að heyra á fréttum að hæstv. fjmrh. og yfirráðherann, formaður BSRB, hefðu komið sér saman um það fyrir utan fastgengið að hér skyldi verða
verðstöðvun. Jafnframt var talað um að vextir lækkuðu hæfilega. Nú er ég auðvitað mikill talsmaður þess að raunvextir lækki hér á landi. Ég vil þó benda á að vísitalan og samhengi hennar við launin hefur orðið launþegum þyngra í skauti en hitt þó raunvextir séu 2--3% hærri og ég vil líka benda á það að vísitöluhækkun lána hefur farið mjög illa með sjávarútveginn þegar fastgengisstefnu er haldið uppi. Það sem er kannski ógnvænlegast í sambandi við þessa hluti er að verðbólgan hér á landi er nú um 30% og þó hafa laun ekki hækkað í tíu mánuði fyrir utan þessi 0,6125% í febrúarmánuði og annað eins í marsmánuði þannig að launin eru nú 1,25% hærri en

þau voru í janúarmánuði, það er allt og sumt, en verðbólgan er í kringum 30%.
    Ég hlýt að lýsa áhyggjum mínum yfir því hvað fram undan sé. Einn mjög reyndur athafnamaður sem ég talaði við í morgun, raunar mikill framsóknarmaður, sagði við mig að ef þetta gengi fram, launahækkun eins og henni hefur verið lýst af formanni BSRB og maður skilur á Þjóðviljanum og fréttum að fjmrh. hefur talað um að hann gæti sæst á samhliða því að gengi verði haldið föstu, þá beri það dauðann í sér fyrir sjávarútveginn.
    Af þessum sökum vil ég spyrja hæstv. forsrh. í fyrsta lagi hvaða ráðstafanir ríkisstjórnin hafi í undirbúningi til að rétta af hallann í sjávarútveginum. Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé rétt, sem sagt er í fjölmiðlum, að ríkisstjórnin sé í þann mund að skuldbinda sig gagnvart opinberum starfsmönnum þannig að hér verði fastgengi fram á haust. Ég vil í þriðja lagi spyrja hæstv. forsrh. hvað hann telji hæfilega lækkun vaxta umfram það sem nú er. Í áliti Samtaka fiskvinnslustöðva er sérstaklega tekið fram að raunvextir hafi lækkað úr 9% í 8%. Það er auðvitað í áttina, en það er langt undir því sem hæstv. ríkisstjórn boðaði á sínum tíma. Ég vil í fjórða lagi spyrja hæstv. forsrh. hvort ríkisstjórnin muni beita sér fyrir lækkun á matvörum. Við Íslendingar höfum að mörgu leyti reynt að bera okkur saman við nágrannaþjóðir okkar í lífskjörum og í kaupgjaldi og það má segja að við séum sambærilegir við þessar grannþjóðir okkar að mörgu leyti, að langmestu leyti, ef undan er skilin matvaran fyrir heimilin. Matur er hér langtum, langtum dýrari en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Það sýnir okkur að sú ákvörðun var röng, sem við sjálfstæðismenn tókum með Framsfl. fyrir áeggjan Alþfl., að leggja matarskattinn á á sl. ári eða fyrir tveim árum. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvaða áætlanir séu uppi hjá ríkisstjórninni um að koma til móts við þá sem verst eru settir með lækkun matarverðsins. Og í síðasta lagi langar mig til að spyrja hæstv. forsrh. hvort einhverjar hugmyndir séu uppi um það í ríkisstjórninni að afnema ekknaskattinn, en það er það 25% álag á eignarskatt sem sérstaklega hefur verið lagt á ekkjur í landinu í sambandi við þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um eignarskattinn.