Söluskattur
Miðvikudaginn 05. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því að það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. að það er yfirlýst stefna ríkistjórnarinnar eins og hún lýsir sér í fjárlögum að laun hækki á þessu ári um 7%. Á sama tíma hefur hæstv. forsrh. ekki svarað einu einasta orði um það hvernig koma eigi til móts við rekstrarörðugleika fiskvinnslunnar. Og ég vil aðeins leiðrétta hjá hæstv. forsrh. að það er ekki rétt að saltfiskurinn samkvæmt útreikningi Þjóðhagsstofnunar, með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa, sé í hagnaði nú. Það er 1,3% halli á saltfisknum og eins og ég sagði er sú tala fölsk. Þannig að saltfiskurinn er ekki fyrir ofan núllið.
    Ég hef talað við fjölmarga fiskvinnslumenn og þeir eru ekki jafnbjartsýnir og ríkisstjórnin á það að fiskverð muni fara hækkandi einhvern tímann síðar meir á þessu ári. Það er auðvitað endalaust hægt að horfa á einhverjar ímyndaðar hækkanir í framtíðinni. Kjarni málsins er sá að fiskverkunin er rekin með tapi. Kjarni málsins er sá að þessi rekstrarafkoma er fölsk vegna þess að fiskvinnslan fær mjög verulegar greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði sem auðvitað er ógerlegt að halda áfram til lengri tíma litið. Það er hægt að hugsa sér það að halda uppi verðjöfnun á útflutningsframleiðslunni í einhvern takmarkaðan tíma og einhverjum takmörkuðum hluta hennar, en auðvitað erum við að breyta íslensku þjóðfélagi ef hugmyndin er sú að fara að reka fiskvinnsluna almennt með hagnaði.
    Það var líka rangt hjá hæstv. forsrh., ef ég átti að skilja hann svo, að hækkunin á fiskverði nú fyrir skömmu hafi þýtt almennt hækkun fiskverðs til framleiðslustöðvanna því að fiskverðið var yfirborgað og það var einungis verið að horfast í augu við raunveruleikann.
    Ég vil líka segja það út af þeim ummælum hæstv. forsrh., þegar hann talaði um það að 15 fyrirtæki sem hefðu sótt um fé úr Hlutabréfasjóði gætu vænst þaðan einhverrar afgreiðslu. Samkvæmt Hlutabréfasjóðnum eru það einungis 600 milljónir sem hafa ríkisábyrgð. 31 fyrirtæki hefur sótt um fyrirgreiðslu úr sjóðnum og þess vegna eru hvergi nærri til þessir 2 milljarðar sem hæstv. forsrh. var að gefa í skyn að þessir aðilar gætu búist við. Hvert fyrirtæki getur kannski búist við að fá 20--30 milljónir úr Hlutabréfasjóði, það er eitthvað á þeirri stærðargráðu. (Forseti hringir.) Ég verð, herra forseti, að taka það fram að mér var sagt þegar ég bað hér um orðið áðan um þingsköp að flm. þessa frv. hefðu beðið um það að umræðan yrði áfram á þriðjudaginn, en ég vil minna hæstv. forseta á að ráðherrar hafa ekki verið hér mikið í deildum. Ég bað um að fá að leggja nokkrar fyrirspurnir fyrir hæstv. forsrh. í dag og ég óska eftir að fá að tala í 2--3 mínútur enn til þess að ég geti svarað því sem hæstv. forsrh. sagði.
    Aðalatriðið í mínum huga eftir þetta er: Ríkisstjórnin hefur engar áætlanir uppi um það að koma til móts við þá erfiðleika sem nú eru í fiskvinnslunni. Hæstv. forsrh. viðurkenndi í sinni ræðu

að fiskvinnslan gæti ekki tekið á sig þær launahækkanir sem fjárlög gera ráð fyrir til ríkisstarfsmanna og ríkisstjórnin virðist vera ákveðin í að nái fram að ganga í það minnsta 7% launahækkanir. Þannig að eins og staðan er nú, þá stefnir í atvinnuleysi. Þegar standa sakir þannig að fyrirsjáanlegt er að e.t.v. helmingur skólabarna fái ekki atvinnu nú á sumri komanda, það stefnir í frekari samdrátt hjá atvinnuvegunum. Og ég hygg að þegar við hittumst á hausti komanda, ef þessi ríkisstjórn heldur þá velli, verði ekki verið að tala um launahækkanir og hæstv. forsrh. ekki spurður um launahækkanir hér í þessari deild, heldur verður hann spurður að því hvaða tillögur hann muni leggja fyrir Alþingi í samráði við formann BSRB um það að draga úr atvinnuleysinu sem þá verður orðið landlægt og mjög alvarlegt í sumum byggðarlögum þannig að þar liggi við landauðn.